Skip to main content

Helmingur notar Facebook á vinnutíma

Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

Í ljósi gríðarlegra vinsælda samfélagsmiðla hefur orðið talsverð umræða um möguleg neikvæð áhrif þeirra á framleiðni á vinnustöðum. Í þessu sambandi hefur verið bent á að fólk noti hugsanlega samfélagsmiðla á þeim tíma sem sinna eigi áríðandi verkefnum á vinnustað.

„Rannsókn mín snýst um persónulega samfélagsmiðlanotkun starfsfólks á vinnutíma,“ segir Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor í upplýsingafræði við háskólann sem nú kannar þetta atriði. „Markmið rannsóknarinnar beinist að því að sjá hvort og þá hvaða samfélagsmiðla svarendur notuðu almennt, hvort fyrirtæki og stofnanir á Íslandi hefðu opinn aðgang eða leyfðu aðgang að samfélagsmiðlum,“ segir Jóhanna.

„Þar sem sífellt hefur færst í vöxt að fyrirtæki og stofnanir hafi opið fyrir samfélagsmiðla vegna starfseminnar, m.a. í markaðsskyni og til þess að bæta þjónustu, þótti mér áhugavert að skoða samfélagsmiðlanotkun starfsfólks vegna einkaerinda á vinnutíma.“

Jóhanna Gunnlaugsdóttir

„Rannsókn mín snýst um persónulega samfélagsmiðlanotkun starfsfólks á vinnutíma. Markmið rannsóknarinnar beinist að því að sjá hvort og þá hvaða samfélagsmiðla svarendur notuðu almennt, hvort fyrirtæki og stofnanir á Íslandi hefðu opinn aðgang eða leyfðu aðgang að samfélagsmiðlum.“

Jóhanna Gunnlaugsdóttir

Um var að ræða tvennt, viðtalsrannsókn og spurningalistakönnun. Í könnuninni var kannað hvort svarendur notuðu samfélagsmiðla til þess að sinna einkaerindum á vinnutíma, hversu miklum tíma þeir verðu til slíkra nota og hvert væri viðhorf stjórnenda og annarra starfsmanna til slíkrar notkunar.

Helstu niðurstöður Jóhönnu í þessum hluta voru þær að meginþorri svarenda notaði samfélagsmiðilinn Facebook. Þá hafði um helmingur skipulagsheildanna opið fyrir og leyfði starfsfólki að hafa aðgengi að samfélagsmiðlum á vinnutíma.

„Tæplega helmingur svarenda nýtti sér þann möguleika og starfsfólk varði til þessa umtalsverðum tíma vinnudagsins. Meirihluti svarenda taldi að stjórnendur væru mótfallnir slíkri notkun en enn stærri hluti var þeirrar skoðunar að notkun sem þessi væri óviðunandi,“ segir Jóhanna.

Niðurstöður viðtalsrannsóknarinnar, þar sem Jóhanna ræddi við 20 starfsmenn í fimm fyrirtækjum og stofnunum, varpar á vissan hátt nýju ljósi á viðfangsefnið. „Þar kom fram að meirihluti viðmælenda taldi viðunandi að nota samfélagsmiðlana til einkanota á vinnutíma væri það gert í hófi. Ástæðan væri sú að samfélagsmiðlar kæmu nú í stað einkasímtala og tölvupósts svo að dæmi séu tekin. Þá kæmi einnig á móti að starfsfólk sinnti vinnunni oft í frítíma sínum,“ segir Jóhanna. Viðtölin tók hún við stjórnendur og aðra starfsmenn.

Rannsóknin í heild gefur mikilvægar upplýsingar um persónulega samfélagsmiðlanotkun á vinnustöðum. Nú þegar notkun snjalltækja hefur aukist, sem gerir fólki kleift að tengjast samfélagsmiðlunum á vinnustað án þess að nýta til þess tölvu sem þar er, er þessi rannsókn í raun enn mikilvægari. Niðurstöðurnar gætu nýst skipulagsheildum sem vilja meta kosti og galla notkunar samfélagsmiðla á vinnustaðnum.