Skip to main content

Lífsgildi í leikskólastarfi

Jóhanna Einarsdóttir, prófessor og forseti Menntavísindasviðs 

„Í rannsókninni er tekist á við þá grundvallar- spurningu hvaða verðmæti og gildi það eru sem við teljum mikilvægt að miðla og hlúa að í skólastarfi,“ segir Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, sem tekur þátt í samnorræna rannsóknarverkefninu „Values education in Nordic preschools: Basis of education for tomorrow“. NordForsk styrkir rannsóknina en þátttakendur hér á landi eru rannsakendur og doktorsnemar á Menntavísindasviði auk leikskólakennara í tveimur leikskólum í Reykjavík.

Jóhanna Einarsdóttir

„Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á þætti leikskólans í menntun barna og hvernig þeir þróa og miðla ákveðnum lífsgildum.“

Jóhanna Einarsdóttir

„Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á þætti leikskólans í menntun barna og hvernig þeir þróa og miðla ákveðnum lífsgildum,“ segir Jóhanna. „Gengið er út frá því að leikskólar, sem fyrsta skólastigið, séu mikilvægur vettvangur fyrir miðlun lífsgilda. Mikilvægt markmið menntunar er fólgið í því að þroska með börnum og ungmennum þau gildi sem mikilvæg eru til að lifa sem ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi,“ segir hún. Rannsóknin tengist þeirri stefnumótun sem kemur fram í aðalnámskrá skólastiganna en þar eru settir fram sex grunnþættir menntunar sem eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla og vera sýnilegir í skólastarfi. Þessir þættir eru: sjálfbærni, læsi í víðum skilningi, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

„Verkefnið hófst á því að unnið var að því að kortleggja þau gildi sem eru sett í forgrunn í leikskólastarfinu og skoðað hvernig þeim gildum var miðlað. Í framhaldi af því hófu leikskólarnir breytingarferli þar sem á markvissan hátt var unnið með þau gildi sem starfsfólk leggur áherslu á,“ segir Jóhanna og bætir við: „Niðurstöður rannsóknarinnar hafa þríþætt gildi; í fyrsta lagi fyrir leikskólana sem taka þátt, í öðru lagi fyrir stefnumótun í menntamálum hér á landi, í þriðja lagi hefur rannsóknin vísindalegt gildi sem samanburðarrannsókn.“