Um námið í ljósmóðurfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Um námið í ljósmóðurfræði

Breytingar á námsskrá: Haustið 2019 er stefnt að upptöku breyttrar námsskrár í ljósmóðurfræði. Þá mun kantídatsnám í ljósmóðurfræði falla niður, í staðinn mun námi í ljósmóðurfræði ljúka með meistaragráðu til starfsréttinda. Frekari útfærslur á fyrirhuguðum breytingum verða kynntar síðar. 

MS-nám í ljósmóðurfræði er til 120 eininga en nemendur með kandídatspróf í ljósmóðurfræði fá hluta námsins metinn í MS-námið. Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og vinna nemendur meðal annars að eigin rannsóknarverkefni, rannsóknarskýrslu og tímaritsgrein.

Nemendur sem hafa lokið kandídatsprófi í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands fá metnar 42 einingar úr kandídatsnáminu og 30 einingar úr BS námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands eða sambærilegu námi. Þeir ljúka því 48 einingum; 18 einingum sem teljast til kjarna í meistaranámi og 30 eininga lokaverkefni. Ef nemandi hyggst ljúka meistaranámi í ljósmóðurfræði á einu ári þarf að gera áætlun um námið í samráði við umsjónarkennara við inntöku og leggja hana fyrir rannsóknanámsnefnd til 18 samþykktar. Gert er ráð fyrir að námið taki ekki lengur en tvö ár. Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og stór hluti þess er fólginn í vinnu nemenda að eigin rannsóknarverkefni, rannsóknarskýrslu og tímaritsgrein.

Inntökuskilyrði í námið er embættispróf í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands með fyrstu einkunn eða sambærilegt nám.

Allir nemendur sem stunda meistaranám við Hjúkrunarfræðideild ljúka kjarnanámskeiðum. Þeim er ætlað að efla færni nemenda í fræðilegum vinnubrögðum og gagnrýnni og greinandi nálgun á viðfangsefnið. Nemendur fá þjálfun í að leita að og nota gagnreynda þekkingu á sínu sérsviði og meta gagnsemi hennar. Auk þess beinist námið að því að auka færni við að greina hugmyndir og hugtök sem höfundar beita í umfjöllun um viðfangsefni á sérsviði hvers nemanda. Í námskeiðunum um aðferðafræði er lögð áhersla á að nemendur þekki helstu megindlegu og eigindlegu rannsóknaraðferðirnar, hvernig þeim er beitt og öðlist færni við að meta þær. Leitast er við að tryggja að nemendur hafi öðlast skilning á helstu hugtökum tölfræðinnar og séu færir í grunntölfræði. Með þessum námskeiðum er lagður grunnur að gagnreyndum starfsháttum í hjúkrunarstarfinu og færni við rannsóknarvinnu.