Um BA-nám í japönsku máli og menningu | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í japönsku máli og menningu

Japanska er áttunda útbreiddasta tungumál veraldar og hafa tæplega 130 milljónir manna hana að móðurmáli. Kunnátta í japönsku er mikilvæg fyrir pólitísk, menningarleg og efnahagsleg samskipti við Japan. Að loknu tveggja ára námi í japönsku hafa nemendur öðlast grundvallarþekkingu á tungumálinu og eru tilbúnir til framhaldsnáms í japönsku við erlenda háskóla.

Um námið
Til viðbótar við tungumálakennslu er jafnframt veitt yfirsýn yfir menningu og sögu Japans, japanskar bókmenntir og japanska kvikmyndalist. Nemendur öðlast innsýn í japanskt samfélag og menningu þar sem þeir læra m.a. um daglegt líf í Japan, fjölskylduna, stöðu kynjanna, menntun, hagkerfið, tónlist af ýmsu tagi, myndasögur, teiknimyndir, siði og venjur.

Námsleiðir
Japanska sem 120 eininga aðalfag til BA-gráðu: Tveggja ára nám í japönsku (120 einingar) með aukafag (60 einingar) á öðru sviði. Stúdentar skila BA-ritgerð í japönskum fræðum.

Að loknu tveggja ára námi í japönsku við Háskóla Íslands gefst nemendum kostur á áframhaldandi japönskunámi við erlendan háskóla og ljúka þá 180 einingum . Stúdentar skila BA-ritgerð í japönskum fræðum.

Einnig geta stúdentar útskrifast með japönsku sem hluta af tvöföldu aðalfagi, þ.e.a.s. 120 einingar í japönsku og 120 einingar í öðru fagi (t.d. ensku).

Japanska sem 60 eininga aukagrein: Eins árs nám í japönsku (60 einingar) með aðalfag (120 einingar) á öðru sviði.

Skiptinám

Nemendum í japönsku gefst kostur á að fara í skiptinám í japanskan háskóla eða annan erlendan háskóla sem er með kennslu í japönsku og er í samstarfi við Háskóla Íslands. Þeir nemendur, sem taka japönsku sem aðalfag (180 einingar) og eru á þriðja ári eða hafi lokið 120 einingum í japönsku, hafa forgang.

Markmið námsins
Að kynna nemendum helstu reglur japanskrar málfræði og gera þeim kleift að skilja talað mál og tjá sig á japönsku. Nemendur kynnast einnig japönsku ritmáli, þ.e.a.s. kana og kanji, og læra að lesa og skrifa þau tákn sem koma fyrir í námsefninu. Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér orðaforða til lesturs og ritunar einfaldra texta.

Í upphafi tungumálanámsins læra nemendur þann grunn sem nauðsynlegt er að hafa til þess að læra japönsku; ritmálið.

  • Hiragana. Notað til að rita orð af japönskum uppruna
  • Katakana. Notað til að rita orð af erlendum uppruna – t.d. eru erlend sérnöfn skrifuð með þessu letri
  • Kanji. Kínverskt myndletur sem notað er samhliða Hiragana og Katakana

Kana ritmálin eru fljótlærð í byrjun námsins og stöðugt mun bætast í ritskilning Kanji tákna ásamt því að nemendur byggja upp nýjan orðaforða og læra málfræðina. Að loknu námi munu nemendur hafa öðlast innsýn í japanska menningu og menningarsögu, geta haldið uppi samræðum um almenn málefni á japönsku og geta lesið og skrifað einfaldari texta.

Nemendafélag:
Nemendafélög japönskunema heita Banzai (2003-4), Koohiibureeku (2004-5), Aisukuriimu (2005-7) og Banzai (2007-2018).

Nánari upplýsingar
Gunnella Þorgeirsdóttir, lektor í japönsku (gunnella@hi.is).

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.