Hvað er matreitt ofan í börn í sjónvarpi? | Háskóli Íslands Skip to main content

Hvað er matreitt ofan í börn í sjónvarpi?

Steingerður Ólafsdóttir, nýdoktor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

Matur er mannsins megin, segir máltækið, og börn eru þar engin undantekning. Finna má bæði beinar og óbeinar auglýsingar á mat og drykk í efni sem höfðar til yngstu kynslóðarinnar, t.d. í sjónvarpi, kvikmyndum og myndböndum. Steingerður Ólafsdóttir, nýdoktor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, tekst í rannsóknum sínum á við birtingarmyndir þessara nauðsynjavara í barnaefni í sjónvarpi. „Mér fannst mjög áhugavert að skoða innihald sjónvarpsefnisins nánar, ekki bara innihald auglýsinganna eða spurninguna um hve lengi börn sitja fyrir framan sjónvarpið,“ segir hún.

Steingerður Ólafsdóttir

„Mér fannst mjög áhugavert að skoða innihald sjónvarpsefnisins nánar, ekki bara innihald auglýsinganna eða spurninguna um hve lengi börn sitja fyrir framan sjónvarpið.“

Steingerður Ólafsdóttir

Steingerður rannsakar hve oft, með hvaða persónum og hvernig mismunandi flokkar matvæla birtast; annars vegar heilsusamlegur matur, eins og ávextir og grænmeti, og hins vegar orkuríkur og næringarsnauður matur, svo sem kökur, sælgæti og gos. Jafnframt skoðar hún hversu oft er talað um mat eða drykk í barnaefninu og í hvaða samhengi. „Gera má ráð fyrir að umfjöllun um mat í barnaefni geti haft áhrif á lifnaðarhætti barna rétt eins og auglýsingar. Þannig getur rannsókn sem þessi komið heimilum og skólum til góða sem umræðugrundvöllur um heilbrigða lifnaðarhætti,“ segir Steingerður um mikilvægi rannsóknarinnar.

Doktorsritgerð Steingerðar við Gautaborgarháskóla fjallaði um matarvenjur sænskra barna og sjónvarpsáhorf þeirra. Helstu niðurstöður sýndu að um fimmtungur þess matar og drykkjar sem birtist í barnaefninu er orkuríkur og næringarsnauður matur en um 40% eru ávextir og grænmeti. „Orkuríkur og næringarsnauður matur birtist hlutfallslega oftar í forgrunni en ávextir og grænmeti sem þýðir að það er einhver sem handfjatlar eða neytir hans. Ávextir og grænmeti voru oftar í bakgrunni, til dæmis sem ávaxtaskál. Áhugavert verður að sjá hvort niðurstöður úr hinum íslenska hluta rannsóknarinnar koma til með að ríma við þær sænsku,“ segir Steingerður um framhald rannsóknanna.

Netspjall