MA-nám í íslenskukennslu | Háskóli Íslands Skip to main content

MA-nám í íslenskukennslu

Markmið meistaranáms í íslenskukennslu er að veita nemendum kennslufræðilega og vísindalega þjálfun og búa þá undir að kenna íslensku í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum. Að loknu meistaraprófi í íslenskukennslu geta nemendur fengið leyfisbréf sem framhaldsskólakennarar.

Umsóknarfrestur fyrir meistara- og doktorsnám á Hugvísindasviði er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri, en erlendra umsækjenda utan EES-svæðisins til 1. febrúar. Umsóknarfrestur á vormisseri er til 15. október. Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám á öðrum tímum ef sérstaklega stendur á. Umsóknum skal skilað til Nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans.

Inntökuskilyrði
B.A.-próf með fyrstu einkunn (7,25) í íslensku sem aðalgrein veitir aðgang að M.A.-námi í íslenskukennslu.

Aðgang að náminu geta einnig fengið nemendur með B.A.-  eða B.Ed.-próf í öðrum greinum ef þeir ljúka a.m.k. 120 einingum í íslensku eða skyldum greinum, þ.á m. námskeiðunum Inngangur að málfræði og Bókmenntafræði (eða sambærilegum námskeiðum) og a.m.k. sex kjarnanámskeiðum að auki.

Í öllum tilvikum er fyrsta einkunn á B.A.-/B.Ed.-prófi skilyrði fyrir inngöngu.

Námsskipan
Til meistaraprófs er krafist 120 e að loknu B.A.-prófi (180 e). Hægt er að velja annaðhvort samsett nám eða samþætt nám.

Í samsettu námi felst fyrra árið í  40 e í kennslufræðinámskeiðum (kjarna) sem eru tekin á Menntavísindasviði auk 20 e í valnámskeiðum sem að jafnaði eru einnig tekin á Menntavísindasviði. Seinna árið skiptist í 30 e í námskeiðum á meistarastigi í íslenskri málfræði og íslenskum bókmenntum (a.m.k. 10 e í hvorri grein) og 30 e meistaraprófsritgerð sem tekin er á Hugvísindasviði.

Í samþættu námi er sami 40 e kjarni í kennslufræðinámskeiðum, en 40 e eru teknar í námskeiðum á meistarastigi í íslenskri málfræði og íslenskum bókmenntum (a.m.k. 10 e í hvorri grein). Ritgerðin er einnig 30 e og skal vera kennslufræðilegs eðlis, en 10 e valnámskeið skal tengjast bæði faggrein og kennslufræði.

Val námskeiða er að nokkru leyti einstaklingsbundið og er því lögð mikil áhersla á samvinnu við leiðbeinanda. Ritgerðarefni velur stúdent í samráði við kennara sína.

Kennsluhættir og námsmat
Kennslan fer fram í formi fyrirlestra, umræðna og margs kyns verkefnavinnu og ritgerðasmíði. Í kennslufræðihluta námsins sinna nemendur æfingakennslu í framhaldsskóla. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda í kennslunni og í kennslufræðihlutanum er mikil hópvinna. Námsmat fer langoftast fram með ritgerðum og/eða fyrirlestrum.

Námsmarkmið
Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemendur

  • hafi þekkingu og skilning á völdum aðferðum og fræðikenningum sem beitt er við bókmennta- og málrannsóknir;
  • hafi góða þekkingu á völdum tímabilum og/eða sviðum íslenskrar tungu og bókmennta;
  • hafi innsýn í og skilning á þróun og stöðu þekkingar á sviði íslenskunáms og íslenskukennslu;
  • þekki opinbera skólastefnu og námskrá á Íslandi og sérkenni hennar í samanburði við nálæg lönd;
  • hafi þekkingu á námsgögnum í íslenskukennslu, kennsluleiðbeiningum og öðrum hjálpargögnum, hlutverki þeirra, eiginleikum og rannsóknum á notkun þeirra;
  • hafi þekkingu á almennri kennslufræði og góða þekkingu á kennslufræði íslensku, annaðhvort sem móðurmáls eða annars máls, og geti ígrundað mismunandi stefnur, strauma og þróun greinarinnar;
  • séu færir um að undirbúa íslenskukennslu í framhaldsskóla, einkum að afla gagna, velja kennsluaðferðir, búa til verkefni og ákveða námsmat;
  • þekki og kunni að nýta sér helstu kennslutæki og hugbúnað sem völ er á til íslenskukennslu;
  • hafi fengið nokkra reynslu af kennslu og starfsháttum í framhaldsskóla;
  • hafi þróað með sér sjálfstæð vinnubrögð og séu undir það búnir að semja kennsluefni í íslensku, einir eða með öðrum.

Nánari upplýsingar í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Framhaldsnám
Þeir sem hafa lokið M.A.-prófi í íslenskukennslu geta farið í meistaranám í íslenskri málfræði, íslenskum bókmenntum eða íslenskum fræðum.  Þeir geta þá endurnýtt þær 30 e sem þeir hafa tekið í námskeiðum á meistarastigi og þurfa því að taka 90 e í stað 120 í nýja náminu.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.