Skip to main content

Um BS nám í tannsmíði

BS nám í tannsmíði er krefjandi, fræðilegt og verklegt þriggja ára og 180e nám. Þar kynnast nemendur viðurkenndum aðferðum í tann- og munngervasmíði og raunverulegum verkefnum.

Tannlæknadeild er lítil og persónuleg deild þar sem lausnarleitarnám er haft að leiðarljósi í kennslu. Samkennsla er hjá tannsmiða - og tannlækna nemum, einkum á fyrsta misseri og í bóklegum fögum á seinni misserum. 

Grunnfög námsleiðarinnar eru form- og bitfræði, efna- og efnisfræði, líffærafræði, heilgóma- og partagerð, krónu- og brúargerð og tannréttingar.  Auk námskeiða sem búa nemendur undir rannsóknarvinnu og þátttöku í atvinnulífinu. 

Flestar kennslubækur í faginu eru á ensku eða Norðurlandamálum en kennsla fer fram á íslensku. 

Kennsla í bóklegum og verklegum námskeiðum er skipulögð sem lotukennsla eða sem námskeið sem kennd eru alla önnina.  

Fyrstu tvö árin fer þjálfun í tann-og munngervasmíði fram í verklegum kennslustofum námsbrautarinnar. Nemendur á þriðja námsári eru í skipulögðu vettvangsnámi á tannsmíðastofu Tannlæknadeildar og hjá samstarfsaðilum í atvinnulífinu, annað hvort hér á landi eða erlendis. Samhliða eru nemendur í fjarnámskeiðum sem búa þá undir að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn og vinna að undirbúningi rannsóknar sem lýkur með BS lokaverkefni  

Sjá nánari upplýsingar um samsetningu náms í tannsmíði í kennsluskrá HÍ

Á tannlækningastofu deildarinnar veita lengra komnir tannlækna- og tannsmiðanemar í verknámi almenningi þjónustu gegn vægu gjaldi. Öll vinna nemenda er unnin undir handleiðslu kennara.

Samkeppnispróf

Samkeppnispróf eru haldin í desember í lok fyrsta misseris og öðlast fimm efstu nemendurnir, sem náð hafa tilskildum lágmarkseinkunnum, rétt til áframhaldandi náms í tannsmíði.

Skoða reglur um samkeppnispróf í Tannlæknadeild.

Skiptinám

Nemendur í tannsmíði hafa nýtt sér möguleika á Erasmus skiptinámi á fimmta misseri námsins og fengið verklega þjálfun erlendis. Skiptinám gefur nemendum einstakt tækifæri á að kynnast nýju landi, menningu, tungumáli og fólki. Sjá nánar á Skrifstofu alþjóðasamskipta í Háskóla Íslands