Heildarsýn á heilsu | Háskóli Íslands Skip to main content

Heildarsýn á heilsu

Sveinn Guðmundsson, doktorsnemi við Félags- og mannvísindadeild

Margir hafa velt fyrir sér mætti hugans þegar kemur að líkamlegri heilsu; hvort jákvætt hugarfar, hugleiðsla, fyrirgefning og andlegar vorhreingerningar hjálpi til við að lækna líkamlega kvilla. Sveinn Guðmundsson, doktorsnemi í mannfræði, rannsakar ólgu meðal heilbrigðisstarfsfólks á Íslandi sem hefur áhuga á heildarsýn á heilsu og óhefðbundnum lækningum. Þá skoðar hann hvernig þeim gengur að koma þessum hugmyndum og meðferðarformum inn í vinnu sína sem heilbrigðisstarfsmenn.

Í rannsókninni er kastljósinu beint að hjúkrunarfræðingum og læknum sem hafa menntun eða áhuga á ýmsum óhefðbundnum meðferðum, hvernig þau nota meðferðirnar, hver sýn þeirra er á heilsu og samband huga og líkama. „Í meistaraverkefninu mínu tók ég viðtöl við fólk sem veitt hefur óhefðbundna læknismeðferð. Við vinnslu rannsóknarinnar tók ég eftir því að fjölmargir hjúkrunarfræðingar vinna við slíkt og þó nokkrir læknar hafa einnig sýnt þessum málum áhuga,“ segir Sveinn. Þar kviknaði áhugi hans á að rýna betur í þennan hljóða hóp heilbrigðisstarfsmanna sem er í raun brú milli heilbrigðiskerfisins og óhefðbundinnar heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Sveinn Guðmundsson

Í rannsókninni er kastljósinu beint að hjúkrunarfræðingum og læknum sem hafa menntun eða áhuga á ýmsum óhefðbundnum meðferðum, hvernig þau nota meðferðirnar, hver sýn þeirra er á heilsu og samband huga og líkama.

Sveinn Guðmundsson

Sveinn segir niðurstöðurnar sýna að hjúkrunarfræðingarnir og læknarnir í rannsókninni vilja gjarnan taka andlega, sálræna og félagslega þætti með þeim líkamlega í reikninginn. „Þeir telja að afar margir og ólíkir þættir geti haft áhrif á heilsu fólks og lyf og skurðlækningar ættu ekki alltaf að vera fyrsta úrræðið. Vægari og inngripsminni meðferðir, sem taka mið af heildarlíðan einstak- lingsins, geti hentað betur en lyfjagjöf og skurð- aðgerð,“ bætir Sveinn við.

Nýlegar rannsóknir sýna að ásókn Íslendinga í heildrænar og óhefðbundnar meðferðir hefur aukist jafnt og þétt en lítið annað hefur verið rannsakað en tíðni heimsókna til þeirra sem veita slíkar meðferðir. „Rannsóknin hefur mikið samfélagslegt gildi þar sem hún mun afla þekkingar um mögulega samþættingu og skurðpunkta þessara ólíku heilsukerfa, auka skilning á hvernig þetta samspil á sér stað, hvers vegna og á hvaða forsendum,“ segir Sveinn að lokum.

Leiðbeinandi: Jónína Einarsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild.

Netspjall