Um BA-nám í ensku | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í ensku

Nám í ensku við Háskóla Íslands er fræðilegt yfirlit yfir ensk málvísindi, bókmenntir, menningu og ensku sem heimsmál. Forsenda námsins er að nemendur hafi mjög góða færni í enskri ritun og talmáli.

Hagnýtt gildi
Enska er heimstungumál í alþjóðlegum viðskiptum, vísindum og mennta- og menningarmálum.

Í netvæddu nútímasamfélagi eru fá störf sem ekki krefjast góðrar enskukunnáttu: störf við fjölmiðla, tölvu- og netfyrirtæki, störf á alþjóðavettvangi og í ferðaþjónustu, skrifstofu- og stjórnunarstörf, kennsla, þýðingar o.fl.

Enska er lykillinn að framhaldsnámi og starfi, bæði á Íslandi og erlendis. Enn fremur er enska lykillinn að mörgum menningarheimum, sérstaklega bókmenntum, tónlist og kvikmyndum Bretlands, Bandaríkjanna, Kanada, Indlands, Ástralíu, Nýja-Sjálands, margra Afríkuþjóða og nokkurra Asíulanda. Enska er ekki einungis tungumál Shakespeares og Whitmans, heldur líka NASA og alþjóðavefsins – og einnig Hitchcocks, Kubricks, Presleys og Lennons!

Enskukunnáttan er því ómissandi í nútímaheimi; í menntun, starfi, menningu og frístundum. Háskólanám í ensku er því ómetanlegur stökkpallur út í lífið!

Námsleiðir
Enska er kennd til BA-gráðu (sem aðalgrein og aukagrein), til MA-gráðu og til MA-gráðu í enskukennslu. Einnig er boðið upp á grunndiplómanám í akademískri ensku sem ætlað er háskólastúdentum, öðrum en enskunemum, sem vilja styrkja færni sína í ensku í háskólanámi sínu. BA-nám tekur að jafnaði þrjú ár, MA-nám tekur tvö ár og grunndiplómunámið eitt ár, miðað við full námsafköst..

Kennsluhættir og  námstilhögun
Kennsla í ensku fer fram í formi fyrirlestra, málstofa, einstaklingsviðtala, sjálfsnáms o.s.frv., allt eftir eðli námskeiðsins og námsefnisins.

Við leggjum áherslu á að kennslan sé eins sveigjanleg og hægt er og að kennsluefni sé fjölbreytt og margvíslegt. Það er okkur því sönn ánægja að geta boðið upp á allt BA-nám á fyrsta ári í fjarkennslu. Upptökur af fyrirlestrum, glærur auk ýmissa annarra stafrænna gagna eru aðgengilegar á netinu. Nemendur geta nálgast þetta efni á hvaða tíma sólarhrings sem er!

Húsnæði
Kennsla fer fram í öllum helstu byggingum á Háskólasvæðinu, allt eftir stærð námskeiða.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám. 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.