Um BA-nám í kínverskum fræðum | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í kínverskum fræðum

Kína er fjölmennasta ríki og annað stærsta hagkerfi veraldar sem leika mun leiðandi hlutverk á flestum sviðum mannlífs í heiminum á 21. öldinni. Ástundun kínverskra fræða gerir nemendum kleift að tjá sig á og skilja hversdagslegt mál. Nemendur öðlast einnig haldbæra þekkingu á kínversku ritmáli sem verið hefur í samfelldri mótun í yfir 3000 ár. Loks hefur námið að geyma menningar-, samfélags- og viðskiptatengd námskeið.

Námsleiðir og kjörsvið

Námslína kínverskra fræða hefur verið í boði síðan haustið 2007. Frá og með haustmisseri 2012 hefur einnig verið í boði kjörsvið viðskiptatengdrar kínversku. Í báðum tilfellum er mikil áhersla lögð á að nemendur öðlist færni í kínversku máli, jafnt í ræðu sem riti, en jafnframt sækja þeir önnur námskeið háð viðkomandi sviði.

Í kínverskum fræðum er boðið upp á þrjár námsleiðir, aukagrein til 60 eininga, aðalgrein til 120 eininga og aðalgrein til 180 eininga. Hin síðasttalda felur í sér eins árs skiptinám við erlendan samstarfsskóla Háskóla Íslands, helst í Kína eða Tævan.

Viðskiptatengd kínverska er þverfagleg námsleið kínverskra fræða og viðskiptafræði. Á kjörsviðinu er boðið upp á tvær námsleiðir, aðalgrein til 120 eininga og aðalgrein til 180 eininga. Hin síðasttalda felur í sér eins árs skiptinám við kínverskan samstarfsskóla Háskóla Íslands.

Um námið

Með kínversku er átt við staðlað kínverskt talmál sem einnig er kennt við mandarín (embættismál fyrri tíma), guoyu („þjóðtunga“) og putonghua („almenn tunga“). Þessi staðlaða tegund kínversku er grundvölluð á mállýskunni sem töluð er í Beijing en samsvarar henni ekki að fullu. Stöðlun tungumálsins nær aftur til stofnun Kínverska lýðveldisins árið 1912 en það hefur um langt skeið verið opinbert mál Kínverska alþýðulýðveldisins, Tævan og Singapore og er einnig eitt opinberra tungumála Sameinuðu þjóðanna. Geta má nærri að um milljarður manna tali staðlaða kínversku og að nálægt hálfum milljarði til viðbótar hafi tök á að tjá sig á henni. 
 
Hvað viðvíkur málfræði er kínverska ekki sérstaklega flókið tungumál en uppbygging hennar er afar frábrugðin indó-evrópskum málum og því krefst það aga og mikillar vinnu að tileinka sér séreinkenni hennar. Í kínverskunáminu er markmiðið að gera nemendum kleift að tjá sig á og skilja hversdagslegt mál.

Nemendur læra einnig grundvöll kínversks ritmáls sem verið hefur í samfelldri mótun í yfir 3000 ár. Miðað verður við ritstaðla Kínverska alþýðulýðveldisins. Umritunarform orða er pinyin-kerfið og kennd eru jiantizi eða einfölduð tákn.

Kínversk fræði fela í sér ýmis menningar- og samfélagstengd námskeið. Þar á meðal fær löng og viðburðarík saga Kína talsvert rými en nemendur fá einnig innsýn í öra framvindu Kína í nútímanum og hið gríðarlega margbrotna kínverska samfélag samtímans.

Kjörsvið viðskiptatengdrar kínversku býður upp á samstíga nám í kínversku og viðskiptafræði sem gerir nemendum kleift að undirbúa sig fyrir viðskiptatengd störf sem snúa að kínverskum markaði og efnahagskerfi.

Markmið

Markmið náms á kjörsviði kínverskra fræða er að gera nemendum kleift að öðlast haldbæran skilning á þessu fjarlæga og spennandi menningarsamfélagi fyrir tilstilli sterkrar undirstöðu í tungu, sögu og samfélagsrýni. Nemendur í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands öðlast:

  • færni í akademískum vinnubrögðum;
  • gott vald á kínverskri tungu;
  • undirstöðuþekkingu á kínverskum málvísindum;  
  • þekkingu á sögulegum og heimspekilegum forsendum kínversks samtíma;  
  • innsýn inn í þróun, breytingar og stefnu kínversks samfélags samtímans;
  • skilning á veigamestu birtingarformum kínverskrar menningar.

Markmið náms á kjörsviði viðskiptatengdrar kínversku er að gera nemendum kleift að öðlast gott vald á kínverskri tungu, fá innsýn í kínverskt menningarsamfélag og trausta undirstöðu í viðskiptafræði. Nemendur í viðskiptatengri kínversku við Háskóla Íslands öðlast:

  • færni í akademískum vinnubrögðum;
  • gott vald á kínverskri tungu;
  • trausta undirstöðu í viðskiptafræði

Hagnýtt gildi

Nám í kínverskum fræðum og viðskiptatengdri kínversku býr yfir ótvíræðu hagnýtu gildi hvað varðar starfsmöguleika. Enginn vafi leikur á því að Kína muni leika leiðandi hlutverk á flestum sviðum mannlífs í heiminum á 21. öldinni. Hlutverk Kína í vísindum, stjórnmálum, viðskiptum, ferðamennsku, íþróttum, menningarmálum og listum verður sífellt umfangsmeira á heimsvísu. Námið greiðir því götuna fyrir ýmsa starfstengda möguleika á ofangreindum sviðum sem og fjölda annarra. Ljóst er að á Vesturlöndum verður sífellt brýnna að átta sig á menningu og hugsun þessarar fjarlægu þjóðar sem var meira eða minna einangruð frá Vesturlöndum allt frá upphafi söguritunar en hefur verið að opna sig gagnvart umheiminum á undanförnum fjórum áratugum.

En ekki má gleyma gildi námsins fyrir eigin þroska og fágun. Kínversk menning er óendanleg uppspretta stórbrotinna bókmennta, ljóðagerðar, heimspeki og vísdóms sem lætur engan ósnortinn. Kínversk tunga er lykillinn sem veitir okkur aðgang að þessum leyndardómsfullu gersemum.

Skiptinám og erlend samskipti

Við námslínuna er hvatt mjög til skiptináms, enda fátt sem kemur í stað þess að dvelja í kínversku menningar- og málumhverfi. Skiptinám í kínverskum fræðum er hins vegar einungis í boði fyrir nemendur sem lokið hafa a.m.k. 55 einingum í kínversku máli við Háskóla Íslands. Þannig hafa nemendur í 120 eininga BA-námi kost á að halda til náms við samstarfsskóla að loknum þremur misserum og verja þar einu misseri.

Við 120 eininga nám er unnt að bæta við einu ári í skiptinámi við samstarfsskóla Háskóla Íslands í Kína, Tævan eða annars staðar og ljúka þannig 180 eininga BA-námi í kínverskum fræðum. Nemendur sem kjósa þessa leið þurfa að hafa lokið 70 einingum í kínversku máli við Háskóla Íslands.

Skiptinám á kjörsviði viðskiptatengdrar kínversku er einungis í boði á síðasta námsári og þá að loknum öllum skyldunámskeiðum í kínversku máli og menningu við Háskóla Íslands, samtals 66 einingum. Á þriðja ári ljúka nemendur lokaritgerð í tengslum við skiptinám sitt.

Tvíhliða samningar um stúdentaskipti hafa verið gerðir við ýmsa kínverska og tævanska háskóla, sjá nánar hér: http://www.hi.is/skolasamningar.

Kínverska menntamálaráðuneytið býður árlega styrki til náms í kínverskum háskólum og sömuleiðis er í boði styrkur árlega til náms í Tævan. Konfúsíusarstofnun veitir frambærilegum nemendum í skiptinámi einnig námsstyrki fyrir námsdvöl í Kína.

Nemendum stendur til boða að sækja þriggja vikna sumarnám við Nordic Center í Fudan háskóla í Shanghai. Námskeið þessi miða að því að kynna kínverskt samfélag og efnahagslíf. Þau eru auglýst á vorönn og getur Háskóli Íslands tilnefnt þrjá nemendur til að sækja námskeiðið hverju sinni.

Háskóli Íslands er aðili að Nordic NIAS Council sem tekur þátt í rekstri Norrænu Asíustofnarinnar – NIAS í Kaupmannahöfn. Stofnunin hefur meðal annars að geyma umfangsmesta bókasafnið á Norðurlöndum fyrir rannsóknir sem snúa að Asíu. Nemendur í framhaldsnámi og starfsmenn háskólans geta sótt um að eyða tveimur vikum við stofnunina til að stunda rannsóknir og komast í bein kynni við rannsakendur stofnunarinnar. Norræna Asíustofnunin stendur einnig fyrir ráðstefnum og málþingum sem auglýst eru hverju sinni.

Fyrir tilstilli ERASMUS og Nordplus samstarfs gefst einnig kostur á að nema kínversku við norræna og evrópska samstarfsháskóla, þótt mælt sé með því að nemendur í kínverskum fræðum verji skiptinámi sínu í kínversku málumhverfi.

Alþjóðaskrifstofa Háskóla Íslands veitir nánari upplýsingar um þá möguleika sem eru fyrir hendi.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.