COVID-19 og kennsla á Heilbrigðisvísindasviði | Háskóli Íslands Skip to main content

COVID-19 og kennsla á Heilbrigðisvísindasviði

4. nóvember 2020

Tilkynning frá forseta Heilbrigðisvísindasviðs til starfsfólks og nemenda:

Miðað er við 10 manna regluna með eftirfarandi undantekningum:

 • Ekki skulu vera fleiri en 10 fullorðnir ein­staklingar í hverju rými, þó er starfsmönnum heimilt að fara milli hópa. Með rými er hér átt við kennslustofur og fundarherbergi, en gæta þarf sérstaklega að sóttvörnum í mjög litlum rýmum. Óhætt er að skilgreina okkar stærstu sali sem 2-3 rými ef hægt að að hafa hópa alveg aðskilda inni í rýminu.

Eftirfarandi atriði eru frá tilkynningu rektors sl. mánudag:

 • Verkleg og klínísk kennsla er heimil að uppfylltum kröfum um sóttvarnir og með því skilyrði að nemendur og kennarar noti hlífðargrímu.
 • Nemendur mega ekki fara milli hópa í kennslu en starfsfólki og kennurum er slíkt heimilt.
 • Í sameiginlegum rýmum innan skólans, t.d. við innganga, á göngum og salernum, má víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að allir noti hlífðargrímur.
 • Ekki er heimilt að hafa aðra viðburði í byggingum skólans nema þá sem tengjast námi eða kennslu.
 • Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum verða sótthreinsaðir milli nemendahópa auk þess sem sameiginlegur búnaður og snertifletir verða hreinsaðir daglega.

Við munum reyna að ljúka sem fyrst skipulagi á desemberprófum, og  nýta þá eins og unnt er nýjar leiðir í námsmati. Samkvæmt reglugerð ráðherra er heimilt að halda samkeppnispróf, þýðingarmikil lokapróf og staðbundnar námslotur fyrir allt að 30 manns í vel loftræstum rýmum. Tilkynning um staðpróf verður birt eigi síðar en 11. nóvember nk.

7. október 2020

Tilkynning frá forseta Heilbrigðisvísindasviðs til nemenda:

Um námsmat og próf á Heilbrigðisvísindasviði veturinn 2020 – 2021 gildir að staðbundin próf verða haldin auk þess sem kennari getur breytt námsmati í fjölbreytt námsmat dreift yfir áfangann og/eða heimapróf þegar það á við. Gæði náms og öryggi nemenda og kennara eru í fyrirrúmi. Það er skylda allra og ekki síst okkar heilbrigðisvísindafólks að fylgja sóttvarnareglum. Sömuleiðis er það skylda okkar að ýkja ekki upp hættur eða ýta undir hræðslu eins og til dæmis smithættu þegar öllum sóttvarnareglum er fylgt. Það er skylda háskólans að bjóða upp á nám og námsmat sem hefur þau gæði að það tryggi öryggi sjúklinga í framtíðinni.

Sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra hafa nú (7.okt., 2020) gefið út að 30 manns megi koma saman í háskólum. Starfsemi Háskóla Íslands heldur áfram og byggingar eru opnar. Í staðbundnum prófum verður gætt að sóttvörnum þ.e. fjöldatakmörkunum, a.m.k. tveggja metra fjarlægð milli þeirra sem taka próf, loftræstingu, og að hlífðargrímur séu við inngang í skóla/stofur. Prófbúnaður er þveginn með spritti. Prófaskrifstofa skipuleggur staðpróf þannig að öllum sóttvarnareglum sé fylgt. Kennara ber að skilja eftir símanúmer þannig að yfirsetufólk geti náð í hann meðan á prófatíma stendur. Vegna sóttvarnasjónarmiða getur kennari ekki gengið milli nemenda og átt samtal við hvern og einn. Kennarar þurfa að benda á leiðir til að koma athugasemdum um prófspurningar á framfæri. Það er hægt að gera með því að hafa í lok prófs ritgerðarspurningu sem gildir 0 stig og er ætluð fyrir athugasemdir. Nemendur í sóttkví munu geta tekið sjúkrapróf þegar boðið er upp á þau. Öryggi nemenda í staðbundnum prófum er því tryggt fylgi þeir persónulegum sóttvörnum.

Kennarar ráða námsmati og prófum þar með talið lengd prófa. Við skipulagningu heimaprófs sem áður hefur verið staðbundið er kennurum bent á möguleika til að auka gæði námsmatsins. Kennarar hafa heimild til að víkja frá fyrirfram tilkynntu skipulagi prófs þegar fyrirkomulaginu er breytt. Dagsetning prófa verður samkvæmt birtri próftöflu – nema í undantekningartilfellum og þarf þá skriflegt samþykki allra hlutaðeigandi, kennara og nemenda, að liggja fyrir.

Verði breytingar í samfélaginu sem leiða til breyttra leiðbeininga mun Háskóli Íslands og þar með talið Heilbrigðisvísindasvið bregðast við því.

Með þessu er með ábyrgum hætti komið til móts við nemendur og kennara í þeirri erfiðu stöðu sem samfélagið er nú í og er þá bæði hugað að sóttvörnum og hæfni heilbrigðisstarfsmanna til framtíðar.

22. september 2020

Tilkynning frá forseta Heilbrigðisvísindasviðs til nemenda og kennara:

Leiðbeiningar um grímunotkun á HVS.

 • Alltaf gildir að nálægð krefst grímunotkunar
 • Alltaf gildir að hætta á nálægð, þ.e. hætta á að fólk rekist hvert á annað o.sfrv., krefst grímunotkunar
 • Kennari sem er með kynningu/fyrirlestur í verulegri fjarlægð frá hlustendum/nemum þarf ekki að nota hlífðargrímu (ef óþægilegt er að tjá sig með grímuna)
 • Ekki þarf að hafa á sér hlífðargrímu þegar borðað er, en koma þarf algerlega í veg fyrir að fólk safnist saman og borði saman á sama tíma í litlum rýmum t.d. getur verið nauðsynlegt að skipta fólki í hópa sem leyft er að mæta í kaffistofur o.þ.h.
 • Ekki þarf að bera hlífðargrímu þegar fólk situr í a.m.k. 2ja metra fjarlægð frá öðrum í ágætlega loftræstu rými, t.d. ef starfsfólki í opnu rými finnst óþægilegt að sitja með hlífðargrímu má líta svo á að ekki sé þörf á grímu við skrifborðið

21. september 2020

Tilkynning frá Landspítala til nemenda og kennara:

Grímuskylda er nú á öllum starfsstöðum Landspítala. Frá því að komið er í hús og þar til farið er út. Eina undantekning er þegar fólk matast, en þá gildir 2m regla. Mikilvægt er að fylgja reglum um notkun gríma, þegar þær eru settar upp og fjarlægðar, sjá veggspjald á síðu Landspítala. Muna að fylgja reglum á starfsstöðum í hvívetna. Jafnframt eiga allir fundir/fyrirlestrar sem geta verið í fjarfundabúnaði  að vera það. 

25. ágúst 2020

Tilkynning til nemenda í klínísku námi á Landspítala:

Ert þú í sóttkví eða með flensulík einkenni?

Vegna Covid-19 er mikilvægt að brýna fyrir þeim sem eru í klínísku námi á Landspítala að kynna sér vel og svara eftirfarandi skimunarspurningum:

 • Ertu í sóttkví eða einangrun vegna Covid-19? Ef já þá áttu að halda þig heima og fylgja reglum Embættis landlæknis.
 • Hefur þú fengið Covid-19? Ef já, biðjum við þig að senda póst á starfsmannahjukrun@landspitali.is og í framhaldinu verða þér veittari frekari upplýsingar.
 • Ef þú ert með eða færð flensulík einkenni eins og hita yfir 38°C, hroll, hósta, mæði, bein/vöðvaverki, skert bragð – og lyktarskyn eða slappleika, þá þarft þú að láta umsjónarkennara vita og hafa samband við starfsmannahjukrun@landspitali.is. Þessar leiðbeiningar gilda einungis meðan á klínísku námi stendur. Annars átt þú að hafa samband við 1700 eða þína heilsugæslustöð. Komi til þeirra samskipta er mikilvægt að fram komi að þú sért í klínísku námi á Landspítala.
 • Er einhver í nánasta umhverfi þínu með flensulík einkenni (heimilisfólk, kærasti/kærasta)?  Ef já, sjá leiðbeiningar hér að ofan.

20. ágúst 2020

Tilkynning til nemenda í klínísku námi á Landspítala:

Sóttvarnarreglur Landspítala
 
Í ljósi aðstæðna vegna Covid19 er mikilvægt að allir kynni sér vel sóttvarnarreglur sem gilda fyrir starfsfólk á Landspítala. Því var ákveðið  að allir nemendur í klínísku námi á Landspítala staðfesti að þeir hafi lesið reglurnar og skuldbindi sig til að fara eftir þeim. Það er forsenda þess að taka þátt í námskeiðinu.

Verkefni verður sett inn á námskeiðið í Canvas og mun birtast í hádeginu fimmtudaginn 20. ágúst þar sem yfirlýsingin er verkefnalýsingin. Nemendur þurfa að SKILA verkefninu með textaboðum um að þeir hafir lesið og móttekið skilaboðin og samþykkt skilmálana ("Ég staðfesti hér með að ég hef kynnt mér sóttvarnareglur sem gilda fyrir starfsfólk á Landspítala og skuldbind mig til að fara eftir þeim") fyrir miðnætti 20. ágúst. Verkefnið gildir ekkert og skilin eru á netinu.

Ferðalög erlendis

Nemendur sem hafa verið utan Íslands sl. 14 daga áður en klínískt nám á að hefjast þurfa heimild Farsóttarnefndar Landspítalans fyrir klíníska náminu.

Eigi þetta við um nemanda, þá er hann vinsamlega beðinn að senda eftirfarandi upplýsingar á netfangið hrundsch@Landspitali.is og til umsjónarkennara námskeiðsins. 
Upplýsingarnar eru: nafn, kennitala, dags. komu til Íslands, landsvæði sl. 14 daga, svör við landamæraskimun, deild/sérgrein innan LSH.  Starfsmenn Landspítala munu sjá um umsókn til Farsóttarnefndar og vera í samskiptum við þig.
 

14. ágúst 2020

Notkun einnota gríma og hanska er skylda í verklegum og klínískum æfingum á Heilbrigðisvísindasviði. Nemendur í klínísku námi geta nálgast grímur og hanska á skrifstofum sinnna deilda eða námsbrauta. 

13. ágúst 2020

Tilkynning frá Heilbrigðisvísindasviði:

Ákveðið hefur verið að notkun einnota gríma og hanska verði skylda í verklegum og klínískum æfingum á Heilbrigðisvísindasviði þegar eins metra viðmið taka gildi frá og með 14. ágúst.

Þetta er gert með hliðsjón af talsverðum samgangi nema og kennara heilbrigðisvísindagreina við sjúklinga á heilbrigðisstofnunum.

Grímur og hanskar munu verða tiltæk við upphaf æfingar. Nánari upplýsingar um hvernig verður hægt að nálgast grímur og hanska verða sendar fyrir vikulokin.

6. ágúst 2020

Tilkynning frá rektor Háskóla Íslands:

Starfsemi við Háskóla Íslands haustið 2020

Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Nú líður að því að kennsla hefjist að nýju eftir sumarleyfi sem ég vona innilega að öllum hafi reynst vel. Í ljósi alvarlegrar stöðu varðandi útbreiðslu COVID-19 setur Háskóli Íslands öryggi allra, innan sem utan veggja skólans, í algeran forgang. Fyrirkomulag kennslu á haustmisseri mun þannig miða að því að tryggja velferð stúdenta og starfsfólks:

 • Tilmælum sóttvarnarlæknis verður fylgt í hvívetna. 
 • Ákvörðun um skipulag kennslu á haustmisseri verður kynnt á næstu dögum, en miðað við núverandi aðstæður er útlit fyrir að styðjast verði við rafræna kennslu að verulegu leyti.
 • Kostað verður kapps um að taka vel á móti nýnemum. 
 • Byggingar Háskólans verða áfram opnar fyrir nemendur og starfsfólk með ákveðnum takmörkunum. 
 • Leitast verður við að nýta byggingar háskólans til staðnáms eftir því sem kostur er.

Núgildandi tilmæli sóttvarnarlæknis gilda til 13. ágúst nk. og hvet ég ykkur öll til að kynna ykkur þau rækilega og fylgja þeim í einu og öllu.
Þær hömlur gilda að ekki mega fleiri en 100 fullorðnir koma saman og þá þurfa að vera a.m.k. tveir metrar (2m) á milli einstaklinga. Bera þarf andlitsgrímu ef þess er ekki kostur.
Tilhlökkun margra er mikil við að hefja nýtt skólaár og við munum sannarlega gera allt sem í okkar valdi stendur til að allir upplifi þann einstaka anda sem fylgir námi og starfi í Háskóla Íslands.

Bestu kveðjur,
Jón Atli Benediktsson, rektor
 

Tengt efni

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.