Um BA-nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun

Í táknmálsfræði er fyrst og fremst leitast við að kenna nemendum færni í íslensku táknmáli og veita þeim þekkingu á menningarheimi heyrnarlausra. Nemendur fá þjálfun í málnotkun, málfræði táknmálsins og fræðslu um menningu og sögu heyrnarlausra. Áhersla er lögð á íslenska táknmálssamfélagið en í alþjóðlegu samhengi og í samanburði við táknmálssamfélög erlendis. Nemendur fá þjálfun í að beita fræðilegum aðferðum og hugtökum málvísinda og menningarfræða á táknmál og samfélag heyrnarlausra. Jafnframt fá nemendur innsýn í þýðingar og þjálfun í að þýða á milli íslensku og íslenska táknmálsins. Á þriðja námsári er unnið með túlkun á milli íslensku og íslensks táknmáls, bæði fræðilega og við raunverulegar aðstæður. Markmið námsins er að miðla þekkingu á íslensku táknmáli, menningarheimi heyrnarlausra og túlkun á milli íslensks táknmáls og íslensku.

Aðgangskröfur

Íslenskt stúdentspróf (eftir fjögur ár í framhaldsskóla) eða sambærilegt próf frá erlendum skóla. Nauðsynlegt er að stúdentar séu vel læsir á ensku og Norðurlandamál. Námskeið eru ýmist kennd á íslensku eða íslensku táknmáli. Ekki er gerð krafa um kunnáttu í íslensku táknmáli við upphaf náms. Mætingarskylda er í nokkur námskeið greinarinnar.

Uppbygging námsins

Stúdentum sem lesa táknmálsfræði sem aukagrein til BA-prófs (60 einingar) er skylt að taka námskeiðin Færninámskeið I, Inngangur að táknmálsfræði, Málfræði táknmáls I, Færninámskeið II og Aðferðir og vinnubrögð hafi þeir ekki lokið sambærilegu námskeiði. Önnur námskeið eru valin úr táknmálsfræði í samráði við umsjónarmann námsins.

Stúdentum sem lesa táknmálsfræði sem aðalgrein með aukagrein til BA-prófs (120 einingar) er skylt að taka öll námskeið á fyrsta námsári; Færninámskeið I og II, Inngang að táknmálsfræði, Málfræði táknmáls I, Aðferðir og vinnubrögð og Menningarheima. Á öðru námsári þurfa stúdentar að taka Færninámskeið III og IV og Málfræði táknmáls II auk BA-ritgerðar, 10 einingar að auki innan táknmálsfræðinnar og 10 einingar í valnámskeiðum (má vera námskeið innan táknmálsfræðinnar).  Athugið að námskeið á öðru námsári eru ekki kennd árlega.

Stúdentum sem lesa táknmálsfræði sem aðalgrein án aukagreinar til BA-prófs (180 einingar) og ljúka þar með námi í táknmálsfræði og táknmálstúlkun er skylt að ljúka öllum 180 einingunum sem kenndar eru innan táknmálsfræðinnar. Forsenda þess að geta hafið nám í táknmálstúlkun er að stúdent hafi lokið öllum námskeiðum á fyrsta og öðru námsári og hafi hlotið fyrstu einkunn að meðaltali í Færninámskeiðum I-IV.

Nám í táknmálstúlkun er að öllu jöfnu í boði þriðja hvert ár. Námskeið á öðru námsári eru að jafnaði ekki í boði það skólaár sem kennd eru námskeið í táknmálstúlkun.

Kennsluhættir og námstilhögun

Kennsla í táknmálsfræði og táknmálstúlkun fer fram í fyrirlestrum, samræðuformi og hópavinnu. Mikil áhersla er lögð á þátttöku nemenda í tímum, sérstaklega þar sem fram fer þjálfun í málnotkun og túlkun. Þar sem táknmál hefur ekki ritmál er erfitt að tileinka sér það í sjálfsnámi. Þetta gerir það að verkum að í nokkrum námskeiðum innan táknmálsfræðinnar er nauðsynlegt að hafa 80% mætingarskyldu. Í námslýsingu í kennsluskrá er gefið upp ef um mætingarskyldu er að ræða. Lágmarksmætingarskylda er forsenda þess að stúdent öðlist próftökurétt. Í námskeiðum sem hafa mætingarskyldu er yfirleitt minna um sjálfstæðan lestur en þeim mun meiri áhersla er lögð á virkni og þátttöku nemenda í tímum. Í fræðilegum námskeiðum er mikilvægt að nemendur komi vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa lesið þá texta sem fjalla á um hverju sinni. Annar mikilvægur þáttur heimavinnunnar felst í samningu verkefna og ritgerða. Lesefni er að langmestu leyti á ensku en eitthvað á íslensku og Norðurlandamálum. Kennsla fer ýmist fram á íslensku eða íslensku táknmáli. Próf geta ýmist verið skrifleg eða munnleg og oftast er ætlast til að nemendur skili heimaverkefnum. Í sumum tilvikum byggist námsmat eingöngu á heimaverkefnum.

Nám í táknmálstúlkun krefst mikillar viðveru nemenda í tímum auk þjálfunar á vettvangi. Nemendur þurfa því að gera ráð fyrir mikilli viðveru bæði innan og utan stundaskrár. Nám í táknmálstúlkun er að jafnaði í boði þriðja hvert ár. Til að geta stundað það nám skulu nemendur hafa lokið 120 einingum í táknmálsfræði og vera með fyrstu einkunn að meðaltali úr færninámskeiðunum fjórum. Önnur inntökuskilyrði eru ákveðin hverju sinni og geta breyst á milli ára.

Annað

Kennsla tekur mið af íslensku táknmáli og málsamfélagi þess í samanburði við erlend táknmál og menningu og sögu heyrnarlausra í alþjóðlegu samhengi. Grunnnám í táknmálsfræði skilar sér í víðtækri, fjölþjóðlegri menntun sem kemur sér vel í ýmsum störfum í samfélaginu og er jafnframt sterkur grunnur undir framhaldsnám. Þeir sem ljúka 180 einingum í greininni eru þar með táknmálstúlkar. BA-próf með fyrstu einkunn veitir aðgang að meistaranámi á háskólastigi. Nám í greininni hefur því mikið gildi fyrir þá sem vilja kynnast ólíkum menningarheimum og nýjum tungumálum en getur ekki síður aukið starfsmöguleika fólks með menntun á öðrum sviðum.

Húsnæði
Kennsla í táknmálsfræði fer aðallega fram í Aðalbyggingu, en einhver námskeið eru kennd að hluta eða að öllu leyti í öðrum byggingum, þeirra á meðal Nýja-Garði, í Tungumálamiðstöð.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.