Um BA-nám í samfélagstúlkun | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í samfélagstúlkun

Með hraðvaxandi fjölgun innflytjenda frá ýmsum heimshornum hefur þörf fyrir túlka á fjölda erlendra mála aukist gríðarlega. Þetta stafar m.a. af lagaskyldu til að útvega túlka við tilteknar aðstæður á sviðum dóms-, heilbrigðis-, skóla- og félagsmála. Það hlýtur einnig að teljast hluti af viðleitni þjóðarinnar að gefa innflytjendum aukin tækifæri til aðlögunar með því að auðvelda samskiptin við íslensk stjórnvöld.
 
Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands vill leggja sitt af mörkum til að mennta tiltekinn hóp virkra innflytjenda sem náð hefur góðum tökum á íslensku og þekkir innviði íslensks samfélags nægilega vel til að miðla þeirri þekkingu til samlanda sinna og annast samskipti þeirra við Íslendinga þegar þörf krefur. Þetta er orðið ákaflega brýnt vegna fjölda útlendinga sem hér eru búsettir og einnig þeirra sem hér ferðast um landið á ári hverju, en þeir eru orðnir umtalsvert fleiri en íbúar landsins.

Nám í samfélagstúlkun er fyrst og fremst hugsað fyrir starfandi og verðandi túlka í málum sem ekki eru kennd við Háskóla Íslands og það verður aðeins í boði ef til þess fæst nauðsynlegt fjármagn.

Námsleiðir
Samfélagstúlkun er 60 eininga nám á grunnstigi sem miðar að því að þjálfa nemendur í túlkun á milli íslensku og erlends máls. Nemendur geta tekið samfélagstúlkun sem aukagrein með annarri aðalgrein eða lokið diplómanámi. Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærilegt próf eða nám í íslensku sem annað mál. Starfsreynsla af samfélagstúlkun er æskileg. Hægt er að ljúka náminu á einu skólaári eða tveimur. Námið er boðið með fyrirvara um næga þátttöku.

Námstilhögun
Rúmlega helmingur námsins (35 einingar) felst í fræðilegum námskeiðum þar sem nemendur bæta við fræðilega þekkingu sína á túlkun, þýðingum, menningu og tungumálum og læra að yfirfæra þá þekkingu á raunverulegar aðstæður.

Tæpur helmingur námsins (25 einingar) er þjálfun í túlkun og töluðu máli og er þar unnið í minni og stærri hópum eftir því hvaða tungumál nemendur nota í túlkun. Verkleg þjálfun er því stór hluti námsins.

Markmið og kröfur
Samfélagstúlkun fer fyrst og fremst fram í heilbrigðis- og skólakerfi, dómskerfi og félagsþjónustu. Markmiðið með þessu námi er að mennta tiltekinn hóp virkra innflytjenda sem náð hefur góðum tökum á íslensku og þekkir innviði íslensks samfélags nægilega vel til að miðla þeirri þekkingu til samlanda sinna og annast samskipti þeirra við Íslendinga þegar þörf krefur. Þetta er orðið ákaflega brýnt vegna fjölda útlendinga sem hér eru búsettir og einnig þeirra sem hér ferðast um landið á ári hverju, en þeir eru orðnir umtalsvert fleiri en íbúar landsins. Forkröfur eru ígíldi stúdentsprófs eða löng reynsla af túlkun hér á landi. Góð kunnátta í móðurmáli og íslensku nauðsynleg.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.