Um MA-nám í íslenskum fræðum | Háskóli Íslands Skip to main content

Um MA-nám í íslenskum fræðum

Markmið meistaranáms í íslenskum fræðum er að veita nemendum vísindalega þjálfun og búa þá undir framhaldsnám og störf af ýmsu tagi, s.s. framhaldsskólakennslu, margvísleg fræðistörf og doktorsnám. Í náminu eru tvö kjörsvið: málfræði og bókmenntir og miðaldafræði.

Upplýsingar um umsóknarfresti fyrir meistara- og doktorsnám á Hugvísindasviði má finna á þessari slóð og upplýsingar fyrir erlenda nemendur á þessari slóð. Umsóknum skal skilað til Nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans.

Inntökuskilyrði
Aðgang að MA -námi í íslenskum fræðum veitir BA-próf með fyrstu einkunn (7,25) í íslensku sem aðalgrein.

Aðgang að náminu geta einnig fengið nemendur með BA-próf í almennri bókmenntafræði ef þeir ljúka öllum kjarnanámskeiðum í íslenskri málfræði á BA-stigi (40 e); svo og nemendur með BA-próf í almennum málvísindum ef þeir ljúka öllum kjarnanámskeiðum í íslenskum bókmenntum á BA-stigi (40 e).

Nemendur með önnur háskólapróf, a.m.k. 180 e, geta einnig fengið aðgang að íslenskum fræðum ef þeir ljúka a.m.k. 30 e í kjarnanámskeiðum í íslenskri málfræði og 30 e í kjarnanámskeiðum í íslenskum bókmenntum á BA-stigi.

Námsskipan
Til meistaraprófs er krafist 120 e að loknu BA-prófi (180 e) og skulu minnst 30 e vera úr MA-námskeiðum í íslenskri málfræði og minnst 30 e úr MA-námskeiðum í íslenskum bókmenntum. Heimilt er að velja námskeið allt að 30 e úr námskeiðum í skyldum greinum í samráði við greinarformann.

Meistaraprófsritgerð í íslenskum fræðum vegur yfirleitt 30 e. Ritgerðarefni velur stúdent í samráði við kennara á því sérsviði sem hann hefur valið. Markmið meistaraprófsritgerðar er að veita þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og til hennar skal gera meiri kröfur en til BA-ritgerðar um fræðilega framsetningu, frumleg efnistök og sjálfstætt framlag nemandans. Hægt er að sækja um að skrifa 60 e ritgerð.

Kennsluhættir og námsmat
Kennslan fer fram í formi fyrirlestra, umræðna og margs kyns verkefnavinnu og ritgerðasmíði. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda í kennslunni. Þar sem hér er um rannsóknanám að ræða er gert ráð fyrir verulegu frumkvæði og sjálfstæði nemenda í vali viðfangsefna, heimildaöflun, heimildatúlkun o.s.frv. Námsmat fer langoftast fram með ritgerðum og/eða fyrirlestrum.

Námsmarkmið
Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemendur

  • hafi góða þekkingu á völdum tímabilum og/eða sviðum íslensks máls og bókmennta, og á helstu aðferðum og fræðikenningum sem beitt er við rannsóknir á þessum sviðum.
  • hafi yfirsýn yfir ólík sjónarmið, aðferðir og hugmyndir sem stýra rannsóknum á því sviði eða sviðum sem rannsóknir þeirra taka til;
  • geti sett eigið viðfangsefni í vítt samhengi, lagt sjálfstætt mat á ágreiningsefni innan fræðanna og borið eigin niðurstöður saman við niðurstöður annarra fræðimanna;
  • geti beitt þekkingu sinni og færni til að takast á við ný og áður ókunn úrlausnarefni á sviði íslensks máls eða bókmennta.
  • geti tekið þátt í fræðilegum rökræðum um bókmenntafræðileg, málfræðileg eða textafræðileg álitamál bæði í ræðu og riti;
  • séu færir um að greina frá fræðilegum niðurstöðum jafnt í áheyrn sérfræðinga og almennings;
  • þekki fjölbreyttar leiðir til miðlunar íslenskra fræða í nútíma samfélagi og séu færir um að nýta sér valdar leiðir;
  • geti unnið víðtæka og vandaða rannsókn á sjálfstæðan hátt um viðfangsefni sem skiptir máli fyrir framvindu fræðilegrar umræðu;
  • séu færir um að semja útdrætti og erindi fyrir fræðilegar ráðstefnur og skrifa fræðigreinar til birtingar í tímaritum;
  • hafi þróað með sér sjálfstæð vinnubrögð við rannsóknir og séu undir það búnir að skrifa bækur um efni á sviði íslenskra fræða og/eða sjá um fræðilegar handritaútgáfur, einir eða með öðrum.

Nánari upplýsingar í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Doktorsnám
Að loknu MA-prófi í íslenskum fræðum er hægt að sækja um doktorsnám í íslenskum bókmenntum (bæði kjörsvið) eða íslenskri málfræði (kjörsviðið málfræði og bókmenntir). Það er fjögurra ára nám, 240 e, sem skiptist í 60 e almennt nám og 180 e doktorsritgerð.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.