Skip to main content

Laust starf

Lektor í stjórnunarfræði menntastofnana við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs - HI18010050

Laust er til umsóknar fullt starf  lektors í stjórnunarfræði menntastofnana við Uppeldis- og menntunarfræðideild Háskóla Íslands. Í starfinu felst kennsla, rannsóknir og áframhaldandi uppbygging náms fyrir stjórnendur  á öllum skólastigum.  

Starfssvið

Starfsskyldur lektorsins munu felast í kennslu á meistarastigi og leiðsögn með meistara- og doktorsnemum. Lektorinn mun jafnframt taka þátt í stjórnun og þróun náms og kennslu í samvinnu við aðra starfsmenn deildarinnar. Vænst er þátttöku í uppbyggingu og framþróun á sterku náms- og rannsóknarsviði. Rannsóknir eru 40% af starfi lektorsins.

Meginhlutverk viðkomandi eru: 
•          Kennsla á meistarastigi og leiðsögn með meistara- og doktorsnemum.
•          Rannsóknir á sviði menntastjórnunar.
•          Að vera leiðandi og skapandi á sviði rannsókna sem tengjast stjórnun menntastofnana 
•          Að byggja upp samstarf við starfsvettvang, s.s. samtök stjórnenda á öllum skólastigum og menntayfirvöld. 

Hæfniskröfur

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi  á sviði menntastjórnunar.
Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi haldgóða þekkingu og reynslu af störfum í skólakerfinu og góða innsýn í íslenskt menntakerfi. Sérstaklega er leitað eftir fólki með menntun eða rannsóknarreynslu af einu eða fleirum af eftirfarandi sviðum: stjórnun leik,- grunn- eða framhaldsskóla, mati á skólastarfi, skólaþróun, þróun menntakerfa og stofnanakenningum. 

Mikil áhersla er á að sá sem starfið hlýtur hafi góða færni í kennslu og rannsóknum og hafi framtíðarsýn um hlutverk sitt á sviðinu. Þá er krafist góðrar samstarfshæfni og lipurðar í mannlegum samskiptum. Horft verður til þess að umsækjendur falli sem best að þörfum og aðstæðum námsleiðarinnar Menntastjórnun og matsfræði og fræðasviðsins alls. 

Umsóknaferli

Ráðið verður í starfið til tveggja ára með möguleika á framlengingu. Að loknum fimm árum í starfi, ef til framlengingar kemur, er möguleiki á ótímabundinni ráðningu, sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Gert er ráð fyrir að ofangreint starf verði veitt frá 1. júlí 2018 eða samkvæmt nánara samkomulagi. 

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til vísindasviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 6, 101 Reykjavík. 

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009. 

Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.

Við ráðningar í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands

Á Menntavísindasviði fer fram rannsóknartengt starfsnám fyrir kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, uppeldis- og menntunarfræðinga, íþrótta- og heilsufræðinga, tómstunda- og félagsmálafræðinga og þroskaþjálfa.  Lögð er áhersla á rannsóknir og þróunarstarf sem unnið er í samstarfi við starfsvettvang þeirra stétta sem menntaðar eru á sviðinu.

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands. Háskólinn veitir nemendum víðtæka menntun á öllum helstu fræðasviðum og þjónar stofnunum, fyrirtækjum og stjórnvöldum í þágu almannaheilla. Háskóli Íslands býður fjölbreytt nám á öllum stigum og er eini háskóli landsins sem býður grunnnám og framhaldsnám á öllum helstu fræðasviðum.

Umsóknafrestur

Umsóknarfrestur er til og með 26. febrúar 2018

Tengiliðir

Nánari upplýsingar um starfið veitir Anna Kristín Sigurðardóttir, varadeildarforseti í síma 525-5502 (aks@hi.is).


Netspjall