Um MA-nám í menningarfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Um MA-nám í menningarfræði

Um MA-nám í menningarfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Menningarfræði fjallar um og greinir samtímasamfélag með því að rýna í þá þætti sem almennt má fella undir menningarhugtakið. Þannig nýtir hún sér kenningaforða hug- og félagsvísinda sem orðið hefur til á undanförnum áratugum, en mótar um leið gagnrýna afstöðu til viðtekinna viðhorfa hins vestræna menningararfs.

Í menningarfræði kanna nemendur birtingarmyndir menningar og greina þær á fræðilegan hátt, án þess að binda sig um of við afmörkuð fræðasvið. Nemendur velja sér viðfangsefni og sjónarhorn og leitast um leið við að draga fram þau tengsl sem eru á milli ýmissa þátta nútímalífs: stjórnmála, borgarlífs og náttúruhugmynda, hugmyndafræði, valds og kynjahlutverka, þjóðernis og alþjóðamenningar, bókmennta, lista og afþreyingar, menningararfs, menntastefnu og fjölmenningar, fjölmiðla, fagurfræði og andófs.

Hvers vegna menningarfræði?

Nám í menningarfræði

• eykur skilning á þróun og fræðilegum forsendum menningar og pólitísku vægi menningar í nútímasamfélagi

• veitir þjálfun í að greina birtingarmyndir menningar á ólíkum sviðum samfélagsins á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt.

• eykur færni til að taka þátt í gagnrýninni umræðu á opinberum vettvangi.

• eflir færni við að beita hugtökum og vinnuaðferðum hug- og félagsvísinda í samhengi samfélags og menningar

Boðið er upp á nám í menningarfræði meistarastigi og doktorsstigi.

Menningarfræði á meistarastigi

Nemendur þurfa að hafa lokið BA‒prófi (eða samsvarandi prófi) með fyrstu einkunn, en einnig er tekið tillit til annarrar náms- og starfsreynslu við mat á umsóknum. Námið er sérstaklega ætlað nemendum með traustan bakgrunn á sviði hug- eða félagsvísinda sem hyggjast annaðhvort búa sig undir rannsóknir á doktorsstigi eða efla fræðilega þekkingu sína og kunnáttu til að geta betur tekist á við krefjandi störf í samfélaginu. 

Nemendur með grunngráðu í raunvísindum, heilbrigðisvísindum eða menntavísindum fá tækifæri til að styrkja þekkingu sína á kenningum og aðferðum hugvísinda með því að taka námskeið á BA stigi við deildina áður en nám er hafið á MA stigi eða samhliða því.

Nemandi skipuleggur nám sitt í samráði við fastráðinn umsjónarkennara í greininni (greinarformann). Til að ljúka MA prófi þarf 120 einingar. Föst skyldunámskeið greinarinnar eru 40 einingar auk 20 eininga rannsókna- og aðferðanámskeiða. Boðið er upp á rannsókna- og aðferðatengd námskeið innan greinar, en nemendur geta einnig, í samráði við greinarformann, valið sambærileg námskeið í öðrum deildum, ef fyrirhugað lokaverkefni mælir með því. Lokaritgerð vegur 30 einingar en auk þess getur nemandi tekið 30 einingar í vali. Æskilegt er að samhengi sé á milli þeirra námskeiða sem tekin eru í vali og er mælt með samráði við greinarformann um það.

Menningarfræði á doktorsstigi

Umsækjendur þurfa að hafa lokið MA prófi eða sambærilegri háskólagráðu. Mikilvægt er að nemandi geti sýnt fram á umtalsverða þekkingu á kenningum menningarfræðinnar og/eða kenningum hug- og félagsvísinda. Námið er ekki síst ætlað nemendum með bakgrunn í listum og hönnun. Umsækjendur sem skortir fræðilega þjálfun eru hvattir til að hafa samband við greinarformann áður en gengið er frá umsókn og fá ráð um heppileg námskeið sem taka megi áður en sótt er um eða í upphafi náms.

Doktorsnemar ljúka annars vegar almennum hluta (60 einingar) og hins vegar doktorsritgerð (180 einingar). Almennur hluti námsins felur í sér námskeið, kennslu og fræðilega útgáfu. Hann er skipulagður í samráði við doktorsnefnd. Rannsóknaráætlun er alla jafna lögð fyrir doktorsnefnd í lok fyrsta námsárs og þarf nefndin að samþykkja hana til að nemandi geti haldið áfram. Í lok námsins leggur nemandi fram doktorsritgerð. Vörn hennar fer fram eftir að doktorsnefnind hefur metið hana hæfa til varnar.

Nánari upplýsingar

Kennsluskrá Háskóla Íslands.

Greinarformaður:

Jón Ólafsson, prófessor, jonolafs@hi.is

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.