Um BA-nám í kvikmyndafræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í kvikmyndafræði

Í kvikmyndafræði er lögð áhersla á að skoða kvikmyndamiðilinn í sem víðustu samhengi og teknar eru til sýninga tilrauna- og heimildamyndir, ekki síður en leiknar frásagnarmyndir, og þær greindar í ljósi fjölbreyttra fræðikenninga. Kvikmyndafræði er sjálfstæð námsgrein innan Íslensku- og menningardeildar. Hún er kennd sem aðalgrein til 120 eininga og sem aukagrein til 60 eininga.

Námsefni
Námsefni greinarinnar skiptist, auk fimm skyldunámskeiða  (þ. á m. Kvikmyndarýni, Kvikmyndakenningar og Kvikmyndasaga), í nokkur áherslusvið: námskeið um kvikmyndir þjóðlanda (t.d. franskar eða japanskar kvikmyndir), um kvikmyndagreinar (t.d. hrollvekjur eða vestra), um kvikmyndahöfunda (t.d. Hitchcock eða Bergman), um vensl kvikmynda og bókmennta, og námskeið sem snúa að afmörkuðum viðfangsefnum eða sviðum kvikmyndafræðanna (svo sem sálgreiningu og kvikmyndum, eða táknfræði og kvikmyndum).  

Markmið

  • að veita yfirlit yfir sögu kvikmynda á Vesturlöndum og að nokkru leyti í öðrum heimshlutum,
  • að þjálfa stúdenta í að skilja og túlka kvikmyndir frá ýmsum tímum og ólíkum þjóðlöndum, m.a. með hliðsjón af öðrum listgreinum, bókmenntum og menningu,
  • að kynna helstu hugtök og vinnuaðferðir í kvikmyndafræði og leiðbeina nemendum í gagnrýnni notkun á handbókum og öðrum ritum um kvikmyndir, bókmenntir og menningu almennt,
  • að þjálfa stúdenta í að fjalla um kvikmyndir og annað myndefni og texta á sjálfstæðan hátt í fræðilegum ritgerðum.

Kröfur og kennsluhættir
Stúdentar mega gera ráð fyrir mikilli heimavinnu. Í fyrsta lagi felst vinna nemenda í að greina og íhuga þær kvikmyndir sem eru skylduefni í viðkomandi námskeiðum, en jafnframt verða þeir að tileinka sér það lesefni sem vísað er til í kennslunni. Lesefni er fyrst og fremst á ensku og íslensku. Tímasókn er mikilvæg en því aðeins hafa menn gagn af henni að þeir mæti vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa séð þær kvikmyndir og lesið þá texta sem fjalla á um hverju sinni. Annar mikilvægur þáttur heimavinnunnar felst í samningu semínarverkefna og ritgerða. Til þess að kennslan megi verða lifandi samstarf getur verið nauðsynlegt að stúdentar taki að sér að undirbúa og flytja í tímum verkefni af ýmsum gerðum.

Húsnæði
Fyrirlestra- og umræðutímar eru einkum haldnir í Aðalbyggingu og Árnagarði, en kvikmyndasýningar fara allajafna fram í Háskólabíói.

Fyrstur með BA-próf í kvikmyndafræði
Gunnar Tómas Kristófersson var fyrstur til að ljúka BA-prófi í kvikmyndafræði frá HÍ. Viðtal var tekið við hann af þessu tilefni í Morgunblaðinu 19. júlí 2009.

Sjá einnig upplýsingar á kvikmyndafraedi.hi.is.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.