
Klínísk lyfjafræði
90 einingar - MS gráða
Markmið MS-náms í klínískri lyfjafræði er að þjálfa og þróa hæfni nemenda í grundvallarþáttum klínískrar lyfjafræði og sjúkrahúslyfjafræði. Náminu er ætlað að stuðla að þeirri hæfni sem þarf til að tryggja örugga og árangursríka notkun lyfja í heilbrigðisþjónustu sem er lykilhlutverk klínískra lyfjafræðinga.

Um námið
MS-nám í klínískri lyfjafræði er 90 eininga starfstengt nám á Landspítala. Námið er kennt í 50% hlutfalli í þrjú ár, 30 einingar á hverju námsári.
Aðeins tveir nemendur eru teknir inn á ári hverju.

Nám í klínískri lyfjafræði veitir aðgang að doktorsnámi í lyfjafræði og skyldum greinum á Íslandi, að því tilskyldu að nemandi útskrifist með fyrstu einkunn.
Sjá nánari upplýsingar um samsetningu náms í klínískri lyfjafræði til MS-prófs í kennsluskrá HÍ.
Aðgang að námi í klínískri lyfjafræði til MS-prófs hafa þeir sem lokið hafa MS-prófi í lyfjafræði við Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi í lyfjafræði frá öðrum viðurkenndum háskóla. Til þess að hefja MS-nám í klínískri lyfjafræði þarf að lágmarki meðaleinkunnina 6,5 í fyrrnefndu lyfjafræðinámi. Aðgangur að náminu er auk þess háður sérstökum reglum um fjöldatakmörkun sem háskólaráð samþykkir. Fjöldi nemenda á 1. námsári takmarkast við töluna 2.