Skip to main content

Jöklar á flótta

Hrafnhildur Hannesdóttir, doktor frá Jarðvísindadeild

„Frá því að ég var í grunnnámi í jarðfræði hef ég haft mikinn áhuga á jöklafræði og sá áhugi jókst enn frekar eftir að ég fór að taka þátt í mælingaferðum á Vatnajökul á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands. Jöklar eru eitt það fallegasta í náttúrunni og hafa mikið aðdráttarafl,“ segir Hrafnhildur Hannesdóttir nýdoktor sem varði í haust doktorsritgerð sína sem nefnist Breytingar í suðaustanverðum Vatnajökli, í fortíð, nútíð og framtíð.

Í doktorsverkefninu er saga jöklabreytinga í suðaustanverðum Vatnajökli rakin. Notuð voru söguleg gögn til að ákvarða hvenær skriðjöklarnir voru í hámarki á Litlu ísöld og ummerki um mestu útbreiðslu skriðjöklanna hafa verið kortlögð. Litla ísöld er langt kuldaskeið sem stóð frá um 1250 til 1900.

Hrafnhildur hefur safnað gögnum um breytingar á jöklunum frá fyrri tíð og þannig aflað þekkingar sem nýtist til að spá fyrir um þróun jöklanna í framtíðinni, að gefnum sviðsmyndum um breytingu í veðurfari. Flatarmáls- og rúmmálsbreytingar voru metnar á mismunandi tímum á árabilinu 1890 til 2010. „Þekktar jöklabreytingar voru í framhaldinu notaðar til þess að stilla af líkan sem lýsir viðbrögðum jöklanna við loftslagsbreytingum,“ segir Hrafnhildur.

Hrafnhildur Hannesdóttir

Hrafnhildur hefur safnað gögnum um breytingar á jöklunum frá fyrri tíð og þannig aflað þekkingar sem nýtist til að spá fyrir um þróun jöklanna í framtíðinni, að gefnum sviðsmyndum um breytingu í veðurfari.

Hrafnhildur Hannesdóttir

„Jöklar í Austur-Skaftafellssýslu eru á einu úrkomusamasta og hlýjasta svæði landsins og þeir bregðast hratt við breytingum í loftslagi. Á þessu landsvæði hafa íbúar lifað í mikilli nálægð við jöklana og því er saga þeirra vel skráð þar. Til eru botnkort af jöklunum og hitastigs- og úrkomumælingar hafa verið gerðar áratugum saman á nálægum veðurstöðvum. Því er svæðið tilvalið til rannsókna á tengslum jökla- og loftslagsbreytinga.“

Niðurstöðurnar í rannsókn Hrafnhildar eru sláandi en að hennar sögn hafa sumir jöklanna misst allt að helming af rúmmáli sínu frá því um 1890. „Á síðastliðnum 120 árum hafa jöklarnir rýrnað mest á fyrsta áratug 21. aldar. Tapið nemur að meðaltali um 1,3 metrum á ári – sem er með því mesta sem þekkist í heiminum á þessu tímabili,“ segir Hrafnhildur.

Hún segir að niðurstöðum rannsóknarinnar hafi nú þegar verið gerð skil að einhverju leyti hjá Vatnajökulsþjóðgarði í formi fræðslu til almennings, en þær munu einnig nýtast við ýmsa skipulagsvinnu í sýslunni.

Leiðbeinendur: Helgi Björnsson, vísindamaður emeritus við Jarðvísindastofnun Háskólans, og Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild.