Skip to main content

Leiðtogastíll kvenpresta

Ásdís Emilsdóttir Petersen, doktor frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild 

Ásdís Emilsdóttir Petersen tók leiðtogaeinkenni íslenskra presta fyrir í doktorsritgerð sinni og segja má að niðurstöðurnar hafi komið verulega á óvart. „Ég lagði alþjóðlegan spurningalista fyrir presta og leikmenn um gæði í safnaðarstarfi og niðurstöðurnar sýndu að það er kynjamunur í leiðtogaeinkennum íslenskra kven- og karlpresta. Karlar skoruðu hærra í öllum þáttunum sem lagðir voru til grundvallar og greinilegur munur var á tveimur gæðaþáttum þar sem konur komu verr út í predikun og verklags- og skipulagsþáttum,“ segir Ásdís.

Ásdís Emilsdóttir Petersen

„Ég lagði alþjóðlegan spurningalista fyrir presta og leikmenn um gæði í safnaðarstarfi og niðurstöðurnar sýndu að það er kynjamunur í leiðtogaeinkennum íslenskra kven- og karlpresta. Karlar skoruðu hærra í öllum þáttunum sem lagðir voru til grundvallar ....."

Ásdís Emilsdóttir Petersen

„Í viðtölunum sem ég tók var lítið sem varpaði ljósi á þennan mun, nema að hefðin fyrir karlprestum er enn ríkjandi þrátt fyrir jákvætt viðhorf til kvenpresta. Ég tel mikilvægt að rannsaka þennan kynjamun enn frekar og skoða þá sérstaklega mismun á sviði predikunar og verklagsþátta. Til að mynda hvort munurinn liggi í menntun, hefð, menningu eða viðhorfi safnaðarins.“

Með niðurstöður sínar að leiðarljósi gerði Ásdís aðra rannsókn til þess að fá vísbendingu um hvort leggjast þurfi í víðtækari rannsóknir á leiðtogaeinkennum kvenpresta. „Í þeirri rannsókn leitaði ég svara við því hver tengslin séu á milli kvenpresta sem leiðtoga og grósku í safnaðarstarfi og þar kom predikunarþátturinn sterkt inn. Í ljós kom að 50% svarenda taldi karla predika út frá karllægum gildum en yfir 70% að konur prediki út frá kvenlægum gildum. Prestarnir sjálfir telja að sannfæringarkraftur leiði til bestu predikananna og að meðaldjúpar eða djúpar raddir hafi jákvæð áhrif á predikunina. Hinn dæmigerði þjóðkirkjumaður taldi skærar raddir leiðinlegar og að það væri hægt að hlusta lengur með athygli á djúpa rödd. Þá kom einnig fram að kvenprestar þyki of þjónustulundaðir,“ segir Ásdís.

Niðurstöður þessara rannsókna eru á skjön við erlendar rannsóknir sem ekki hafa greint mikinn mun á kven- og karlprestum. „Í ljósi þess að íslenskum kvenprestum fer fjölgandi er brýnt að rannsaka frekar þennan kynjamun, nú þegar um fjörutíu ár eru liðin frá því fyrsti kvenpresturinn tók vígslu. Rannsóknir sem þessar eru mikilvægar því þær stuðla að auknu gæðastarfi og hafa gildi fyrir kirkjuna sem þjónar meirihluta þjóðarinnar,“ segir Ásdís að lokum.

Leiðbeinandi: Pétur Pétursson prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.