Laust starf | Háskóli Íslands Skip to main content

Laust starf

Doktorsnemi við Raunvísindadeild - HI18080073

Auglýst er eftir doktorsnema  vegna verkefnisins: Hitun rafeinda í rýmdarafhleðslu með flókinni efnafræði sem unnið verður við Raunvísindadeild, Háskóla Íslands.

Starfssvið

Verkefnið er styrkt til 3 ára af Rannís. Verkefnið snýst um að kanna hitunarferli rafeinda í rafgasi rafneikvæðrar rýmdarafhleðslu með flókinni efnafræði. Hreyfifræði rafeinda og hitunaferlið eru lykilatriði í virkni rýmdarafhleðslu þar sem þau ákvarða jónun og myndun hvarfgjarnra agna. Við notum 1d-3v ögn-í-sellu Monte Carlo árekstra aðferðina til að kanna eiginleika afhleðslunnar. Í fyrstu skoðum við einkum súrefnis og klór afhleðslur. Þrátt fyrir víðtæka notkun rýmdarafhleðsla og fjölbreytt notkunasvið er verkun þeirra ekki að fullu skilin. Skilningur er umtalsvert takmarkaðri þegar kemur að rýmdarafhleðslu sem drifin er á tveimur eða fleiri tíðnum. Slíkar afhleðslur hafa orðið æ vinsælli í iðnaði á undanförnum áratug. Hluti verkefnisins felst í að kynna niðurstöður sínar með fyrirlestrum á alþjóðlegum ráðstefnum og ritun greina í viðurkennd vísindatímarit.
Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á http://langmuir.raunvis.hi.is/~tumi/plasma.html

Hæfniskröfur

-         Umsækjendur skulu hafa meistarapróf í eðlisfræði, efnaverkfræði, eðlisverkfræði, rafmagnsverkfræði eða efnisvísindum
-         Sjálfstæði í vinnubrögðum og hæfni í mannlegum samskiptum
-         Góð færni í ensku, bæði töluðu og rituðu máli 
-         Góður bakgrunnur í rafsegulfræði og atómeðlisfræði
-         Færni í notkun MATLAB, c++ og LaTeX

Umsóknaferli

Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf 15. október 2018. Sótt er um starfið á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf.
Í framhaldi af ráðningu þarf að sækja formlega um doktorsnám við Háskóla Íslands.

Umsókninni skal fylgja i) kynnisbréf (ekki lengra en 3 bls) þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað hann/hún hefur fram að færa við mótun og vinnslu þess. Til viðbótar skal fylgja; (ii) ferilskrá, (iii) afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistarapróf), og (iv) tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvernig má hafa samband við umsagnaraðila.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi.  Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans. 

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.

Umsóknafrestur

Umsóknarfrestur er til og með 24. september 2018

Tengiliðir

Frekari upplýsingar veitir Jón Tómas Guðmundsson, prófessor í eðlisfræði, tumi@hi.is, sími: +46-8 790 7688 eða +354-525 4946.


Netspjall