Skip to main content

Íslensk vísindi í baráttunni við alnæmisveiruna

Valgerður Andrésdóttir, deildarstjóri við Tilraunastöð Háskólans í meinafræðum að Keldum

„Ef nýir veiruhindrar finnast fyrir mæði-visnuveiru er mjög líklegt að það gagnist við rannsóknir á HIV,“ segir Valgerður Andrésdóttir, doktor í sameindaerfðafræði við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum. Alnæmisveiran leggst á fólk en mæði-visnuveiran á sauðfé. Þrátt fyrir að þessar veirur leggist ekki á sömu líffæri í fólki og sauðfé eiga þær samt ýmislegt sameiginlegt. „Báðar hafa þær prótínið Vif (virion infectivity factor) sem virðist vinna eins í báðum veirum.“

Að sögn Valgerðar var mæði-visnuveiran einangruð og skilgreind á Keldum í kjölfar þess að á fjórða áratug síðustu aldar komu upp skæðir sauðfjársjúkdómar af völdum þessara veira hér á landi. „Hér var um að ræða mjög óvenjulegar veirur sem hvorki ollu bráðum né krónískum sjúkdómum heldur var skipað í sérstakan flokk sem kallaður var „hæggengar veirur“ eða „lentiveirur“.“

Valgerður Andrésdóttir

„Ef nýir veiruhindrar finnast fyrir mæði-visnuveiru er mjög líklegt að það gagnist við rannsóknir á HIV.“

Valgerður Andrésdóttir

Mikið frumkvöðlastarf var unnið í þessum rannsóknum á Keldum. Rannsóknirnar beindust aðallega að því að skýra samskipti veiranna við hýsilinn. Valgerður kynntist þessum rannsóknum og þótti þær mjög áhugaverðar. „Ég sá að mörgum spennandi spurningum var enn ósvarað,“ segir Valgerður sem haldið hefur rannsóknunum áfram. „Komið hefur í ljós að frumur manna og dýra hafa komið sér upp margháttuðum vörnum gegn lentiveirum en veirurnar hafa fundið leið fram hjá þessum vörnum hver í sínum hýsli. Rannsóknirnar beinast að því að skýra þessar veiruvarnir,“ segir hún.

Sem fyrr segir hafa lentiveirur prótínið Vif sem gerir veirunum kleift að komast fram hjá veiruvörnum hýsilsins. „Við höfum rannsakað hvernig Vif prótín mæði-visnuveiru vinnur gegn þekktum veiruhindra og við teljum okkur vera komin á sporið á áður óþekktum hindra,“ segir hún að endingu.