Hjúkrunarfræði - önnur háskólagráða | Háskóli Íslands Skip to main content

Hjúkrunarfræði - önnur háskólagráða

Hjúkrunarfræði - önnur háskólagráða

Hefur þú áhuga á að breyta um starfsvettvang og gerast hjúkrunarfræðingur?

Viltu vinna náið með fólki með því að hlúa að heilsu og líðan þess?

Hefurðu áhuga á fjölbreyttu, krefjandi og gefandi starfi?

Hjúkrunarfræðinám fyrir fólk með aðra háskólagráðu gæti verið næsta skrefið hjá þér.

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði er að nemandi hafi lokið BA-, BS- eða BEd-prófi með lágmarkseinkunninni 6,5. Hann skal jafnframt hafa lokið að lágmarki 40 einingum samtals í undirstöðugreinum hjúkrunar, þ.e. aðferðafræði/tölfræði, félags-, sálfræði- og líffræðigreinum.

Allir nemendur fá metið lokaverkefni úr fyrra námi og valeiningar sem eru í núverandi námsskrá BS-náms í hjúkrunarfræði. Námsmatsnefnd Hjúkrunarfræðideildar mun meta námskeið sem nemendur leggja fram inn í námið. Fólk með aðra prófgráðu, sem uppfyllir öll skilyrði til námsins, þarf ekki að þreyta samkeppnispróf. 

Hámarksfjöldi nemanda er 20 og afmarkast af námsplássum og að lágmarki 15 nemendur þurfa að hefja námið haustið 2020 til þess að námsleiðin verði í boði. 

""

Skipulag náms

Námsleiðin er ætluð fólki sem lokið hefur öðru háskólanámi og byggir á samþjöppuðu námi með krefjandi og hraðri yfirferð. Hún er skipulögð sem tveggja ára nám, 11 mánuðir hvort námsár eða 22 mánuðir alls. Jafnframt munu nemendur bæta við sig klínískum námsstundum sem nema allt að fjórum mánuðum til að uppfylla viðmið tilskipunar um lengd klínísks náms. 

Við skipulag námsleiðarinnar hefur engum efnisþáttum verið sleppt en hins vegar hefur tekist að þjappa saman því efni sem námið tekur til.  

Styttri tími þýðir að námið er samfellt og fellur vel að kröfum nútímans hér á landi með hliðsjón af sams konar þróun í Evrópu um það hvernig námi skuli háttað. 

Um námið og undirbúningur

BS-nám í hjúkrunarfræði, fyrir fólk sem lokið hefur öðru háskólaprófi, er tveggja ára krefjandi nám og hefst kennsla þess haustið 2020. Nám í hjúkrunarfræði tekur til allra aldurshópa og helstu heilsufarsvandamála nútímans. Kennsla fer fram með fyrirlestrum, umræðutímum, verklegum æfingum, verkefnavinnu og dæmatímum. 

Mikilvægt er að umsækjendur skoði vel þær leiðir sem hægt er að fara til þess að undirbúa sig fyrir námið en krafist er 40 eininga samtals í undirstöðugreinum hjúkrunar. Æskilegt er að hefja þennan undirbúning að hausti 2019. 

Hér má finna námskeið sem boðið er upp á í undirstöðugreinum í hjúkrunarfræði.

Hér má lesa grein um námið og forsendur þess sem birt er í tímariti Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Hafðu samband

Skrifstofa Hjúkrunarfræðideildar
Eirberg, Eiríksgata 34
101 Reykjavík
Sími 525 4960
hjukrun[hja]hi.is

Opið virka daga frá kl. 10:00 - 15:00