Um námið | Háskóli Íslands Skip to main content

Um námið

BS-nám í hjúkrunarfræði er fjögurra ára fræðilegt og klínískt nám til 240 eininga.

Nám í hjúkrunarfræði tekur til allra aldurshópa og helstu heilsufarsvandamála nútímans. Námið er fjölbreytt og kennsla fer fram með fyrirlestrum, umræðutímum, verklegum æfingum, verkefnavinnu og dæmatímum. Lögð er áhersla á að virkja sjálfstæði, frumkvæði og sköpunargáfu nemenda til að takast á við margbreytileg verkefni hjúkrunar. Í Hjúkrunarfræðideild eru stundaðar öflugar rannsóknir og er deildin með þeim bestu á heimsvísu. 

Í nútímalegu færnisetri fer fram hermikennsla sem er kennsluaðferð þar sem stuðst er við tilbúið umhverfi, aðstæður eða ástand. Lykillinn að árangursríku herminámi er góður undirbúningur, skýr námsmarkmið og raunhæf tilfelli í samræmi við þarfir þátttakenda. 

BS-próf í hjúkrunarfræði veitir rétt til að sækja um starfsleyfi hjúkrunarfræðings. Störf hjúkrunarfræðinga eru fjölbreytt og krefjandi og gera kröfur um skilning á mannlegu eðli. Fjölbreytt atvinnutækifæri bíða hjúkrunarfræðinga, bæði hér heima og erlendis. BS-próf í hjúkrunarfræði opnar auk þess leiðir að margs konar framhaldsnámi hér heima og erlendis. Um nám á diplóma, meistara og doktorsstigi má lesa nánar hér 

Skipulag námsins

Hjúkrunarfræði er einungis hægt að stunda sem aðalgrein. Námið er alls 240 einingar og er því 30 einingar á misseri ef fullt nám er stundað. Hámarkstími til námsins er 6 ár. Til að hefja nám í hjúkrunarfræði skal nemandi hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla.

Á fyrstu tveimur árunum fer fram kennsla í undirstöðugreinum hjúkrunar, í raun- og hugvísindum og í sjúkdóma- og lyfjafræði ásamt kennslu í hjúkrunarfræði. Eftir því sem líður á námið eykst vægi hjúkrunarfræðinnar og við tekur sérhæfðari hjúkrun, s.s. hjúkrun aldraðra, barna og geðsjúkra. Starfsþjálfun fer fram á öllum námsárum, ýmist samhliða eða í kjölfar fræðilegrar kennslu. Lokaverkefni til BS-prófs er unnið á 4. námsári og vinna nemendur það annað hvort einir eða tveir saman.

Tengt efni

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.