Aðdragandi A-prófs | Háskóli Íslands Skip to main content

Aðdragandi A-prófs

Í janúar 2012 hóf Háskóli Íslands þróunarverkefni sem miðar að því að hanna almennt próf sem nota má við val á nemendum inn í grunnnám háskóla hér á landi. Heiti prófsins er Aðgangspróf fyrir háskólastig, skammstafað A-próf frá árinu 2015.

A-próf er samræmt og almennt aðgangspróf á íslensku sem ætlað er til stuðnings við inntöku háskólanema. Prófið byggist á erlendum fyrirmyndum, svo sem SweSAT í Svíþjóð og ACT og SAT í Bandaríkjunum. A-prófið á það sameiginlegt með þessum prófum að því er ekki ætlað að prófa einstök þekkingaratriði úr námsefni framhaldsskólans. Þess í stað er því ætlað að prófa áunna færni nemenda eftir framhaldsskólanám og spá þar með fyrir um getu þeirra til að ná árangri í háskólanámi.

Þróunarverkefnið er unnið undir forystu hóps sem gerir grein fyrir störfum sínum til kennslumálanefndar háskólaráðs Háskóla Íslands. Allir íslenskir háskólar hafa aðgang að prófinu og geta nýtt sér það ef þeir kjósa.

Markmið þróunarverkefnisins er að íslenskir háskólar hafi í framtíðinni aðgang að samræmdu og almennu viðmiði við ákvarðanir um inntöku í háskóladeildir, í þeim tilvikum þar sem nauðsynlegt eða æskilegt er talið að takmarka aðgang að háskólanámi umfram það sem nú er almennt gert á grundvelli stúdentsprófs.

Síaukin fjölbreytni náms á framhaldsskólastigi hefur skapað þörf fyrir þróun íslensks aðgangsprófs fyrir háskólastigið.

Læknadeild Háskóla Íslands hefur frá árinu 2003 notað inntökupróf (samkeppnispróf) við val á nemendum í nám í sjúkraþjálfun og læknisfræði. Sátt hefur ríkt um þessa aðferð og telur deildin hana hafa marga kosti umfram samkeppnispróf að loknu fyrsta misseri sem voru notuð á árum áður. Sjá nánar á heimasíðu Læknadeildar.

Einn mögulegur ávinningur af þróun A-prófs er sá að koma í veg fyrir þá stöðu að einstakar háskóladeildir þrói hver um sig sérstök inntöku- eða aðgangspróf. Slíkt gæti leitt til þess að stúdentar þurfi að þreyta mörg próf og eigi erfitt með að komast inn í aðra námsleið en þá sem þeir helst kjósa.

Árin 2012-2014 var prófið haldið einu sinni á ári en frá og með árinu 2015 verður Aðgangsprófið haldið í mars og júní. Þær deildir í Háskóla Íslands sem nota prófið gefa nemendum kost á að þreyta prófið í bæði skiptin, þó með þeirri undantekningu að Læknadeild heimilar einungis próftöku í júní (Sjá nánar undir kaflanum Spurt og svarað).

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.