Lýðheilsuvísindi | Háskóli Íslands Skip to main content

Lýðheilsuvísindi

Lýðheilsuvísindi

120 einingar - MPH gráða

. . .

Hefur þú áhuga á að bæta heilsu samfélaga og samfélagshópa með fyrirbyggjandi aðgerðum og forvarnarstarfi?
 

Viltu öðlast þjálfun í aðferðum og túlkun rannsókna á heilsufari og áhrifavöldum þess?
 

Þá gæti nám í lýðheilsuvísindum verið fyrir þig.

    

  

Um námið

Meistaranám í lýðheilsuvísindum er fjölbreytt og hagnýtt nám þar sem áhersla er á undirstöðuþekkingu á áhrifavöldum heilbrigðis, forvörnum og heilsueflandi aðgerðum.

Nemendur fá hagnýta þekkingu í framkvæmd heilbrigðisrannsókna og útfærslu forvarnaraðgerða.

     

  

Þverfræðilegt framhaldsnám

Fjölbreytt úrval valnámskeiða, þvert á deildir háskólans, gerir nemendum kleift að móta námið og rannsóknarverkefni að sínu áhugasviði.

Kjörsvið eru: 

 • Heilsa og lífstíll
 • Hnattræn heilsa

Nánar um námið í kennsluskrá

Inntökuskilyrði

Framhaldsnám

Umsækjendur um meistaranám í lýðheilsuvísindum þurfa að hafa lokið BS, BA prófi eða jafngildri prófgráðu frá háskóla. Ekki er gerð krafa um grunnnám í ákveðnum námsgreinum, en skipulag námsins gerir ráð fyrir að nemendur hafi bakgrunn í aðferðafræði. Við mat á umsækjendum er tekið mið af eftirfarandi:

 • Frammistöðu í grunnnámi. Að öllu jöfnu er gerð krafa um fyrstu einkunn og/eða raðeinkunn úr efsta þriðjungi í viðkomandi útskriftarárgangi.
 • Árangur í einstökum námskeiðum í grunnnámi (t.d. aðferðafræði).
 • Greinargerð umsækjanda um fræðilegt áhugasvið og markmið.

Sjáðu um hvað námið snýst

Hvað segja nemendur?

Friðgeir Andri Sverrisson
Heiðrún Hlöðversdóttir
Hjördís Lilja Lorange
Friðgeir Andri Sverrisson
Nemi í framhaldsnámi í lýðheilsuvísindum

Ég skráði mig í meistaranám í lýðheilsuvísindum að hluta til vegna viðfangsefnisins og að hluta vegna þess sveigjanleika sem felst í þverfræðilegu skipulagi þess.

Námið stendur traustum fótum á góðum grunni þar sem koma saman einstaklingar með breiðan bakgrunn sem ýtir undir möguleika á samstarfi og tækifærum víðsvegar í samfélaginu. Eftir að námi lauk og ég sótti út á vinnumarkaðinn reyndist þessi reynsla dýrmæt í leit að starfi við hæfi.

Það að geta mótað námið að eigin áherslum tryggði mér hámarksánægju og aukna getu til að einbeita mér að því sem ég vildi sérhæfa mig í og nýta mér það sem námið hefur upp á að bjóða, eins og að læra og starfa erlendis tengt náminu.

Heiðrún Hlöðversdóttir
nemi í framhaldsnámi í lýðheilsuvísindum

Sú þverfaglega nálgun sem meistaranám í lýðheilsuvísindum byggir á, þótti mér afar spennandi valkostur. Bakgrunnur minn í sálfræði kom sér vel þar sem námið byggir mikið á tölfræði og aðferðafræði rannsókna.

Námið hefur veitt mér góða innsýn inn í störf annarra fagstétta á heilbrigðissviði, bæði í gegnum kennara og samnemendur með ólíkan bakgrunn og menntun.

Helstu kostir námsins að mínu mati eru að nemendur geta valið úr fjölda valnámskeiða og þannig mótað námið eftir eigin áhugasviði.

Hjördís Lilja Lorange
Nemi í framhaldsnámi í lýðheilsuvísindum

Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum hefur verið mjög skemmtileg reynsla þar sem ég hef þurft að takast á við margar áskoranir. Í náminu hef ég tamið mér að beita gagnrýnni hugsun og byggt upp hæfni til að takast kerfisbundið á við vísindaleg viðfangsefni.

Námskeiðin eru vel skipulögð þar sem tækifæri gefst á að kynnast helstu viðfangsefnum lýðheilsuvísinda og kynna sér helstu ógnir sem stafa að lýðheilsu í dag. Einn af helstu kostunum við námið eru frábærir kennarar sem hafa yfirgripsmikla þekkingu sem þeir miðla með skemmtilegum og fróðlegum hætti á breiðu sviði fræðigreina.

Sú þekking og reynsla sem ég öðlaðist í meistaranáminu fór langt fram úr vonum mínum og hef ég náð að auka þekkingu á mínu áhugasviði. 

Mynd að ofan 
Texti vinstra megin 

Að námi loknu 

Námið er góður undirbúningur fyrir þá sem vilja helga sig rannsóknum eða ætla sér leiðtogahlutverk á hinum fjölmörgu sviðum heilbrigðismála.

Starfsvettvangur að loknu námi í lýðheilsuvísindum er mjög fjölbreyttur.

Texti hægra megin 

Dæmi um starfsvettvang:

 • Vinna við rannsóknir
 • Fræðsla
 • Stefnumörkun
 • Stjórnun
 • Heilsuefling
 • Forvarnir

  
  
Félagslíf

Iðunn, félag nemenda í lýðheilsuvísindum, faraldsfræði og líftölfræði, sér um vísindaferðir, nemendafagnaði og málstofur.

Facebooksíða Iðunnar

Kynntu þér fjölbreytt félagslíf við Háskóla Íslands.

Hafðu samband

Miðstöð í lýðheilsuvísindum
Sturlugötu 8, 102 Reykjavík
Sími 525 4956
Netfang: publichealth@hi.is
 

Finndu okkur á Facebook og Twitter