BA-nám í þýðingafræði | Háskóli Íslands Skip to main content

BA-nám í þýðingafræði

Þýðinganám er vísast það nám sem mesta möguleika veitir tungumálafólki til að nýta sér þekkingu sína í atvinnuskyni. Nám í þýðingafræði undirbýr nemendur í miðlun upplýsinga milli menningarheima og eru viðfangsefnin af margvíslegu tagi. Nemendur læra að meta upplýsingar og vinna með þær með það fyrir augum að færa þær á milli menningarheima eða kerfa.

Þýðingafræði er ný og vaxandi námsgrein við Háskóla Íslands, en kennsla hófst í henni árið 2001. Námið byggist bæði á sögulegum þætti fagsins allt aftur til fornaldar og nýjustu þýðingatækni með þýðingaminnum og öðrum forritum.

Markmið

  • að kynna nemendum helstu aðferðir og vinnubrögð í þýðingum og túlkun
  • að veita nemendum þekkingu á nýjustu tölvutækni þýðinga
  • að miðla þekkingu á hugtökum og helstu kenningum þýðingafræði
  • að gera nemendum kleift að meta verkefni sem þeim gætu staðið til boða 
  • að undirbúa nemendur fyrir nám á meistarastigi í þýðingafræði, nytjaþýðingum eða ráðstefnutúlkun

Kröfur
Helstu kröfur felast í góðri þekkingu á móðurmáli og erlendu máli og getu til að tjá sig á þessum málum í ræðu og riti. Einnig þarf að vera til staðar góð almenn þekking þar sem mörg verkefni þýðenda fela í sér að þeir verða að tileinka sér ný þekkingarsvið hratt og örugglega. Tjáningarhæfni og þekking eru því lykilkröfur.
 
Kennsluhættir og námstilhögun
Kennsla í þýðingafræði fer fram í fyrirlestrum og verklegum æfingum, bæði í málverum og tölvustofum. Nemendur eru þjálfaðir í að þýða og túlka, skrifa greinargerðir um verkefni sín og meta þau frá fleiri en einu sjónarhorni. Námið skiptist gróflega í þrjár meginstoðir, fræðilegan kjarna, móðurmál og erlent mál og geta nemendur valið námskeið saman eftir áhugasviðum sínum, t.d. hvort þeir stefna á nytjaþýðingar, túlkun eða bókmenntaþýðingar.

Húsnæði
Kennt er í Aðalbyggingu og ýmsum öðrum byggingum HÍ, tölvuverum og Tungumálamiðstöð.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám. 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.