Skip to main content

Hvað þýðir að vera „góður í íslensku“?

Ásgrímur Angantýsson, dósent við Kennaradeild

Hópur fræðimanna við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri vinnur þessi misserin að yfirgripsmiklu rannsóknarverkefni um íslensku sem námsgrein og kennslutungu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Ásgrímur Angantýsson er einn rannsakenda og tekst á við nýstárlegt rannsóknarefni. „Rannsóknarverkefnið mitt snýst um táknrænt gildi þess að vera „góður í íslensku“ á vettvangi skólans,“ segir hann.

Ásgrímur Angantýsson

„Rannsóknarverkefnið mitt snýst um táknrænt gildi þess að vera „góður í íslensku“ á vettvangi skólans.“

Ásgrímur Angantýsson

„Kveikjan að verkefninu var sú tilgáta að skólinn hafi tilhneigingu til að verðlauna nemendur sérstaklega fyrir ýmsa kunnáttu og færni sem þeir hafa öðlast annars staðar en í skólanum og refsi að sama skapi þeim sem ekki hafa fengið slíka forgjöf. Íslenskunám og íslenskukennsla hefur ekki verið rannsökuð áður í þessu ljósi svo að ég viti,“ segir hann en bætir við að erlendar rannsóknir bendi til þess að félags- og menningarlegur bakgrunnur nemenda hafi verulegt forspárgildi um námsgengi, ekki síst í menningarþrungnum greinum eins og íslensku.

Rannsókn Ásgríms er ekki lokið en hann segir fyrstu niðurstöður benda til þess að nemendur hafi fremur skýrar hugmyndir um hvað þeir vilji fá út úr íslenskunáminu. „Það er einkum að ná góðum tökum á lestri, ritun og viðurkenndri málnotkun. Allur gangur virðist á því hvort nemendum er leiðbeint um málfar heima fyrir og að þeirra mati er fremur lítil áhersla lögð á slíka þætti í íslenskutímum. Engu að síður er það mat viðmælenda að þeir sem lesi mikið og hafi fengið málfarsleiðbeiningar utan skólans njóti þess í íslenskueinkunnum,“ segir Ásgrímur.

Hann bætir enn fremur við að ef áðurnefnd tilgáta verði studd af rannsóknargögnunum kalli það á frekari rannsóknir „og e.t.v. róttæka endurskoðun á kennsluháttum í íslensku og jafnvel skólastarfi almennt.“