
Máltækni
MA gráða
Máltækni er þverfaglegt rannsóknar- og þróunarsvið sem spannar m.a. tölvunarfræði, málvísindi, gervigreind, tölfræði og sálfræði. Máltækni miðar að því að þróa búnað sem getur unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðla að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu. Markmið meistaranáms í máltækni er að veita nemendum vísindalega og hagnýta þjálfun og búa þá undir framhaldsnám og störf af ýmsu tagi.

Um námið
Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík eiga samstarf um meistaranám í máltækni. Nemendur geta verið skráðir í hvorn skólann sem er en eiga kost á að taka námskeið í samstarfsskólanum án aukakostnaðar.
BA-próf með fyrstu einkunn í íslensku eða almennum málvísindum sem aðalgrein, eða BS-próf í tölvunarfræði eða hugbúnaðarverkfræði með lágmarkseinkunn 6,5 eða hærri. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi í öðrum skyldum greinum geta einnig sótt um inngöngu og er þá undirstaða þeirra metin sérstaklega.Nemandi skal hafa tekið a.m.k. 10 eininga lokaverkefni.