Um BA-nám í frönskum fræðum | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í frönskum fræðum

Franskan er mikilvægt tungumál í alþjóðasamstarfi. Hún er, ásamt ensku og þýsku, vinnumál (langue de travail) hjá Evrópusambandinu og eitt sex opinberra tungumála hjá Sameinuðu þjóðunum. Nám í frönskum fræðum veitir nemendum góða þekkingu á franskri tungu, bókmenntum, menningu, sögu og þjóðlífi hins frönskumælandi heims.

Skipulag náms í frönskum fræðum til 120 og 180 e (pdf)

Upplýsingar um frönsk fræði í Kennsluskrá.

Um frágang ritgerða, lokaritgerða (BA) og notkun heimilda (pdf)

Námið og kennslan

Nám í frönsku er fjölþætt. Á öllum stigum og í öllum námskeiðum BA-námsins fá nemendur þjálfun í notkun tungumálsins þótt á ólíkan hátt sé. Á 1. námsári er mikil áhersla lögð á málfræði og talþjálfun en þær hliðar námsins teygja sig einnig inn í kennslu í bókmenntum, menningu og sögu Frakklands. Nemendur kynnast þróun tungumálsins, málvísindum og þýðingum. Loks fá þeir innsýn í menningarfræðilega, sögulega og samfélagslega þætti.

Kennsluhættir eru fjölbreyttir. Nemendur sitja námskeið, taka þátt í málstofum og umræðuhópum og sækja tíma í málveri. Þeir fá þjálfun í akademískum vinnubrögðum, ritun texta, málfræði, bókmenntarýni og fræðikenningum.

Skáldsögur, smásögur, leikrit og ljóð eru lesin og sett í samhengi við hugmyndasögu og samfélagshræringar. Reynt er bjóða reglulega upp á námskeið í kvikmyndum Frakklands og annarra frönskumælandi landa, leiklist og samfélagsrýni. Gestakennarar frá erlendum háskólum koma inn í kennsluna og halda fyrirlestra á sínu sérsviði.

Nám í frönskum fræðum má tengja öðru námi við Háskóla Íslands og öðrum skólum á fjölmargan hátt. Frönsk fræði má taka sem aukagrein með öllum greinum sem kenndar eru á Hugvísindasviði en einnig með stjórnmálafræði, ferðamálafræði, mannfræði og viðskiptafræði með áherslu á alþjóðasamskipti, svo eitthvað sé nefnt.

Námsleiðir
Franska er kennd til BA-prófs (sem aðalgrein og aukagrein auk hagnýtrar frönsku). Eftir BA-próf má læra frönsku til MA-prófs.

Markmið
Veita nemendum góða þekkingu á franskri tungu og gagnlega innsýn í menningu og þjóðlíf hins frönskumælandi lands.

Kennsluhættir
Fyrirlestrar, æfingatímar og málver. Kennsla fer fram á frönsku nema annað sé tekið fram.

Framhaldsnám
Að loknu BA-námi í frönskum fræðum er hægt að fara í framhaldsnám í öðrum greinum, s.s. Bókmenntum, menningu og miðlun, Evrópskum tungumálum, sögu og menningu, þýðingafræði, menningarfræði, heimspeki, sagnfræði, alþjóðasamskiptum, almennri bókmenntafræði og hagnýtri menningarmiðlun.

Háskóli Íslands býður upp á fjölbreytt framhaldsnám og er nánari upplýsingar um þær námsleiðir að finna á heimasíðu viðkomandi deilda og á skrifstofu Hugvísindasviðs.

Nám í frönskum fræðum getur einnig verið undirstaða fyrir nám eða framhaldsnám í öðrum greinum í frönskumælandi löndum. Námsráðgjafi getur aðstoðað við val á grunnnámi og framhaldsnámi, bæði innanlands og utan.

Erlend samskipti
Nemendur taka gjarnan hluta námsins við frönsku- og bókmenntafræðideildir í erlendum háskólum. Námsbrautin er í góðu samstarfi við fjölmarga háskóla í Frakklandi, Kanada, Belgíu og víðar. Þar fá nemendur tækifæri til að kynnast ólíkum menningarheimum af eigin raun.

Vegna samninga við erlenda háskóla (Grenoble, Brest, Montpellier, Nice, París (3, 4, 10), Perpignan, Strasbourg, Toulouse, Antilles, Montréal, Brussel o.fl.) er unnt að taka hluta af námi í greininni erlendis í samráði við fasta kennara. Einnig er mögulegt að stunda nám við frönsku- og bókmenntafræðideildir háskóla í öðrum löndum. Í sumum tilvikum er unnt að fá styrki á vegum Erasmus+. Nemendur sem taka frönsk fræði til 120 eða 180 eininga geta nýtt sér þennan möguleika. Nemendur þurfa að ljúka námskeiðum fyrsta námsárs til að geta sótt um skiptinám í greininni.

Nemendur velja hvort þeir fara utan í eitt misseri eða tvö. Þeir geta skrifað BA-ritgerð sína erlendis en þá er æskilegt að þeir hafi áður valið efni og leiðbeinanda.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Skrifstofu alþjóðasamskipta.

Húsnæði
Kennsla í frönsku fer einkum fram í Veröld.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.