
Nám í ensku við Háskóla Íslands er fræðilegt yfirlit yfir ensk málvísindi, bókmenntir, menningu og ensku sem heimsmál. Forsenda námsins er að nemendur hafi mjög góða færni í enskri ritun og talmáli.
Hagnýtt gildi
Enska er heimstungumál í alþjóðlegum viðskiptum, vísindum og mennta- og menningarmálum.
Í netvæddu nútímasamfélagi eru fá störf sem ekki krefjast góðrar enskukunnáttu: störf við fjölmiðla, tölvu- og netfyrirtæki, störf á alþjóðavettvangi og í ferðaþjónustu, skrifstofu- og stjórnunarstörf, kennsla, þýðingar o.fl.
Enska er lykillinn að framhaldsnámi og starfi, bæði á Íslandi og erlendis. Enn fremur er enska lykillinn að mörgum menningarheimum, sérstaklega bókmenntum, tónlist og kvikmyndum Bretlands, Bandaríkjanna, Kanada, Indlands, Ástralíu, Nýja-Sjálands, margra Afríkuþjóða og nokkurra Asíulanda. Enska er ekki einungis tungumál Shakespeares og Whitmans, heldur líka NASA og alþjóðavefsins – og einnig Hitchcocks, Kubricks, Presleys og Lennons!
Enskukunnáttan er því ómissandi í nútímaheimi; í menntun, starfi, menningu og frístundum. Háskólanám í ensku er því ómetanlegur stökkpallur út í lífið!
Námsleiðir
Enska er kennd til BA-gráðu (sem aðalgrein og aukagrein), til MA-gráðu og til MA-gráðu í enskukennslu. Einnig er boðið upp á grunndiplómanám í akademískri ensku sem ætlað er háskólastúdentum, öðrum en enskunemum, sem vilja styrkja færni sína í ensku í háskólanámi sínu. BA-nám tekur að jafnaði þrjú ár, MA-nám tekur tvö ár og grunndiplómunámið eitt ár, miðað við full námsafköst..
Kennsluhættir og námstilhögun
Kennsla í ensku fer fram í formi fyrirlestra, málstofa, einstaklingsviðtala, sjálfsnáms o.s.frv., allt eftir eðli námskeiðsins og námsefnisins.
Við leggjum áherslu á að kennslan sé eins sveigjanleg og hægt er og að kennsluefni sé fjölbreytt og margvíslegt. Það er okkur því sönn ánægja að geta boðið upp á allt BA-nám á fyrsta ári í fjarkennslu. Upptökur af fyrirlestrum, glærur auk ýmissa annarra stafrænna gagna eru aðgengilegar á netinu. Nemendur geta nálgast þetta efni á hvaða tíma sólarhrings sem er!
Húsnæði
Kennsla fer fram í öllum helstu byggingum á Háskólasvæðinu, allt eftir stærð námskeiða.
Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.