Um BA-nám í almennri bókmenntafræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í almennri bókmenntafræði

Í almennri bókmenntafræði er veitt yfirlit um þróun bókmennta á Vesturlöndum og að nokkru leyti í öðrum heimshlutum. Nemendur fá þjálfun í að beita fræðilegum aðferðum og hugtökum á margvíslegan skáldskap, menningu og táknheim ólíkra tíma og svæða.

Sex skyldunámskeið mynda kjarna námsins: Aðferðir og hugtök, Stefnur í bókmenntafræði, Bókmenntasaga, Bókmenntaritgerðir, Íslensk bókmenntasaga og Menningarheimar, auk þess sem nemendur taka námskeiðið Forngrískar bókmenntir, Miðaldabókmenntir eða Latneskar bókmenntir (skyldunámskeið eru þó færri í námi til 60 eininga og 120 eininga). Önnur námskeið eru valfrjáls og er úrvalið fjölbreytt; sum byggja á lestri bókmenntaúrvals ákveðinna þjóðlanda, en í öðrum er fjallað um ákveðnar bókmenntagreinar (t.d. smásögur og ljóðlist), ákveðna strauma eða svið í bókmenntum (t.d. fantasíur, hrollvekjur, módernisma), ákveðin rannsóknasvið (t.d. feminískar bókmenntarannsóknir og bókmenntir minnihlutahópa), eða jafnvel um einstaka rithöfunda eða fræðimenn.

Auk þess gefst nemendum í bókmenntafræði kostur á að sækja námskeið í öðrum greinum, m.a. í kvikmyndafræði, menningarfræði og listfræði, og víða gefst færi á þverfaglegum vinnubrögðum.
 
Kennslan tekur mið af íslensku jafnt sem alþjóðlegu menningarsamhengi. Grunnnám í almennri bókmenntafræði skilar sér í víðtækri, fjölþjóðlegri menntun sem kemur sér vel í ýmsum störfum í samfélaginu og er jafnframt sterkur grunnur undir framhaldsnám.

Samval með öðrum greinum

Nám í almennri bókmenntafræði kemur þeim vel sem hyggjast í framtíðinni kenna annaðhvort íslensku eða erlend mál og fer því vel á því að samþætta almenna bókmenntafræði þessum greinum. Auk þess er málaþekking mjög æskileg fyrir stúdenta í þessari grein og má því telja heppilegt að velja almenna bókmenntafræði ásamt einhverju tungumáli. Fyrir þá sem hyggja á störf á öðrum sviðum en við kennslu eða áframhaldandi bókmenntanám koma vitaskuld fleiri möguleikar til greina. Náin tengsl eru milli bókmennta og heimspeki, bókmennta og þjóðfélagsfræði, bókmennta og sagnfræði, svo og milli bókmennta og almennra málvísinda. Allar þessar greinar eru því heppilegar til samvals með almennri bókmenntafræði. Fyrir þá sem búa sig undir störf á bókasöfnum getur almenn bókmenntafræði einnig verið heppileg samvalsgrein.

Markmið

  • að gefa yfirlit yfir þróun bókmennta á Vesturlöndum og að nokkru leyti í öðrum heimshlutum,
  • að veita stúdentum þjálfun í að skilja og túlka bókmenntaverk af mismunandi gerðum og frá ýmsum tímum, auk þess sem hliðsjón er höfð af öðrum sviðum lista og menningar,
  • að miðla þekkingu á hugtökum og helstu vinnuaðferðum bókmenntafræði og leiðbeina við að nota með gagnrýni handbækur og önnur rit um bókmenntir, kvikmyndir og menningu almennt,
  • að veita stúdentum nokkra þjálfun í að fjalla um bókmenntir (sem og kvikmyndir og annað texta- og myndefni) á grundvelli sjálfstæðra athugana í ritgerðum með fræðilegu sniði.  

Kröfur

Mikilvægasta krafan til þeirra sem hefja nám í almennri bókmenntafræði er vitanlega að þeir hafi mikinn áhuga á bókmenntum og því meira sem þeir hafa lesið af góðum bókmenntum þeim mun betra. Nauðsynlegt er að stúdentar séu vel læsir á ensku og Norðurlandamál, en einnig er æskilegt að þeir geti a.m.k. stautað sig fram úr texta á þýsku og/eða einhverju rómönsku málanna. Flest námskeið eru kennd á íslensku og er vænn skilningur á henni að sjálfsögðu lykilatriði í náminu.

Kennsluhættir og námstilhögun

Kennsla í almennri bókmenntafræði fer fram í fyrirlestrum, samræðuformi og semínaræfingum. Í öllu náminu fléttast nokkuð saman bókmenntafræði, bókmenntasaga og bókmenntalestur og túlkun.

Stúdentar verða að gera ráð fyrir mikilli heimavinnu. Felst hún í fyrsta lagi í því að lesa og íhuga sjálfa bókmenntatextana og annað lestrarefni sem vísað er til í kennslunni. Tímasókn er mikilvæg en því aðeins hafa menn gagn af henni að þeir komi vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa lesið þá texta sem fjalla á um hverju sinni.

Annar mikilvægur þáttur heimavinnunnar felst í samningu semínarverkefna og ritgerða. Til þess að kennslan megi verða lifandi samstarf er nauðsynlegt að stúdentar taki sjálfviljugir að sér að undirbúa og flytja í tímum verkefni af ýmsum gerðum, en auk þess eru nokkrar ritgerðir hluti af prófi.

Lesefni er að langmestu leyti á íslensku og ensku. Kennsla fer allajafna fram á íslensku en stöku sinnum á ensku.

Í samræmi við reglugerð skiptist almenn bókmenntafræði í prófþætti og er hver þeirra alla jafna 10 einingar eða 5 e. Próf í prófþáttunum getur ýmist verið skriflegt eða munnlegt og oftast er ætlast til að nemendur skili heimaverkefnum. Í sumum tilvikum byggist námsmat eingöngu á heimaverkefnum.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.