Um BA-nám í íslensku | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í íslensku

Í námsgreininni íslensku er fengist við mál og bókmenntir á fjölbreyttan hátt. Fjallað er um íslenskt mál og bókmenntir í samtímanum en jafnframt er sagan rakin og grafist fyrir um rætur íslenskra bókmennta og uppruna íslenskrar tungu. Námið veitir haldgóða almenna menntun og hentar öllum sem hafa áhuga á að starfa á sviði menningar, miðlunar og íslenskra fræða í víðum skilningi. Jafnframt er það mjög góður undirbúningur fyrir margvíslegt framhaldsnám, svo sem í bókmenntafræði, málvísindum, talmeinafræði, fjölmiðlun, útgáfustarfsemi, þýðingum o.fl.

Aðgangskröfur

Inntökuskilyrði í íslensku er stúdentspróf af bóknámsbraut. Nauðsynlegt er að nemendur hafi gott vald á íslensku, bæði töluðu máli og rituðu. Mikilvægt er að þeir séu vel læsir á ensku og Norðurlandamál, en kunnátta í öðrum málum, s.s. frönsku, spænsku eða þýsku, kemur einnig að góðum notum.

Uppbygging námsins

Íslensku er hægt að taka sem aðalgrein til 180 eininga, aðalgrein til 120 eininga og aukagrein til 60 eininga. Þeir sem taka íslensku sem aðalgrein þurfa að ljúka ákveðnum fjölda námskeiða í bókmenntum og málfræði en síðan geta nemendur búið sig undir mismunandi störf og margvíslegt framhaldsnám með því að velja ólíkar leiðir innan íslenskunámsins.

Með því að velja ákveðna samsetningu valnámskeiða geta nemendur sérhæft sig á tilteknu sviði strax á B.A.-stigi. Þeir geta t.d. lagt áherslu á íslenskar nútímabókmenntir, nútímamál, fornbókmenntir, fornmál, miðaldafræði, ritfærni, máltækni og talmeinafræði (sjá pdf-skjal um íslensku sem aðalgrein til B.A.-prófs).

Valnámskeiðin eru mjög fjölbreytt eins og þessar mismunandi leiðir innan íslenskunnar gefa til kynna; t.d. hafa verið haldin námskeið um barnabókmenntir, samanburðarmálfræði, handritalestur, glæpasögur, ástarsögur, máltöku barna, fornaldarsögur, mállýskur, málnotkun, dægurlagatexta, máltækni o.fl., auk námskeiða úr öðrum greinum.

Í námslok skrifa nemendur B.A.-ritgerð sem reynir á hæfni þeirra til sjálfstæðra vinnubragða og rannsókna. B.A.-ritgerðir eru aðgengilegar á síðunni skemman.is. Námsframboð íslenskunnar er í sífelldri endurskoðun.

Kennsluhættir og námstilhögun

Kennsla í íslensku fer fram með fyrirlestrum og umræðutímum. Einnig eru heimaverkefni og ritgerðir mikilvægur þáttur kennslunnar í flestum námskeiðum og því eru sjálfstæð og öguð vinnubrögð forsenda góðs gengis í náminu.

Námsmat er fjölbreytt og getur falist í skriflegum og munnlegum prófum, framsögu í tímum, ritgerðum, heimaverkefnum o.fl.

Kennsla í íslensku fer aðallega fram í Árnagarði og þar eru skrifstofur allra fastra kennara greinarinnar. Mímir hefur einnig aðstöðu í húsinu. Lesaðstaða er í Gimli og Þjóðarbókhlöðu, auk þess sem framhaldsnemar hafa lesaðstöðu í Árnagarði. Tölvuver er á 3. hæð hússins og er það opið öllum nemendum.

Annað

Hverjum nemanda gefst kostur á að haga náminu að nokkru leyti eftir áhugasviði sínu og framtíðaráætlunum. Samvinna við aðrar kennslugreinar gerir það að verkum að nemendum standa til boða valnámskeið í almennri bókmenntafræði, almennum málvísindum, þjóðfræði og fleiri greinum.

Með aðalgreininni íslensku er enn fremur hægt að velja sem aukagrein aðra kennslugrein á Hugvísindasviði eða jafnvel grein af öðrum sviðum Háskólans. Þannig getur hver nemandi lagað námið að áhugamálum sínum. Þeir sem vilja efla ritfærni sína geta t.d. valið ritlist sem aukagrein.

Grunnnám í íslensku veitir haldgóða almenna menntun og undirbúning undir margs konar störf en auk þess getur það verið góður grunnur fyrir ýmiss konar framhaldsnám, bæði hérlendis og erlendis. Fólk með háskólamenntun í íslensku fæst við kennslu á öllum skólastigum og fræðistörf, m.a. á rannsóknastofnunum á sviði íslenskra fræða.

Margir leggja fyrir sig ritstörf eða önnur störf á sviði menningar og lista, fjölmiðlun af ýmsu tagi og útgáfustörf (sem fréttamenn, blaðamenn, ritstjórar, málfarsráðgjafar, þýðendur, bókmenntarýnar o.s.frv.).

Menntunin kemur að góðum notum í öllum störfum þar sem gott vald á íslensku máli og/eða þekking á íslenskum bókmenntum og málfræði er nauðsynleg.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.