Laust starf | Háskóli Íslands Skip to main content

Laust starf

Doktorsnemi í eðlisfræði við Raunvísindadeild - HI18080176

Opið er fyrir umsóknir fyrir stöðu doktorsnema í eðlisfræði innan Raunvísindadeildar við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Staðan er styrkt af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands til 3 ára.

Starfssvið

Heiti verkefnis og lýsing
 “Áloxíð sem gátt í rafsviðssmárum gerðum í kísilkarbíði” (e. Aluminum oxide as a gate dielectric for SiC MOSFETs)
Verkefnið snýst um rannsóknir á einöngrurum sem notaðir eru í svonefndum rafsviðssmárum (MOSFET) sér í lagi smárum sem gerðir eru í hálfleiðaranum kísilkarbíð (SiC) sem hafa betri nýtni en hefðbundnir kísilsmárar og leiða til umtalsverðs orkusparnaðar. Eins og sakir standa eru SiC smárarnir ekki samkeppnishæfir nema fyrir notkun við mjög háar spennur (> 900 V). Ástæðan er ekki tengd efniseiginleikum kísilkarbíðsins heldur því hvernig samskeyti SiC myndar við einangrandi efnið kísildíoxið (SiO2) sem nauðsynlegt er til stýra smáranum. Í þessu rannsóknarverkefni er markmiðið að leysa þetta vandamál með því að rækta annan einangrara (Al2O3) ofan á SiC í stað SiO2. Í verkefninu eru ræktaðar þunnar húðir af torleiðandi efnum með ýmsum aðferðum og eðlis- og rafeiginleikar þeirra rannsakaðir m.a. með röntgengreiningu (XRD), atómkraftsjá (AFM) og rýmdar og straummælingum. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við háskóla og fyrirtæki erlendis.

Hæfniskröfur

-         Við leitum að nemanda sem hefur meistaragráðu í eðlisfræði, eðlisverkfræði, rafmagnsverkfræði eða skyldum greinum.
-         Æskilegt er að viðkomandi hafi þekkingu á rafmælingum, eðlisfræði hálfleiðara og framleiðslu hálfleiðaraíhluta.
-         Sjálfstæði í vinnubrögðum og hæfni í mannlegum samskiptum.
-         Góð færni í ensku, bæði töluðu og rituðu máli.

Umsóknaferli

Umsókninni skal fylgja i) kynnisbréf (ekki lengra en 1 bls) þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað hann/hún hefur fram að færa við mótun og vinnslu þess. Til viðbótar skal fylgja; (ii) ferilskrá, (iii) afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistarapróf), og (iv) tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvernig má hafa samband við umsagnaraðila.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi hlutaðeigandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi.  Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans. 
Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.

Umsóknafrestur

Umsóknarfrestur er til og með 1. október 2018

Tengiliðir

Frekari upplýsingar veitir Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor í eðlisfræði, einars@hi.is, sími: 525 5153.


Netspjall