Skip to main content

Um MA-nám í þýðingafræði

Helstu markmið náms í þýðingum og túlkun eru að gera mönnum kleift að starfa á þeim vettvangi, annaðhvort sem atvinnumenn á þessum sviðum eða sem fræðimenn, stundum hvort tveggja. Þetta er nám sem tengir saman fræði og framkvæmd alveg frá upphafi og nemendur fá mikla æfingu í hinum praktíska þætti námsins samhliða hinum fræðilega.

Aðgangskröfur
Aðgang að MA-námi í þýðingafræðum veitir BA-próf eða sambærileg námsgráða að viðbættu inntökuprófi. Til MA-gráðu er krafist 120 eininga náms. Af einingum á MA-stigi skulu að jafnaði 30 felast í lokaritgerð, en í sérstökum tilvikum 60 einingar, hafi nemandi fengið til þess samþykki kennara og fagráðs. Aðgangur að MA-náminu er bundinn skilyrði um fyrstu einkunn (7,25) í BA-námi.

Um námið
Fyrri hluti MA-náms í þýðingafræðum getur falist í hagnýtu námi í þýðingum. Að jafnaði byggist nám í þýðingafræðum til MA-prófs hins vegar á því að nemandi ljúki hluta námsins á meistarastigi í öðrum greinum Hugvísindasviðs eða við skóla erlendis. Þriðjungur námskeiða, eða 30 einingar, yrði þannig í þýðingafræðum, annar þriðjungur í þýðingatengdu námi í íslensku og sá þriðji í þýðingatengdum námskeiðum í erlendu máli. Eins geta nemendur í samráði við umsjónarkennara þýðinganáms tekið námskeið á BA-stigi, svo fremi kennari geri til þeirra verkefnakröfur sem svara til MA-stigs. Þá geta nemendur skráð sig í sérstök rannsóknaverkefni í samráði við umsjónarkennara. Nemendur velja námskeið sín í samráði við umsjónarkennara þýðinganámsins.

Leyfilegt er að meta allt að 30 einingum í framhaldsnámi í þýðingafræðum og tungumálum við erlenda háskóla inn í MA-nám í þýðingafræðum, svo fremi að a.m.k. 10 e af heildareiningafjölda MA-gráðu séu teknar í námskeiðum við HÍ. Nemendur skulu hafa samráð við umsjónarkennara í þýðingafræðum um það nám við erlenda skóla.

Nytjaþýðingar
Vegna mikilla breytinga á alþjóðasamskiptum Íslands sem í vændum eru með umsókn um aðild að Evrópusambandinu hefur verið kallað eftir aukinni áherslu á nytjaþýðingar í framboði Hugvísindasviðs. Háskóla Íslands hefur verið falið að annast þessa menntun fyrir Íslendinga, en þegar í aðildarviðræðum er umtalsverð fólk fyrir fagfólk á þessu sviði og hefur þýðendum við Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins verið fjölgað og má sjá fram á að fjölga þurfi enn þar. Evrópusambandið hefur einnig kallað eftir starfsnemum til Brussel og víst er að mjög mikil eftirspurn verður á þessum markaði næstu árin.

Námsleiðir

  • Hagnýtt nám í nytjaþýðingum, eitt ár 60 einingar
  • Þýðingafræði, MA nám, tvö ár, 120 einingar
  • Meistaranám í nytjaþýðingum, tvö ár, 120 einingar

Markmið og kröfur
Helstu markmið náms í þýðingum og túlkun eru að gera mönnum kleift að starfa á þeim vettvangi, annaðhvort sem atvinnumenn á þessum sviðum eða sem fræðimenn, stundum hvort tveggja. Þetta er nám sem tengir saman fræði og framkvæmd alveg frá upphafi og nemendur fá mikla æfingu í hinum praktíska þætti námsins samhliða hinum fræðilega. Miklar kröfur eru gerðar til þýðenda og túlka, enda geta hinir bestu aflað sér góðra tekna. Mikil eftirspurn hefur verið eftir hæfum þýðendum og túlkum undanfarin ár, langt umfram hagvöxt í landinu á hverjum tíma.
 
Hagnýtt gildi
Fyrir þá sem útskrifast hefur gráða í þýðingum ótvírætt hagnýtt gildi, því um er að ræða starfsmenntun með ákveðinn prófíl sem gerir mönnum kleift að fá störf sem samsvara menntun þeirra. Þetta á bæði við um störf hjá hinu opinbera eða einkaaðilum og einnig geta menn unnið sjálfstætt. Menntun þessi opnar einnig margar aðrar dyr, en víða erlendis hefur komið í ljós að um helmingur útskrifaðra starfar við eitthvað annað en þýðingar, oft þvermenningarleg miðlunarstörf af ýmsu tagi, en einnig hjá forlögum, auglýsingastofum, fjölmiðlum og á öðrum þeim stöðum þar sem verið er að vinna að textagerð eða munnlegri miðlun. Hlutfall þeirra sem starfa beint við þýðingar og útskrifast hafa hér á landi er þó töluvert hærra og má af því marka að eftirspurnin sé umtalsverð. Eftir sem áður eru þýðingafræðingar vel undirbúnir til að takast á við störf af margvíslegum toga.

Fyrir þjóðfélagið er mikilsvert að hafa vel hæfa einstaklinga til þjónustu á þessu sviði, þar má nefna fyrir neytendur, í alþjóðasamskiptum af öllu tagi, í réttarkerfinu og svo mætti lengi telja. Góðir þýðendur og túlkar eru tengiliðir þjóðar og tungu við umheiminn þörf fyrir þá getur aðeins vaxið í hnattvæddum heimi.

Nánari upplýsingar í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.