Lyfjasprotar í sjávarsvömpum | Háskóli Íslands Skip to main content

Lyfjasprotar í sjávarsvömpum

Xia-xia Di, doktorsnemi við Lyfjafræðideild

„Rannsóknir hafa sýnt að efni úr náttúrunni hafa nýst á ýmsan hátt til meðferðar við kvillum og sjúkdómum og sem grunnur að mörgum lyfjum. Sjávarsvampar hafa verið rannsakaðir allnokkuð með tilliti til efnainnihalds en enn á þó eftir að kanna mörg efnasambönd í þeim út frá sjónarhóli lyfjavirkni,“ segir Xia-xia Di sem hóf doktorsnám í lyfjavísindum við Háskóla Íslands haustið 2014.

Xia-xia, sem er frá Kína, er í hópi margra erlendra doktorsnema sem koma til rannsókna við skólann. Rannsóknarverkefni hennar er styrkt af Verkefnasjóði sjávarútvegsins og AVS.

Rannsóknarverkefni Xia-xia ber heitið „Leit að ónæmisstýrandi lyfjasprotum í íslenskum sjávarsvömpum“ og beinist, eins og nafnið bendir til, að svömpum sem safnað hefur verið við Íslandsstrendur. „Náttúra Íslands hefur að geyma miklar og ókannaðar uppsprettur af náttúruefnum sem hafa líffræðilega virkni. Við ætlum að reyna að einangra efni úr sjávar- svömpum sem hafa áhrif á ónæmiskerfið,“ segir Xia-xia.

Xia-xia Di

Rannsóknarverkefni Xia-xia ber heitið „Leit að ónæmisstýrandi lyfjasprotum í íslenskum sjávarsvömpum“ og beinist, eins og nafnið bendir til, að svömpum sem safnað hefur verið við Íslandsstrendur.

Xia-xia Di

Þegar er búið að safna svömpunum og efni úr þeim skimuð með tilliti til ónæmisstýrandi áhrifa í sérstöku líkani. „Úr tveimur tegundum svampa erum við með efnaþætti sem lofa góðu og vinn ég nú að einangrun og byggingar- ákvörðun virku efnanna. Rannsóknir sýna að lífvirk efnasambönd í þessum svömpum gætu reynst áhugaverð til frekari rannsókna á áhrifum þeirra á bólgusjúkdóma,“ segir Xia-xia og bætir við að vinna hennar muni í framhaldinu snúa að því að prófa efnin frekar í dýralíkönum. Hún sé bjartsýn á að það takist að finna áhugaverð efnasambönd sem nýst geti til lyfjagerðar.

Leiðbeinendur: Sesselja S. Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild, og Jóna Freysdóttir, prófessor við Læknadeild.

Netspjall