Sjálfbærni- og umhverfisstefna | Háskóli Íslands Skip to main content

Sjálfbærni- og umhverfisstefna

Sjálfbærni er víðfeðmt hugtak. Það snertir ekki einvörðungu umhverfismál, heldur einnig félagslegt réttlæti, heilsu og velferð, menningarmál og efnahagslíf. Að baki því býr vitund um þau takmörk sem náttúran setur umsvifum fólks.

Einnig felst í hugtakinu viðurkenning á því að mannkyn allt stendur frammi fyrir flóknu samfélagslegu verkefni ef takast á að sætta hugmyndir fólks og væntingar um „hið góða líf“ við takmörk náttúrunnar.

Í stefnu Háskóla Íslands 2011–2016 kemur fram að háskólinn muni setja sér metnaðarfulla umhverfisstefnu og vilji auka skilning og þekkingu fólks á sjálfbærni jafnt innan skólans sem utan.

Háskólinn getur stuðlað að aukinni sjálfbærni með þrennum hætti. Í fyrsta lagi stuðlar þekkingarleitin sjálf og starf kennara og nemenda innan skólans að sjálfbærni.

Í öðru lagi gegnir skólinn mikilvægu hlutverki í að tengja vísindalega þekkingu við samfélagið á ábyrgan hátt.

Í þriðja lagi getur skólinn lagt sitt af mörkum með því að huga að sínu eigin skipulagi, rekstri og heildarstefnu.

Sem öflug og alhliða rannsóknastofnun getur Háskóli Íslands aukið við þekkingu og skilning á sviði sjálfbærni á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Öll fimm fræðasvið háskólans koma þar við sögu. Nú þegar má finna fjölbreytt viðfangsefni af þessu tagi í rannsóknum og kennslu við skólann.

Menntun og rannsóknir á sviði sjálfbærrar þróunar kalla oft á þverfræðilega nálgun og samvinnu um leið og dýpt og sérþekking er sótt í einstakar fræðigreinar á öllum fræðasviðum.

Ítarefni

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.