
Hnattræn heilsa
30 einingar - Viðbótardiplóma
Markmið diplómanáms í hnattrænni heilsu (30e) er að veita nemendum þverfræðilega þekkingu á hnattrænum áhrifaþáttum á heilsu einstaklinga, hópa og þjóða og færni til að vinna með viðfangsefni á fræðasviðinu. Námið er ætlað nemendum af mismunandi fræðasviðum, en það sameinar þekkingu hinna ýmsu fræðigreina, meðal annars innan heilbrigðis-, náttúru-, félags-, mennta- og umhverfisvísinda. Í náminu er fengist við fjölbreytt og þverfræðileg sjónarmið um áhrifaþætti á heilsu og vellíðan einstaklinga og hópa, óháð búsetu þeirra.

Um hvað snýst námið?
Í náminu eru kynntar helstu aðferðir, viðfangsefni og kenningar á fræðasviðinu. Áhersla er lögð á mannfræðilega sýn og þvermenningarlegan samanburð.
Diplómanámið skírskotar til breiðs hóps og gagnast þeim sem fást við verkefni sem tengjast hnattrænum áhrifaþáttum á heilsu einstaklinga, hópa og þjóða hvort sem það er á sviði félagsvísinda, hugvísinda, heilbrigðisvísinda, umhverfis- eða menntavísinda.
Skyldunámskeið veita innsýn í helstu áskoranir fræðasviðsins, mismunandi sjúkdómsbyrði og heilsufarslegan ójöfnuið milli hópa, landa og svæða, og uppbyggingu og fjármögnun heilbrigðiskerfa.
Diplómanám í hnattrænni heilsu hentar vel þeim sem stunda vinnu og vilja bæta við sig þekkingu á fræðasviðinu.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustuborðinu í Gimli
Netfang: nemFVS@hi.is
Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Opið virka daga frá 9 - 15
Sími: 525 4500
