Um MA-nám í ritlist | Háskóli Íslands Skip to main content

Um MA-nám í ritlist

Um MA-nám í ritlist - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í ritlist gefst áhugafólki um ritsmíðar færi á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu reyndra höfunda. Lögð er áhersla á frjóa hugsun og miðlun hennar í listrænum texta af ýmsu tagi. Meðfram eru lesnar bókmenntir hvaðanæva úr heiminum.

Skilgreining námsins: Um er að ræða fjögurra missera (120 ects) nám sem lýkur með MA-gráðu. Námið er að miklu leyti verklegt, og þá kennt í smiðjum eða rithringjum, en líka að hluta til fræðilegt.

Þar sem ritlist krefst mikils af þátttakendum verður starfið eins einstaklingsmiðað og kostur er. Unnið verður í fremur litlum hópum og þá náið með leiðbeinendum með það fyrir augum að hjálpa þátttakendum að finna sína rödd og sinn efnivið. Áhersla verður lögð á að skapa samfélag um ritlistina sem megi gagnast verðandi höfundum á ýmsan hátt. Vinnan byggir að stórum hluta á samtali og því er lögð mikil áhersla á viðveru.

Uppbygging námsins

Ritsmiðjur: 60 ects
MA-verkefni: 30 ects
Valnámskeið: 30 ects

  • Ritsmiðjur eru verkleg námskeið sem alla jafna eru helguð ákveðinni bókmenntagrein, s.s. frásagnarlist, ljóðlist, ritgerðum, þýðingum, leikritun, kvikmyndahandritsgerð eða barnabókaskrifum. Þar leggja nemendur fram frumsamið efni sem rætt er af hópnum. Nemandi getur valið úr ritsmiðjum eftir því sem námsframboð gefur tilefni til. Ein smiðja er skylda, grunnnámskeiðið InnRitun.
  • Valnámskeið eru bókmenntanámskeið eða önnur skyld námskeið sem nemandi telur nýtast í námi sínu, t.d. við gerð lokaverkefnis, og velur í samvinnu við umsjónarmann námsins. Þau má sækja vítt og breitt um deildir HÍ.
  • MA-verkefni er frumsamin ritsmíð af listrænum toga, unnin á námstímanum. Hún getur verið safn sagna eða annarra lausamálstexta, ljóðasafn, ritgerðasafn, leikrit, kvikmyndahandrit, þýðing eða skáldsaga. Verkinu skal fylgja greinargerð um vinnslu þess.

Samvinna við aðrar greinar: Þar sem ritlist á samleið með öðrum skyldum greinum á meistarastigi gefst nemum kostur á að sækja sér einingar í almennri bókmenntafræði, íslensku, blaðamennsku, hagnýtri ritstjórn og útgáfu, hagnýtri menningarmiðlun og þýðingafræði.

Með þessu geta nemar bæði aukið fjölbreytni í námi sínu og sérhæft sig. Meðal námskeiða sem ritlistarnemar gætu nýtt sér í öðrum greinum, og ýmist fengið metin sem smiðjur eða valnámskeið, má nefna:

  • Almenn bókmenntafræði: Ýmis bókmennta- og bókmenntasögunámskeið
  • Blaðamennska: BLF106F Fréttamennska (smiðja), BLF308F Netmiðlun (smiðja; forkröfur: reynsla af að taka og klippa útvarps- og sjónvarpsefni)
  • Hagnýt menningarmiðlun: HMM101F Miðlunarleiðir (smiðja), HMM210F Texti og tal (smiðja), HMM211F Miðlun í verki (smiðja)
  • Hagnýt ritstjórn og útgáfa: ÍSL443F Ritstjórn og fræðileg skrif (smiðja), ABF803F Hagnýtt rannsóknanámskeið (smiðja)
  • Íslenska: Ýmis bókmennta- og bókmenntasögunámskeið
  • Þýðingafræði: ÞÝÐ001M Þýðingafræði (smiðja), ÞÝÐ003M Þýðingasaga (smiðja), ÞÝÐ505M Fjölmiðlaþýðingar, Bókmenntaþýðingar (smiðja; háð tilteknum tungumálum)

Umsóknarfrestur: Umsóknarfrestur fyrir meistaranám í ritlist er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri. Aðeins verður tekið inn að hausti. Umsóknum skal skilað rafrænt á umsóknavef Háskóla Íslands. Fylgigögn skulu fylgja rafrænni umsókn í viðhengi.

Fylgigögn með umsókn: Umsækjendur skulu senda inn sýnismöppu með frumsömdu efni og verða gjaldgengir umsækjendur valdir inn í námið á grundvelli þess. Umsækjendur geta t.d. sent inn smásögur, kafla úr skáldverki fyrir börn eða fullorðna, sannsögur, ljóð, brot úr kvikmynda- eða sjónvarpshandriti, einþáttung eða esseyju; hámark 25 síður alls. Þá skulu umsækjendur einnig skila inn stuttri greinargerð um áhugasvið sitt og markmið með náminu (ein síða; efnistök mega vera listræn).

Markmið: Markmiðið með ritlistarnámi á MA-stigi er að búa til rithöfundasmiðju þar sem efnilegir höfundar fá tækifæri og aðstöðu til að þroska hæfileika sína undir stjórn reyndra rithöfunda. Þar gefst þeim kostur á að skrifa jafnt og þétt og verður leiðbeint um hvaðeina sem lýtur að listrænum ritsmíðum, s.s. vinnulag, efnistök, byggingu, mál og stíl, prófarkalestur, frágang, ritstjórn og útgáfu.

Húsnæði: Kennsla í ritlist fer einkum fram í Árnagarði og þar er skrifstofa umsjónarmanns námsins.  

Umsjón með ritlistarnámi: Rúnar Helgi Vignisson prófessor. Vefur Rúnars

Hægt er að hafa samband við deildarstjóra Íslensku- og menningardeildar til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.