Skip to main content

Litíum og langvinnir nýrnasjúkdómar

Runólfur Pálsson, prófessor við Læknadeild

Á undanförnum áratugum hafa komið fram vísbendingar um að langvarandi notkun geðlyfsins litíums geti valdið langvinnum nýrnasjúkdómi og jafnvel nýrnabilun. Rannsóknir hafa þó ekki verið einhlítar. Þetta er engu að síður mikilvægt rannsóknarefni því langvinnur nýrnasjúkdómur getur haft alvarlegar afleiðingar, bæði lokastigsnýrnabilun og aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum.“ Þetta segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala og prófessor í nýrnasjúkdómafræði.

Þátttakendur í rannsókninni eru allir sjúklingar á Íslandi sem voru í meðferð með litíum á árunum 2003–2010 en lyfið er gefið við geðhvarfasýki, einkum örlyndi. Við rannsóknina er m.a. stuðst við mælingar á litíum í blóði og ávísanir á litíum í lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins á áðurnefndu árabili og upplýsingar um nýrnastarfsemi og aðrar sjúkdómsgreiningar úr sjúkraskrám heilbrigðisstofnana.Tveir samanburðarhópar taka einnig þátt í rannsókninni.

Runólfur Pálsson

„Ofskammtur af litíum getur valdið bráðum nýrnaskaða en á hinn bóginn hefur verið umdeilt hvort langvarandi notkun lyfsins í lækningalegum skömmtum geti leitt til nýrnabilunar.“

Runólfur Pálsson, prófessor við Læknadeild

Aðspurður um kveikjuna að rannsókninni segist Runólfur hafa um árabil unnið að rannsóknum á útbreiðslu og orsökum langvinns nýrnasjúkdóms ásamt samstarfsmanni sínum, Ólafi Skúla Indriðasyni, nýrnalækni á Landspítala. „Ofskammtur af litíum getur valdið bráðum nýrnaskaða en á hinn bóginn hefur verið umdeilt hvort langvarandi notkun lyfsins í lækningalegum skömmtum geti leitt til nýrnabilunar. Við eins og ýmsir aðrir nýrnalæknar höfum rekist á tilvik þar sem grunur er um að litíum kunni að vera orsök langvinns nýrnasjúkdóms. Okkur þótti því mikilvægt að kanna þetta nánar,“ segir hann og bætir við að tilgáta þeirra sé að langvinnur nýrnasjúkdómur finnist í umtalsverðum mæli meðal þeirra sem taka litíum í langan tíma.

Rannsóknin er vel á veg komin og verða niðurstöður hennar væntanlega birtar í erlendu vísindatímariti á árinu 2015. Runólfur undirstrikar að brýnt sé að skera úr um það hvort litíum valdi langvinnum nýrnasjúkdómi og tryggja sem öruggasta langtímanotkun lyfsins meðan ekki sé völ á öðrum jafnvirkum lyfjum gegn örlyndi. „Enn fremur er mjög brýnt að læknar sem hafa sjúklinga í litíummeðferð séu meðvitaðir um þennan mögulega fylgikvilla og hagi eftirliti með hliðsjón af því,“ segir hann.