Um nám í þýsku | Háskóli Íslands Skip to main content

Um nám í þýsku

Menntun í þýsku opnar dyr að málsvæði sem er okkur Íslendingum mjög mikilvægt í menningar-, stjórnmála- og efnahagslegu tilliti. Þýska er móðurmál u.þ.b. 90 milljóna Evrópubúa og opinbert tungumál fimm evrópskra ríkja sem við tengjumst með margvíslegum hætti í alþjóðlegu samstarfi.

Námsleiðir í grunnnámi í þýsku

Í námi í þýsku til BA-prófs er lögð áhersla á að nemendur nái sem bestum tökum á þýskri tungu og afli sér þekkingar og skilnings á margbreytileika hennar og þeirri menningu sem hún endurspeglar. Námskeiðin eru fjölbreytt: Sum eru hagnýt og snúast um að ná tökum á þýsku í ræðu og riti; önnur veita yfirgripsmikla þekkingu á bókmenntum, menningu og þjóðlífi þýska málsvæðisins; í enn öðrum er fræðileg lýsing tungumálsins í brennidepli. Auk þess er boðið upp á námskeið í þýðingum, þýsku í ferðaþjónustu, þýskum kvikmyndum og kennslufræði þýsku sem erlends máls.

Þýsku sem aðalgrein til BA-prófs má taka sem þriggja ára nám í þýsku einvörðungu eða sem tveggja ára nám í þýsku og eins árs nám í aukagrein. Vakin er athygli á nýju kjörsviði sem nefnist þýska og viðskiptafræði.

Taka má þýsku sem aukagrein til BA-prófs með öllum greinum Hugvísindasviðs og ákveðnum greinum af öðrum sviðum, svo sem ferðamálafræði, stjórnmálafræði, félagsfræði og hagfræði. Nemendur í grunnnámi í tölvunarfræði geta valið svokallaðan tungumálapakka í þýsku (30 einingar) án sérstaks samþykkis deildar. Nemendur í 180 eininga grunnnámi í ferðamálafræði geta valið námskeið úr tungumálapakka þýskunnar án sérstaks samþykkis námsbrautar. Nemendur í vissum greinum geta einnig tekið stök námskeið í þýsku sem valnámskeið.

Í eins árs diplómanámi í þýsku sem og í hagnýtri þýsku (eins árs aukagrein til BA-prófs eða þriggja missera diplómanám) er lögð megináhersla á hagnýta málnotkun, menningarmiðlun og þekkingu á þjóðlífi þýskumælandi ríkja.
 
Á öðru misseri námsins er efnt til námskeiðs í háskólaborginni Tübingen í Suður-Þýskalandi. Auk þess er unnt að taka hluta þýskunámsins sem skiptinám í þýskumælandi landi.

Í greininni eru iðulega starfandi þýskir háskólanemar sem eru í starfsþjálfun við HÍ og bjóða þýskunemum upp á fjölþætta þjónustu á einstaklingsgrundvelli eða í litlum hópum, svo sem talæfingar, tilsögn í málfræði eða aðstoð við samningu og frágang kynninga og ritgerða.

Markmið

Markmið BA-náms í þýsku er að nemendur: 

  • geti talað þýsku reiprennandi
  • öðlist vald á þýsku ritmáli til að semja vandaða texta um ýmis viðfangsefni
  • öðlist trausta þekkingu og skilning á nokkrum sérhæfðum sviðum þýskra fræða svo sem þýsku máli, bókmenntum og menningu þýska málsvæðisins, þjóðlífi þýskumælandi ríkja, þýðingum, kennslufræði þýsku eða notkun þýsku í atvinnulífi
  • hljóti þjálfun í fræðilegum vinnubrögðum.

Markmið eins árs diplómanáms í þýsku sem og náms í hagnýtri þýsku er að nemendur

  • bæti færni sína í talaðri og ritaðri þýsku og auki orðaforða sinn, einkum með tilliti til þátttöku í atvinnulífinu
  • hljóti undirbúning undir störf í atvinnulífinu, t.d. í ferðaþjónustu, verslun og stjórnsýslu.

Í MA-námi er lögð aukin áhersla á sérhæfða þekkingu og sjálfstæð akademísk vinnubrögð.

Kennsluhættir

Þýska er einkum kennd í æfinga- og umræðuformi og að nokkru leyti í formi fyrirlestra, auk þess sem heimavinna, fjölbreytt verkefnavinna og ritgerðasmíð er veigamikill þáttur í náminu.

Frekari upplýsingar

Almennar upplýsingar um nám í þýsku veitir Bernharð Antoniussen verkefnisstjóri (bernhard@hi.is, 525-4354)

Upplýsingar um skiptinám erlendis veitir Guðrún Birgisdóttir verkefnisstjóri (gb@hi.is, 525-4262)

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.