Skip to main content

Um MA-nám í Norðurlandafræði

Um MA-nám í Norðurlandafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í meistaranámi í Norðurlandafræðum er lögð áhersla á Norðurlönd sem sérstakt mál- og menningarsvæði. Um er að ræða hagnýtt nám, sem hefur þann tilgang að búa nemendur undir hvers konar störf og samskipti, þar sem reynir á haldgóða kunnáttu í dönsku, norsku og sænsku auk almennrar þekkingar á menningu og samfélagsgerð norrænna þjóða. Nefna má störf sem tengjast norrænni samvinnu, utanríkisþjónustu, ferðaþjónustu og fjölmiðlum.

Nemendur fá innsýn í það sem einkennir norræn þjóðfélög og þróun þeirra, daglegt líf, bókmenntir og menningu. Áhersla er lögð á að nemendur geti nýtt kunnáttu sína í a.m.k. einu Norðurlandamáli til að öðlast alhliða færni í dönsku, norsku og sænsku (þ.m.t. finnlands-sænsku) og notað þau til samskipta á norrænum vettvangi.

Nánari upplýsingar

Markhópur/Inntökuskilyrði
Skilyrði fyrir inntöku er að nemendur hafi afar góð tök á dönsku, norsku eða sænsku. Rétt er að undirstrika að ekki er gerð krafa um BA-nám í einu skandinavísku málanna, heldur að nemendur hafi lokið námi á BA-/BS-stigi og geti sýnt fram á góða kunnáttu sína í dönsku, norsku eða sænsku. Markhópurinn er þannig t.d.:

  • þeir sem hafa numið norræn fræði innan eða utan Norðurlanda og vilja auka möguleika sína til frekara náms, leiks eða starfa í norrænu samhengi.
  • þeir sem hafa lokið háskólanámi á BA-/BS-stigi eða sambærilegu námi á Norðurlöndum og hafa notað dönsku, norsku eða sænsku í námi sínu.
  • þeir sem með öðrum hætti hafa náð afar góðum tökum á dönsku, norsku eða sænsku og hafa lokið BA-/BS-námi. 

Inntak námsins
Það sem einkennir Norðurlönd sem svæði m.a. með tilliti til  menningar (t.d. bókmennta, kvikmynda, byggingarlistar og fjölmiðla), tungumála (þróun málanna, það sem er líkt og ólíkt í beygingarkerfi, orðaforða og málvenjum) og samskipta auk helstu samfélagslegra einkenna. Í námskeiðum um tjáskipti verður varpað ljósi á stöðu ólíkra tungumála og hvernig þau tengjast menningarlegum fjölbreytileika á Norðurlöndum. Sérstök áhersla verður lögð á málnotkun svo sem hvað beri að hafa í heiðri og hvað beri að varast í samskiptum við Norðurlandabúa. Í námskeiðum um bókmenntir og menningartengd efni verður nálgunin  þverfagleg og áhersla lögð á samanburð og þróun. Á þann hátt fái nemendur innsýn í strauma og stefnur í bókmenntum, kvikmyndum og fjölmiðlum.

Kennslan fer jöfnum höndum fram á dönsku, norsku og sænsku og verður námsefni (prentaðir eða rafrænir textar/hljóð-/myndefni) einnig á þessum tungumálum.

Námsskipan
Meistaranámið er í heild 120 einingar (ects) og er miðað við að sé lokið á tveimur árum (4 misserum). MA-námið er samsett úr átta 10 ects eininga námskeiðum (eða í vissum tilvikum minni námskeiðum). Því lýkur með 40 eininga fræðilegri lokaritgerð um tjáskipti, bókmenntir eða samfélag, þar sem samanburði eða gagnvirkni er beitt til að greina og varpa ljósi á norrænar víddir.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.