Klassísk mál - Grunndiplólma


Klassísk mál
Grunndiplóma – 60 ECTS einingar
Menntun í latínu og fornfræði veitir einstaka sýn í menningarsögu Evrópu og tækifæri til frekari rannsókna í hugvísindum. Hvort sem um er að ræða bókmenntasögu og heimspeki, mannkynssögu eða listasögu er menntun í fornfræði undirstöðuþáttur til skilnings á vestrænum menningararfi.
Skipulag náms
- Haust
- Latína I: Byrjendanámskeið
- Forngríska I: Byrjendanámskeið
- Inngangur að klassískum fræðumV
- Grísk leikritunV
- MartialisV
- Vor
- Latína II: Úrval latneskra texta
- Forngríska IIV
- MiðaldalatínaV
- Grískir og rómverskir sagnaritararV
- Rómversku skáldinV
Latína I: Byrjendanámskeið (KLM101G)
Námskeiðið er 10 eininga inngangsnámskeið í latínu ætlað byrjendum. Ekki er gert ráð fyrir kunnáttu í latínu við upphaf námskeiðs en æskilegt er að nemendur hafi góðan skilning á íslenskri málfræði. Farið er yfir beygingafræði latínunnar svo og undirstöðuatriði setningafræðinnar. Stuttir leskaflar og málfræðiæfingar.
Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.
Forngríska I: Byrjendanámskeið (KLM102G)
Í námskeiðinu verður farið yfir beygingarfræði forngrísku (attísku) í meginatriðum svo og undirstöðuatriði setningafræðinnar. Áhersla er lögð á að nemendur læri í námskeiðinu þau atriði sem þeir þurfa til að geta byrjað að lesa og þýða forngríska texta. Ekki er gert ráð fyrir neinni kunnáttu í grísku í upphafi námskeiðs en æskilegt er að nemendur hafi góðan skilning á íslenskri málfræði.
Fylgt verður 2. útg. kennslubókar Donalds J. Mastronarde. Lögð verður áhersla á meginatriði. Kennt verður tvisvar í viku. Kennslustundir innihalda bæði fyrirlestur sem tekur fyrir afmarkað efni og verkefnavinnu þar sem reynir á virkni nemenda. Valdir textar verða þýddir og skýrðir málfræðilega. Lestur námsefnisins fyrir hvern tíma er nauðsynlegt skilyrði þess að nemendur nái valdi á námsefninu. Hverjum fyrirlestri fylgja glósur kennara, sem settar verða á Uglu.
Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.
Inngangur að klassískum fræðum (KLM103G)
Námskeiðið er inngangur að klassískum fræðum eða fornfræði. Fjallað verður um sögu og þróun fræðigreinarinnar og helstu viðfangsefni hennar og aðferðir í nútímanum: Nemendum verður kynnt klassísk textafræði og hinar ýmsu greinar klassískra fræða og viðfangsefnum þeirra, svo sem sagnfræði, heimspeki og bókmenntir fornaldar. Auk þess verður fjallað um heimildavinnu og vinnulag í klassískum fræðum og þær venjur sem mótast hafa í greininni. Nemendum verða kynnt helstu stoðrit klassískra fræða og reynt verður að efla ratvísi þeirra um heim klassíkurinnar. Þekking á fornmálunum er ekki áskilin.
Grísk leikritun (KLM107G)
Óbilgirni, þrjóska, stolt og trúnaðarbrestur geta haft skelfilegar afleiðingar, svo ekki sé minnst á móðurmorð, föðurmorð og sifjaspell. En stundum er hreinlega eins og örlögin ráði ferðinni og kaldhæðni þeirra er oft mikil. Þetta eru kunnugleg stef úr grískum harmleikjum.
Námskeiði þessu er einmitt ætlað að kynna nemendum gríska harmleikinn sem bókmenntagrein. Nemendur lesa all nokkur leikrit í íslenskri þýðingu og kynnast þannig vel bæði formi og inntaki grískra harmleikja. Við munum leiða hugann að ýmsu í grískum harmleikjum, þ.á m. samskiptum manna og guða, valdi örlaganna og ábyrgð manna, stöðu kynjanna, sjálfsmynd Grikkja og birtingarmynd útlendinga.
Þekking á frummálinu er ekki nauðsynleg en þó vinni þeir nemendur þýðingarverkefni sem hafa forsendur til þess.
Martialis (KLM108G)
Í námskeiðinu verða lesin í þýðingu valin kvæði eftir rómverska skáldið Marcus Valerius Martialis frá síðari hluta 1. aldar. Skoðað verður samband hans við forvera sína og samtímamenn.
Kunnáttu í latínu er ekki krafist en nemendur í latínu eða klassískum fræðum geta valið að taka 2 ECTS eða 5 ECTS sérverkefni um latneskan frumtexta í tengslum við námskeiðið.
Latína II: Úrval latneskra texta (KLM201G)
Námskeiðið tekur við af KLM101G Latínu I. Í námskeiðinu verður lesið úrval latneskra texta eftir ýmsa höfunda.
Kennt er á íslensku en nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.
Forngríska II (KLM202G)
Námskeiðið tekur við af KLM102G Forngrísku I. Í fyrri hluta námskeiðsins er haldið áfram með málfræði og setningafræði forngrísku (attísku) þar sem yfirferð lauk í Forngrísku I. Í síðari hluta námskeiðsins lesa nemendur úrval forngrískra texta frá ýmsum tímum og eftir ýmsa höfunda.
Kennsla fer þannig fram að fyrir hvern tíma er settur ákveðinn texti. Ætlast er til að nemendur lesi textann heima. Í tímanum er textinn þýddur og skýrður málfræðilega (og efnislega eftir atvikum).
Nemendur sem þurfa geta fengið leyfi til að skila verkefnum og prófum í þessu námskeiði á ensku.
Miðaldalatína (KLM203G)
Í námskeiðinu verða lesnir og þýddir valdir kaflar úr latneskum miðaldabókmenntum (allt frá lokum 4ðu aldar til upphafs þeirrar 16du) úr ýmsum áttum: fagurbókmenntum og sagnaritun, heimspeki og guðfræði. Textar verða skýrðir málfræðilega og ræddir efnislega eftir þörfum.
Námskeiðið er kennt á íslensku en nemendum, sem hafa annað móðurmál en íslensku, stendur til boða að ljúka verkefnum og prófum á ensku.
Grískir og rómverskir sagnaritarar (KLM204G)
Námskeiðið fjallar um sagnaritun Forngrikkja og Rómverja, rekur upphaf hennar og þróun og ræðir umfang hennar, eðli, aðferðir og tilgang. Fjallað verður um höfunda á borð við Heródótos, Þúkýdídes, Xenofon, Pólýbíos, Cato, Sallustius, Livius, Plútarkos, Suetonius, Tacitus, Ammianus Marcellinus auk annarra. Lesið verður m.a. úr frumtextum í þýðingum.
Rómversku skáldin (KLM205G)
Námskeiðið fjallar um rómverskan kveðskap. Að þessu sinni verður lesið úr verkum skáldanna Virgils og Ovidiusar. Rætt verður um eðli kveðskapar þeirra og stöðu þeirra í bókmenntasögu Rómverja og ýmisleg tengsl við pólitík og málefni líðandi stundar.
Lesið verður í þýðingu en þó býðst nemendum sem geta lesið latínu að vinna verkefni sem tengist frummálinu.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400 Netfang: hug@hi.is
Opið mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10:00–12:15 og 12:45–15:00 og á föstudögum frá kl. 10:00–12:15.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustutorg í Gimli og Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði.

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.