Hvernig er A-prófið uppbyggt? | Háskóli Íslands Skip to main content

Hvernig er A-prófið uppbyggt?

A-prófinu er skipt í fimm hluta. Hver prófhluti er sjálfstæð eining með tímamörk. Gefnar eru einkunnir fyrir málbundna færni og magnbundna færni. Málbundin færni varðar tungumál og lestur en magnbundin færni stærðfræði og magnbundnar upplýsingar.

 • Í málbundinni færni eru tveir prófhlutar í íslensku og einn í ensku.
 • Í magnbundinni færni er könnuð færni er lýtur að stærðfræði og vinnu með upplýsingar á tölulegu formi í töflum, myndum eða texta.

Deildir ákveða hvernig niðurstöður prófsins og einstakra prófhluta eru notaðar. Gert er ráð fyrir að allir prófhlutar vegi jafnt í heildareinkunn nema einstakar deildir ákveði annað. Fjöldi prófatriða og próftími í hverjum hluta er breytilegur en próftími er þrjár og hálf klukkustund auk 30 mínútna hlés. Markmið hvers prófhluta eru eftirfarandi:

 1. Lesskilningur (Tímamörk prófhluta: 40 mínútur):
  Reynir á skilning á almennum og fræðilegum textum á íslensku. Metin er færni við að meta flókna texta um ólík efni. Textar geta verið 100 til 700 orð. Próftakar þurfa að sýna skilning á einstökum atriðum í texta, samhengi og tilgangi texta, draga ályktanir, fylgja rökfærslum og skilja textann sem heild.
   
 2. Stærðir og reiknanleiki (Tímamörk prófhluta: 50 mínútur):
  Metin er færni til að vinna með magnbundnar upplýsingar og tölur á sem fjölbreyttustu formi. Þótt þessi hluti krefjist stærðfræðikunnáttu að vissu marki er megináherslan á röklega og magnbundna úrvinnslu upplýsinga. Nokkrar tegundir prófatriða eru í þessum hluta. Meðal annars þarf próftaki að meta hvort gefnar upplýsingar séu fullnægjandi til að leysa verkefni. Einnig reynir á rúmfræðilegar og tölulegar hliðstæður og meðhöndlun magnbundinna upplýsinga og talna. Í þessum hluta er ekki notuð reiknivél heldur eiga próftakar að meta eða bera saman upplýsingar.
   
 3. Enska (Tímamörk prófhluta: 40 mínútur):
  Könnuð er færni við að meta flókna texta á ensku um ólík efni. Textar geta verið 100 til 700 orð. Hér reynir á skilning á einstökum atriðum í texta, samhengi og tilgangi texta og mat á ályktunum, rökfærslum og textanum sem heild. Einnig reynir á skilning á ensku málfari og málkennd.
  .
 4. Upplýsinganotkun (Tímamörk prófhluta: 50 mínútur):
  Könnuð er færni til að túlka og meta upplýsingar eða skoðanir sem settar eru fram í texta, töflum eða myndum. Prófhlutinn reynir á færni við að vinna með upplýsingar sem settar eru fram með ólíkum hætti.
   
 5. Málfærni (Tímamörk prófhluta: 30 mínútur):
  Metinn er skilningur á hnitmiðuðu og markvissu málfari á íslensku.

Prófið verður tekið á tölvur

Nemendur skulu mæta með eigin fartölvur og taka prófið á þær. Hér er hægt að opna sýnipróf í rafræna prófakerfinu Inspera. Þetta próf er öllum opið og hægt er að taka það á hvaða nettengda tölvu sem er. Í prófinu lokar Inspera vélum nemenda þannig að ekki verður hægt að nota þær til annars en að taka prófið. Áður en að prófi kemur fá nemendur nákvæmar leiðbeiningar um hvernig þeir geta prófað hvort vélar þeirra ráði við að taka próf í lokuðu umhverfi Inspera. Þeir sem ekki eiga fartölvu eða að tölvur þeirra ráða ekki við prófaumhverfið í Inspera geta sótt um að taka prófið á Chromebook-tölvur Háskóla Íslands.

Vegna þessa fyrirkomulags er mjög mikilvægt að væntanlegir próftakar fylgist mjög vel með pósti frá HÍ, sem berst eftir að skráningu lýkur, og fari eftir þeim leiðbeiningum sem þar koma fram. Allir próftakar verða beðnir að staðfesta próftöku sína og gera grein fyrir hvort þeir mæti með eigin vél eða óski eftir afnotum af tölvum HÍ.
 

Prófgerðarferlið og útreikningur

Við gerð A-prófs er unnið eftir almennt viðurkenndu verklagi í prófagerð. Prófatriði eru forprófuð og metin af sérfræðingum. Kerfisbundið er haldið utan um það að innihald prófútgáfna sé sambærilegt frá einni fyrirlögn prófsins til annarrar og að þyngd þess sé eins svipuð og unnt er. Við gerð prófatriða er hugað að því að prófið sé ekki miðað við ákveðið námsefni, þau reyni á skilning og beitingu íslensku, ensku og magnbundinnar hugsunar í formi stærðfræði og vinnu með töflur og talnalegar upplýsingar. Tölfræðileg atriðagreining er gerð á prófatriðum til að unnt sé að hafa stjórn á þyngd prófsins frá einum tíma til annars.

Notkun á niðurstöðum

Útreikningur einkunna á A-prófi er á stöðluðum einkunnastiga sem nær frá 150 upp í 250 stig. Deildir geta ákveðið að nota meðaleinkunnir úr stúdentsprófi sem hluta af inntökuviðmiði, hvort heldur sem er heildarmeðaleinkunnir eða meðaleinkunnir úr ákveðnum áföngum, til dæmis kjarnagreinum.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.