Skip to main content

Um MA-nám í almennri bókmenntafræði

Markmið MA-náms í almennri bókmenntafræði er að veita nemendum vísindalega þjálfun og búa þá m.a. undir kennslustörf á framhaldsskólastigi, vísindastörf af ýmsu tagi og doktorsnám ef því er að skipta.

Í almennri bókmenntafræði er boðið upp á framhaldsnám á MA-stigi og til doktorsprófs.

Aðgang að MA-námi eiga þeir sem lokið hafa með fyrstu einkunn (7,25) BA-prófi í almennri bókmenntafræði sem aðalgrein eða BA-prófi í annarri hugvísindagrein með almenna bókmenntafræði sem aukagrein.

Námið byggist alla jafna á því að nemandi stundi hluta þess á meistarastigi í öðrum greinum Hugvísindasviðs eða við skóla erlendis.

Hver MA-nemi fær einn leiðbeinanda, að jafnaði úr hópi fastra kennara í viðkomandi grein, sem er umsjónarkennari hans og leiðbeinir honum um skipulag námsins, val námskeiða og er aðalleiðbeinandi hans í lokaverkefni. Við upphaf námsins er einnig skipuð meistaraprófsnefnd sem fylgist með framvindu námsins. Sérstakur prófdómari leggur síðan mat á lokaverkefni meistaranemans ásamt meistaraprófsnefnd.

Doktorsnám
Stúdent sem hefur lokið MA-prófi í almennri bókmenntafræði með fyrstu einkunn getur sótt um aðgang að doktorsnámi. Stúdent sem hefur lokið MA-prófi eða öðru samsvarandi prófi frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla, sem deildin viðurkennir, með jafngildi fyrstu einkunnar, getur sótt um aðgang að doktorsnáminu. Þá skal menntun hans metin með tilliti til aðalgreinar við doktorsnám og honum gerðar frekari námskröfur en þeim stúdentum sem hafa lokið MA-prófi frá deildinni.

Viðfangsefni doktorsritgerðari má teygja sig yfir á svið kvikmynda- og menningarfræða, jafnt sem bókmennta. Markmið doktorsnáms er að veita nemum vísindalega þjálfun og stuðla að sjálfstæðum vinnubrögðum þeirra, og búa þá þannig undir háskólakennslu, rannsóknir og önnur störf.

Doktorspróf við Hugvísindasvið veitir lærdómstitilinn doctor philosophiae (Ph.D.).

Almennar kröfur til nemenda í bókmenntafræði
Mikilvægasta krafan til þeirra sem hefja nám í almennri bókmenntafræði er vitanlega að þeir hafi mikinn áhuga á bókmenntum og því meira sem þeir hafa lesið af góðum bókmenntum þeim mun betra. Nauðsynlegt er að stúdentar séu vel læsir á ensku og Norðurlandamál, en einnig er æskilegt að þeir geti a.m.k. stautað sig fram úr texta á þýsku og/eða einhverju rómönsku málanna. Flest námskeið eru kennd á íslensku og er vænn skilningur á henni að sjálfsögðu lykilatriði í náminu.

Kennsluhættir og námstilhögun
Kennsla í almennri bókmenntafræði fer fram í fyrirlestrum, samræðuformi og semínaræfingum. Í öllu náminu fléttast nokkuð saman bókmenntafræði, bókmenntasaga og bókmenntalestur og túlkun.
Stúdentar verða að gera ráð fyrir mikilli heimavinnu. Felst hún í fyrsta lagi í því að lesa og íhuga sjálfa bókmenntatextana og annað lestrarefni sem vísað er til í kennslunni. Tímasókn er mikilvæg en því aðeins hafa menn gagn af henni að þeir komi vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa lesið þá texta sem fjalla á um hverju sinni.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.