Reglur um Reiknistofnun Háskólans | Háskóli Íslands Skip to main content

Reglur um Reiknistofnun Háskólans

Netspjall

Reglur um Reiknistofnun Háskólans, nr. 572/2009

PDF-útgáfa

1. gr.  Almennt

Reiknistofnun Háskólans (RHÍ) er þjónustustofnun starfrækt af Háskóla Íslands og heyrir undir háskólaráð. Verkefni sín rækir stofnunin í nánu samstarfi við framkvæmdastjóra fjármála og reksturs háskólans.

2. gr.  Hlutverk

Hlutverk stofnunarinnar er:

 1. að vera háskólaráði og einstökum fræðasviðum og deildum til ráðuneytis um upplýsinga- og tölvutækni og leggja reglulega fram tillögur um skipulag og framkvæmd upplýsingamála; ennfremur að byggja upp og reka upplýsinga- og gagnanet fyrir Háskóla Íslands, og annast þjónustu við notendur,
 2. að koma upp og reka, í nánu samráði við fræðasvið og deildir, aðstöðu fyrir nemendur allra deilda til kennslu og náms í greinum þar sem notkunar tölvu er þörf,
 3. að annast rekstur upplýsingatæknimiðstöðvar við Háskóla Íslands til úrvinnslu verkefna kennara, nemenda og annarra starfsmanna háskólans og stofnana hans,
 4. að annast hugbúnaðar- og tækniþjónustu fyrir aðila utan háskólans, þó hafi þarfir háskólans forgang við val verkefna,
 5. að fylgjast með alhliða þróun í tölvutækni og gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum til kynningar á nýjungum og stöðlum,
 6. að hafa yfirsýn yfir eign, notkun og þekkingu Háskóla Íslands á tölvubúnaði og stuðla að hagstæðum og samræmdum innkaupum,
 7. að tryggja vitneskju starfsmanna og nemenda um þá þjónustu sem stofnunin veitir og kunnáttu þeirra til að nota hana.

3. gr.  Stjórn og stýrihópur

Háskólaráð skipar stofnuninni stjórn til þriggja ára í senn að fenginni einni tilnefningu frá hverju fræðasviði háskólans og frá háskólarektor. Sá sem rektor tilnefnir skal vera formaður stjórnar, en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Forstöðumaður og deildarstjórar mynda stýrihóp stofnunarinnar sem hefur með höndum daglegan rekstur. Forstöðumaður leiðir stýrihópinn.

4. gr.  Stjórnarfundir

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, og með hæfilegum fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur þá hann, eða sá sem sækir fundinn í umboði hans, málfrelsi og tillögurétt á fundinum.

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum.

Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor.

Forstöðumaður situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

5. gr.  Verkefni stjórnar

Stjórnin annast stefnumótun, sem forstöðumaður framkvæmir, og hefur almenna yfirsýn yfir starfsemi stofnunarinnar.

6. gr.  Forstöðumaður og starfsmenn

Rektor ræður stofnuninni forstöðumann að fenginni umsögn stjórnar og framkvæmdastjóra fjármála og reksturs og setur honum erindisbréf. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri stofnunarinnar og leiðir stýrihóp hennar. Hann annast gerð rekstraráætlana og gjaldskrár fyrir selda þjónustu, ræður starfslið í samráði við framkvæmdastjóra fjármála og reksturs og sér um framkvæmd á þeim málum sem hann felur honum. Rekstraráætlanir og gjaldskrár skulu bornar undir framkvæmdastjóra fjármála og reksturs.

Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs og rektor.

7. gr.  Fjármál

Tekjur stofnunarinnar eru:

 1. fjárveitingar skv. ákvörðun háskólaráðs, sem miðað er við að standi undir rekstri samkvæmt liðum a, b og c í 2. gr.,
 2. fjárveitingar skv. ákvörðun háskólaráðs til ákveðinna tímabundinna verkefna sem stofnuninni er falið að annast,
 3. tekjur af þjónustu sem seld er utan og innan skólans,
 4. styrkir sem stofnunin og starfsmenn hennar afla úr rannsóknasjóðum til rannsóknaverkefna,
 5. styrkir, gjafir og aðrar tekjur.

Fjárveitingar og tekjur af þjónustu skulu standa undir fjárþörf stofnunarinnar til reksturs og tækjakaupa miðað við eðlilegan endingartíma. Stofnunin getur þó sótt um fjármagn til meiriháttar tækjakaupa af happdrættisfé.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans.

Sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

8. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 735/2001 um Reiknistofnun Háskólans.

Háskóla Íslands, 16. júní 2009

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.