Skip to main content

Laust starf

Nýdoktor við Lífvísindasetur Háskóla Íslands - HI18010150

Rannsóknarhópur okkar (www.magnuslab.is) leitar eftir hæfileikaríkum og áhugasömum nýdoktor til að ganga til liðs við hópinn. Um fullt starf er að ræða en staðan er styrkt í tvö ár af Rannsóknarsjóði Vísinda- og tækniráðs.  

Hópstjóri er Erna Magnúsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands. 

Starfssvið

Rannsóknir okkar beinast að stjórnun umritunar og áhrifum hennar á frumusérhæfingu, með sérstaka áherslu á DNA-raðar sértæka umritunarþætti. Við notum bæði stofnfrumur úr fósturvísum músa sem líkön fyrir rannsóknir okkar, sem og frumulínur úr krabbameinum manna og krabbameinsvef beint úr sjúklingum. Nýdoktorinn myndi vinna að verkefni sem miðar að því að rannsaka virkni og sameindaferla umritunarþátta sem miðla framrás þroskunar mismunandi fjölhæfnistiga og frumusérhæfingar í snemmþroska músa. Viðkomandi myndi nota ræktir á frumum úr fósturvísum músa sem líkan fyrir viðburði  snemma í fósturþroska. Ætlast er til að nýdoktorinn setji fram tilgátur og prófi þær með tilraunum. Nýdoktorinn þarf því að hanna og framkvæma tilraunir auk þess að leysa vandamál sem koma upp varðandi þær. Nýdoktorinn mun einnig afla gagna og greina þau til birtingar í vísindagreinum sem og styrkumsóknum, kynna rannsóknirnar á innlendum og erlendum ráðstefnum, auk þess að skrifa handrit til birtingar. Nýdoktorinn mun jafnframt taka þátt í að leiðbeina meistara- og doktorsnemum í samvinnu við hópstjóra.

Vinnan færi fram í vaxandi og tápmiklu umhverfi Lífvísindaseturs (www.lifvisindi.hi.is ) við Læknadeild Háskóla Íslands, en setrið er samstarfsverkefni rannsóknarhópa í lífvísindum við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Landspítala og býður upp á þverfaglegt og alþjóðlegt rannsóknarumhverfi. 

Hæfniskröfur

Við leitum eftir umsækjendum með doktorsgráðu (Ph.D. eða sambærilegt) í stofnfrumulíffræði, fósturfræði, þroskunarfræði, sameindalíffræði, frumulíffræði eða sambærilegu sviði. Umsækjendur þurfa að hafa sterkan grunn í sameindalíffræði og viðeigandi reynslu á þeim sviðum sem talin eru upp  að ofan, framúrskarandi birtingasögu,þ.m.t. greinar sem fyrsti höfundur. Umsækjendur verða að hafa góða samskiptahæfileika á ensku bæði talaða og ritaða. Víðtæk reynsla í frumuræktun er nauðsynleg, helst af viðhaldi og sérhæfingu á frumum úr fósturvísum músa eða manna,  auk reynslu í sameindalíffræði. 

Umsóknaferli

Vinsamlega sækið um starfið á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf.

Umsækjendur skulu senda ferilskrá sína, auk bréfs sem tilgreinir rannsóknarreynslu þeirra, lista yfir birtingar, markmið í starfi auk nafna, síma og netfanga tveggja akademískra meðmælenda.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Gert er ráð fyrir að viðkomandi hefji störf sem fyrst, eftir nánara samkomulagi. 

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands er í fararbroddi á sviði heilbrigðismála á Íslandi og gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu íslenska heilbrigðiskerfisins með menntun heilbrigðisstarfsmanna. Helstu sérfræðingar þjóðarinnar í heilbrigðisvísindum koma að kennslu og rannsóknum á sviðinu.

Umsóknafrestur

Umsóknarfrestur er til og með 26. febrúar 2018

Tengiliðir

Vinsamlega hafið samband við Ernu Magnúsdóttur ef óskað er frekari upplýsinga (erna@hi.is). 


Netspjall