Skip to main content

Reglur um mætingaskyldu og próf

Reglur um mætingaskyldu og próf við Námsbraut í sjúkraþjálfun

Reglur um mætingaskyldu nemenda við Námsbraut í sjúkraþjálfun

 1. Ætlast er til að nemandi  mæti í alla verklega tíma, vinnusmiðjur og tíma sem merktir eru námsmat.
 2. Verklegir tímar, vinnusmiðjur og námsmatstímar skulu merktir sem slíkir í kennsluáætlun námskeiðs.
 3. Geti nemandi ekki mætt í tíma sem skyldumæting er í ber honum að tilkynna það tímanlega til skrifstofu námsbrautarinnar og viðkomandi kennara. Nemandi skal skila læknisvottorði.
 4. Ef nemandi sleppir meira en 15% af mætingarskyldu eða 3 kennslustundum á einum degi án lögmætrar ástæðu missir hann próftökurétt. Nemandi getur óskað eftir að fá að vinna upp þá tíma sem hann missir af vegna veikinda eða áfalla í náinni fjölskyldu.  Kennari í samráði við viðkomandi umsjónarkennara námskeiðs ákveður með hvaða hætti það skal gert.
 5. Mætingarskylda í klínísku námi er 100%. Geti nemandi ekki mætt vegna veikinda eða áfalla í náinni fjölskyldu ber honum að tilkynna fjarveru til klínísks kennara. Sé nemandi fjarverandi meira en 2 daga í einu skal hafa samband við verkefnisstjóra klínísks náms. Nemandi þarf að vinna upp veikindadaga í samráði við klínískan kennara og verkefnisstjóra klínísks náms.
 6. Ef nemandi mætir ekki vegna veikinda eða lögmætrar ástæðu í skyldumætingatíma sem merktir eru námsmat, gefst honum kostur á að fara í gegnum námsmatsþáttinn með því að skrá sig í sjúkrapróf. Ef fjarvist í tíma sem merktur er námsmat rúmast ekki innan lögmætrar ástæðu þá fær hann einkunnina „núll“ fyrir námsmatsþáttinn.  Ef þessi námsmatsþáttur er það stór að nemandi verði að ná honum, þá skráir nemandi sig í endurtökupróf.
 7. Beiðni um undanþágu frá þessum reglum t.d. vegna langvarandi veikinda skal vísa til námsbrautarstjórnarfundar.

Reglur um próftöku og mat á prófum við Námsbraut í sjúkraþjálfun

 1. Almenn próf í Háskóla Íslands eru haldin 2. – 18. desember og á tímabilinu 25. Apríl – 10. maí eftir nánari ákvörðunum deilda í samráði við prófstjóra. Próf eða prófhlutar í einstökum greinum geta þó farið fram á öðrum tímum, samkvæmt ákvörðun prófstjóra (Reglur fyrir Háskóla Íslands Nr. 569/2009, 56. gr.).
 2. Sjúkrapróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí samkvæmt nánari ákvörðun prófstjóra (Reglur fyrir Háskóla Íslands Nr. 569/2009, 56. gr.).
 3. Endurtökupróf við Námsbraut í sjúkraþjálfun eru haldin í júní.
 4. Ef nemandi hyggst ekki taka próf sem hann er skráður í þarf hann að skrá sig úr prófi rafrænt eða skriflega til nemendaskrár háskólans eigi síðar en 1. október vegna prófa á haustmisseri, 1. febrúar vegna prófa á vormisseri og eigi síðar en sólarhring eftir birtingu próftöflu sjúkraprófa. Berist ekki úrsögn fyrir tilskilinn frest telst stúdent hafa staðfest skráningu sína í próf í viðkomandi námskeiði (Reglur fyrir Háskóla Íslands Nr. 569/2009, 57. gr.).
 5. Mæti nemandi ekki í próf sem hann er skráður í og hefur ekki boðað forföll, er það skráð sem fall.
 6. Nemandi hefur ekki rétt á að flytjast á næsta ár nema hann hafi lokið öllum prófum frá fyrra ári eða til komi sérstakur námssamningur.
 7. Nemandi hefur rétt á að ljúka námi í Sjúkraþjálfunarfræðum til BS gráðu á 4 árum og í Sjúkraþjálfun til MS gráðu á 3 árum.
 8. Öll skrifleg próf á vegum prófaskrifstofu skulu tekin undir nemendanúmeri (sem nemar fá úthlutað við skráningu).
 9. Lengd skriflegra prófa skal vera í samræmi við einingarfjölda og vægi þess í lokaeinkunn. Að jafnaði skal þriggja tíma próf ekki hafa minna vægi en sem samsvarar 6 ECTS en í styttri prófum skal áætla um tvær ECTS á hverja klukkustund í skriflegu prófi. Skriflegt próf skal þó aldrei vera styttra en 1 klst. né lengra en 3 klst.
 10. Ef reikna þarf inn í lokaeinkunn verkleg próf, verkefni eða önnur hlutapróf sem tekin eru undir nafni fær kennari afhentan nemendanúmeralykil hjá verkefnisstjóra á skrifstofu. Eftir að lokaeinkunn hefur verið reiknuð skilar hann nemendanúmeralyklinum til baka til verkefnisstjóra.
 11. Komi fleiri en einn kennari að prófi og einkunnagjöf í námskeiði skal umsjónarkennari námskeiðs sjá um að reikna saman einkunnir, ganga frá lokaeinkunn í námskeiði og færa lokaeinkunnir inn í Uglu undir nemendanúmerum.
 12. Þar sem heildareinkunn í námskeiði byggir á mörgum námsmatshlutum má krefjast lágmarkseinkunnar úr hverjum námsmatshluta fyrir sig en slíkt skal skýrt tekið fram í upphafi námskeiðs í kennsluáætlun. Í námskeiðum sem gilda 10 ECTS eða meira má krefjast lágmarkseinkunnar úr námsmatshluta sem gildir 20% af lokaeinkunn eða meira. Í námskeiðum sem gilda 8 ECTS eða minna má krefjast lágmarkseinkunnar úr námsmatshluta sem gildir 25% af lokaeinkunn eða meira.
 13. Falli nemandi í einum hluta prófs í margþættu prófi þar sem krafist er lágmarkseinkunnar í hverjum hluta (sbr. 6. lið) er nemanda heimilt að taka endurtökupróf einungis í þeim hluta sem hann féll í. Ef nemandi ætlar að nýta sér þann rétt skal hann tilkynna það á  skrifstofu námsbrautar og til umsjónarkennara viðkomandi námskeiðs og skrá sig í endurtökupróf hjá nemendaskrá.
 14. Falli nemandi tvisvar sinnum á sama prófi hefur hann fyrirgert rétti sínum til áframhaldandi náms. Við sérstakar aðstæður getur nemandi sótt um undanþágu frá þessari reglu til námsbrautarstjórnar.
 15. Falli nemandi úr námi hefur hann rétt til að fara aftur í inntökupróf næst þegar það verður haldið.
 16. Nemar geta sótt um að fá námskeið eða hluta úr námskeiði metið ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt: a) að nám sem meta á sé jafn viðamikið í einingum og innihaldið nái yfir a.m.k. 80% af því námsefni sem það á að koma í staðinn fyrir; b) að ekki sé lengri tími að jafnaði en 4 ár frá því að nám sem meta á var lokið; c) að einkunn fyrir námið sem meta á sé ekki lægri en 6,5. Senda skal skriflega umsókn til námsbrautarstjóra með ítarlegum upplýsingum um námið sem meta á, staðfestingu á einkunn og hvenær því var lokið. Þetta ákvæði á við bæði um námskeið sem tekin voru í öðru námi og ef nemandi kemur aftur inn í námsbraut í sjúkraþjálfun eftir að hafa fallið úr því námi.

Janúar  2020

Stjórn Námsbrautar í sjúkraþjálfun