Skip to main content

Ljósmóðurfræði til starfsréttinda

""

Ljósmóðurfræði til starfsréttinda

MS gráða

. . .

Viltu vinna fjölbreytt starf sem felur í sér stuðning við verðandi foreldra, heildræna umönnun, fræðslu, ráðgjöf og forvarnir?

Hefur þú áhuga á starfi sem felur í sér persónuleg tengsl við verðandi móður og fjölskyldu hennar á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu?

Viltu starfa við krefjandi, skemmtileg og gefandi verkefni?

Þá gæti nám í ljósmóðurfræði hentað þér!

Um námið

Nám í ljósmóðurfræði (120e) er tveggja ára fræðilegt og klínískt nám eftir BS-nám í hjúkrunarfræði. 

Náminu lýkur með meistaragráðu í ljósmóðurfræði sem tryggir starfsréttindi eftir að sótt hefur verið um ljósmóðurleyfi til Embættis landlæknis.

Nánar um námið

""

Breytt námskrá 2019

Með breyttri námsskrá í ljósmóðurfræði haustið 2019 var námsleiðin kandídatsnám í ljósmóðurfræði felld niður. Í staðinn lýkur námi í ljósmóðurfræði með meistaragráðu til starfsréttinda.

Sjáðu um hvað námið snýst

Hvað segja nemendur?

Edda Rún Kjartansdóttir
Rut Vestmann
Valgerður Lísa Sigurðardóttir
Ella Björg Rögnvaldsdóttir
Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir
Edda Rún Kjartansdóttir
ljósmóðurfræðinemi

Að vera ljósmóðurnemi krefst mikils af manni. Það krefst óbilandi metnaðar, áhuga á einstaklingnum, gífurlegs faglegs innsæis en síðast en ekki síst heiðarleika við sjálfan sig og aðra. En það að vera ljósmóðurnemi er líka best í heimi. Á námstímanum fær maður tækifæri til að sinna skjólstæðingum í gegnum allt barneignarferlið, aðstoða þau og vera til staðar á mikilvægustu og ánægjuríkustu en jafnframt stundum erfiðustu stundum lífs þeirra. Námið er að mestu leyti verklegt og það hafa verið forréttindi að fá að læra undir handleiðslu þeirra faglegu ljósmæðra sem starfa á fjölbreyttum starfssviðum innan ljósmóðurfræðinnar. Bekkirnir eru fámennir og myndast því yfirleitt samheldinn og náinn hópur og ég er stolt af því að geta kallað þær ljósusystur mínar.

Rut Vestmann
ljósmóðurfræðinemi

Ég hefði varla trúað því hversu gefandi, fræðandi og innihaldsríkt ljósmæðranámið er. Í náminu myndast síðan fámennur og þéttur vinahópur sem er gott að hafa í svona krefjandi námi. Það sem mér þykir einna helst spennandi við ljósmæðrastarfið er það hversu fjölbreytt starfið er og hversu sjálfstætt ljósmæður starfa. Þetta starf er síðan frábær blanda af fræðilegri þekkingu og mannlegu innsæi. Námið sjálft er mjög krefjandi en um leið er alltaf skemmtilegt að mæta í skólann og það er fyrir utan alla klínísku kennsluna sem fer fram í gegnum allt námið þar sem enginn dagur er eins og maður bætir við þekkingu sína daglega.

Valgerður Lísa Sigurðardóttir
doktorsnemi í ljósmóðurfræði

Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og hafði starfað sem ljósmóðir í 15 ár þegar ég ákvað að fara í doktorsnám. Val mitt á verkefni má rekja alveg aftur til þess er ég var ljósmóðurnemi en þá strax hafði ég mikinn áhuga á reynslu kvenna af fæðingu. Aðalmarkmið doktorsrannsóknar minnar er að þróa samtal fyrir konur sem hafa þörf fyrir að fara yfir fæðingarreynslu sína með ljósmóður. Innan Hjúkrunarfræðideildar hefur orðið til flott fræðasamfélag á sviði hjúkrunar- og ljósmóðurfræða þar sem völ er á hæfum leiðbeinendum í rannsóknartengdu námi. Auk þess er lögð rík áhersla á að doktorsnemar séu einnig í samstarfi við erlenda fræðimenn. Það verður mjög spennandi að takast á við frekari þróun þekkingar innan ljósmóðurfræða í framtíðinni.

Ella Björg Rögnvaldsdóttir
ljósmóðurfræðinemi

Ég valdi mér ljósmóðurfræði þar sem mér finnst starfsvettvangur ljósmæðra heillandi og fátt sem ég get hugsað mér betra en að vera fólki innan handar á jafn áhrifamiklum tíma í lífinu og í barneignaferlinu. Námið er fræðilegt en í senn mjög klínískt, krefjandi en skemmtilegt. Það sem helst hefur komið á óvart er hve fjölbreyttur starfsvettvangur ljósmæðra er. Rúsínan í pylsuendanum er svo að vera í svona litlum bekk þar sem myndast fljótt þéttur vinahópur.

Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir
ljósmóðurfræðinemi

Ég hafði gengið með ljósmóðurdrauminn í maganum í nokkur ár þegar ég loksins lét slag standa og sótti um. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því. Námið er mjög skemmtilegt og við sem hófum nám á sama tíma höfum tengst sterkum vinaböndum. Námið er einnig að miklum hluta verklegt og það hefur verið krefjandi en jafnframt yndislegt að fá að fylgja konum og fjölskyldum þeirra í gegnum barneignarferlið.  Ljósmóðurstarfið er líka fjölbreyttara en ég hafði séð fyrir sjálf. Ég hlakka til geta kallað mig ljósmóður.

Mynd að ofan 
Texti vinstra megin 

Að námi loknu

Náminu lýkur með réttindum til þess að sækja um starfsleyfi ljósmóður á Íslandi. Starf ljósmæðra er fjölbreytt, þær vinna m.a. við meðgönguvernd og fósturgreiningu, fæðingarhjálp, sængulegu og brjóstagjöf, forvarnir og ráðgjöf um kven- og kynheilbrigði. Ljósmæður starfa sjálfstætt innan og utan stofnana og próf í ljósmóðurfræði gefur möguleika á að starfa erlendis.

Við námsbraut í ljósmóðurfræði fer fram öflugt rannsóknastarf og nemendur eiga kost á því að tengjast alþjóðlegu rannsóknasamstarfi.

Texti hægra megin 

Dæmi um starfsvettvang

  • Sjúkrahús
  • Heilsugæslustöðvar
  • Leitarstöð Krabbameinsfélagsins
  • Einkafyrirtæki
  • Heimafræðingar og heimaþjónusta
  • Kennsla og rannsóknir

Hafðu samband

Skrifstofa Hjúkrunarfræðideildar
Eirberg, 1. hæð, Eiríksgata 34
101 Reykjavík
Sími 525 4960
hjukrun@hi.is

Opið virka daga frá kl. 9-12 og 13-14