Um MA-nám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu | Háskóli Íslands Skip to main content

Um MA-nám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu

Um MA-nám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Markmið námsins er að gefa nemendum úr ýmsum greinum hugvísinda kost á að byggja á þeim grunni sem þeir hafa lagt í BA-náminu og búa sig á skipulegan hátt undir ritstjórnar- og útgáfustörf af ýmsu tagi, t.d. hjá fjölmiðlum, vefmiðlum, bókaútgáfum eða vísindastofnunum. Námið er skipulagt sem heils árs nám til 90 eininga.

Inntökuskilyrði í MA-nám
Hagnýt ritstjórn og útgáfa er meistaranám á Hugvísindasviði, einkum ætlað nemendum sem lokið hafa BA-prófi með fyrstu einkunn í hugvísindum eða félagsvísindum. Námið er vistað í Íslensku- og menningardeild. Aðgang að MA-námi eiga þeir sem lokið hafa með fyrstu einkunn (7,25) BA-prófi.

Markmið
Nemendur í fjölmörgum greinum hugvísinda fá margvíslega þjálfun í ritstörfum og frágangi texta. Sumir þeirra leggja fyrir sig ritstörf og ritstjórn af ýmsu tagi. Stundum hafa verið námskeið í boði sem geta nýst sem beinn undirbúningur undir slík störf, svo sem námskeið um ritstjórn og fræðileg skrif, sem reglulega hefur verið í boði á meistarastigi í íslensku. En framhaldsnám í deildinni hefur til þessa fyrst og fremst miðað að því að þjálfa verðandi fræðimenn. Með þessari námsleið er nemendum gefinn kostur á þjálfun og undirbúningi fyrir ritstjórnar- og útgáfustörf, t.d. hjá fjölmiðlum, bókaútgáfum og fræðastofnunum. Áhersla er lögð á hvorttveggja, þverfaglega samvinnu og tengsl við atvinnulífið svo að nemendur fái víða sýn yfir viðfangsefnið og öðlist reynslu sem geri þeim kleift að vinna sjálfstætt að ritstjórn og útgáfum.

Hagnýtt gildi
Hagnýt ritstjórn og útgáfustörf er ný leið fyrir þá sem hafa áhuga á framhaldsnámi sem byggir ofan á grunnám þeirra en eru ekki endilega að hugsa um fræðimennsku á því sviði.

Uppbygging námsins
MA-nám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu skiptist í þrjá meginhluta:

1. Kjarnanámskeið (30 einingar): Ritstjórn og fræðileg skrif, Vefritstjórn og starf vefstjórans og Ritstjórn og hönnun prentgripa (sjá Kennsluskrá).

2. Valfrjáls námskeið (30 einingar): Nemendur af hugvísindasviði sækja hefðbundin framhaldsnámskeið í deildinni sem tengist gjarnan þeirra grunngrein og/eða áhugasviði. Nemendur geta einnig unnið sjálfstætt rannsóknarverkefni (Rannsóknaverkefni A og/eða B).

3. Lokaverkefni í hagnýtri ritstjórn og útgáfu byggist annars vegar á 20 ect starfsnámi (10 vikna starf unnið við ritstjórn og útgáfu) og 10 ect ritgerð hins vegar.

Almennar kröfur til nemenda í hagnýtri ritstjórn
Mikilvægasta krafan til nemenda er að þeir hafi mikinn áhuga á öllu því sem við kemur ritstjórnarstörfum. Nauðsynlegt er að stúdentar séu vel læsir á ensku og Norðurlandamál, flest námskeið eru kennd á íslensku og er vænn skilningur á henni að sjálfsögðu lykilatriði í náminu.

Kennsluhættir og námstilhögun
Kennsla í hagnýtri ritstjórn fer fram í fyrirlestrum, samræðuformi og málstofum. Stúdentar verða að gera ráð fyrir mikilli heimavinnu. Tímasókn er mikilvæg en því aðeins hafa menn gagn af henni að þeir komi vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa lesið þá texta sem fjalla á um hverju sinni.

Umsjón með náminu hefur Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í bókmenntafræði, gunnth@hi.is.

Athugið að stundaskrá er sameiginleg með M.A.-námi í almennri bókmenntafræði.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.