Skip to main content

Leitað að góðum lausnum

Helga Ingimundardóttir, doktorsnemi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

„Í stuttu máli snýst verkefnið um að læra að bera kennsl á góðar lausnir,“ segir Helga Ingimundardóttir, doktorsnemi í iðnaðarverkfræði, um doktorsverkefni sitt sem ber vinnuheitið Verkniðurröðun í framleiðslufyrirtækjum.

Helga segir vinnuheiti rannsóknarinnar ef til vill örlítið blekkjandi því að aðferðafræðin sem hún vinni að sé síður en svo bundin við niðurröðun verka í framleiðslufyrirtækjum en til einföldunar hafi hún einskorðað sig við hana. „Ég skoða ólíkar lausnir við verkniðurröðun og hvernig einkennisþættir, t.d. ónýttur tími á færibandi, breytast í gegnum framleiðsluferlið. Lausnir eru bornar saman tvær og tvær og ákvarðað hvort önnur sé betri en hin. Síðan er beitt reiknifræðilegum aðferðum til að yfirfæra þessa þekkingu á ný verkefni,“ segir Helga.

Helga Ingimundardóttir

„Ég skoða ólíkar lausnir við verkniðurröðun og hvernig einkennisþættir, t.d. ónýttur tími á færibandi, breytast í gegnum framleiðsluferlið. Lausnir eru bornar saman tvær og tvær og ákvarðað hvort önnur sé betri en hin.“

Helga Ingimundardóttir

Helga segir hugmyndina að rannsókninni hafa kviknað þegar hún vann að verkniðurröðun fyrir Össur í námi sínu fyrir nokkrum árum. „Í eðli sínu er verkniðurröðun einfalt verkefni en þar sem hún skipar stóran sess hjá framleiðslufyrirtækjum er oft erfitt að leysa hana með nákvæmum aðferðum. Þetta voru mín fyrstu kynni af því að þurfa að sætta mig við einhverja lausn sem var ekki endilega hin fræðilega „besta“ lausn,“ segir Helga enn fremur.

Hún segir áherslu sína í námi hafa færst frá hinu fræðilega til hins hagnýta og hún hafi heillast af reiknigreind, en það er aðferð sem notuð er til að finna tengsl á milli tveggja hluta sem menn koma ekki svo auðveldlega auga á. Til þess eru stundum notaðar ofurtölvur. „Reiknigreind er nánast töfrum líkust. Með því að rýna í sambærileg verkefni og nýta tölvutækni er hægt að öðlast alls konar fróðleik, t.a.m. torræða þekkingu eða tilfinningu þeirra sem hafa ígrundað árum saman verkefni sem eru sambærileg,“ segir Helga og nefnir sem dæmi stundatöflur fyrir skóla.

Helga segist líta svo á að sitt hlutverk sé að koma með sérfræðivitneskju inn í hönnunina hjá framleiðslufyrirtækjum og láta svo tölvur sjá um mesta erfiðið. Í því skyni er hún að hanna reiknirit en þau eru notuð í stærðfræði og tölvunarfræði við lausn vandamála. „Reikniritið lærir að gera greinarmun á „góðum“ og „slæmum“ lausnum. Því má segja að aðferðafræðin eigi erindi í sérhverju verkefni sem felur að einhverju leyti í sér bestun, en sá listi er ótæmandi,“ segir Helga að lokum.

Leiðbeinandi: Tómas Philip Rúnarsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.